Lesa meiraAf hverju trúi ég? "/> Skip to content

Af hverju trúi ég?

Í heimspekinni lærði ég það að við ættum aldrei að fullyrða hvort eitthvað sé til eða ekki til nema að gá að því fyrst. Ef ég fer inn í fatabúð og sé þar fallegan kjól sem er í stærð small, stærð sem ég hef ekki notað síðan um fermingu og ég spyr afgreiðslumanninn hvort hann eigi kjólinn í large og hann neitar án þess að kanna lagerinn þá fer ég út úr búðinni með þá tilfinningu að kjóllinn gæti verið til, kjóllinn sem hefði gert svo mikið fyrir mig á árshátíð Prestafélags Íslands sem verður haldin einhvern tímann.
Ef afgreiðslumaðurinn ( karl/kona) hefði farið bak við og leitað af sér allan grun þá væri ég sáttari. Hins vegar er sumt sem ekki er beinlínis hægt að sannreyna með því einu að gá, til dæmis það hvort Guð sé til, þess vegna segi ég aldrei “Guð er til” heldur “ég trúi á Guð” eða “ég trúi að Guð sé til” ástæðan fyrir því að ég trúi á Guð er margbrotin en kannski er mikilvægasta ástæðan sú að ég þarf á því að halda til að geta orðið öðrum að liði. Þegar ég rækta ekki trú mína verð ég eigingjörn og sjálflæg, hefur bara eitthvað með minn karakter og geðkvilla að gera. Ég myndi aldrei fullyrða að það ætti við um alla, kannski nægir sumum að borða hollt og hreyfa sig og sleppa brennivíni til að vera gefandi og góðir, kannski er trú mín einmitt merki um vanmátt minn að geta ekki unnið að þessu sjálf með bjargráðum lífsins, að þurfa að horfa til einhvers æðri máttar, að finna ekki frið í eigin getu. Ef svo er þá er mjög mikilvægt að gera ekki lítið úr því bjargráði því það er hagur heimsins að hver maður finni sína leið til að valda sem minnstum skaða, af því að öll völdum við einhverjum skaða og ekkert okkar mun bjarga þessum heimi með einu höfði og hjarta

Published inPistlar