Lesa meiraFerðamannaiðnaður eða þjónusta "/> Skip to content

Ferðamannaiðnaður eða þjónusta

Ég er alin upp með ferðamönnum og þess vegna þykir mér mjög vænt um þá. Ég sleit barnsskónum í Laufási við Eyjafjörð. Margir merkir klerkar hafa setið þann stað enda verið þar kirkja frá fyrstu kristni, sennilega er Björn Halldórsson þeirra þekktastur en hann þjónaði í Laufási á 19.öld og orti marga fallega sálma þar á meðal jólasálminn hugljúfa „Sjá himins opnast hlið.“ Kirkjan í Laufási var byggð árið 1865 og einnig er þar torfbær sem var byggður upp í tíð séra Björns á árunum 1866 – 1870, bærinn stendur enn í sinni upprunalegu mynd Foreldrar mínir sátu staðinn í 25 ár, pabbi var prestur og mamma svona „aðstoðarprestur“ í sjálfboðastarfi því hún helgaði líf sitt starfi kirkjunnar og hélt stórt og gestkvæmt heimili, annars er hún menntaður hárgreiðslumeistari svo því sé til haga haldið. Ég er yngst sex systkina, á sumrin sýndum við ferðamönnum gamla bæinn . Yngra systkini tók við af því eldra og þess vegna var auðvitað tímabært fyrir foreldra mína að flytja af staðnum þegar ég var orðin 13 ára og enginn eftir í kotinu til að taka við af kvikindinu. Að vísu var pabbi kosinn vígslubiskup á þeim tíma sem hefur eflaust eitthvað spilað inn í ákvörðun þeirra.
Nema hvað, ég var 10 ára gömul þegar ég hóf störf í gamla bænum í Laufási en hann var opinn alla daga nema mánudaga frá kl 9 -18, það er ástæðan fyrir því að mér er alltaf frekar hlýtt til mánudaga og á erfitt með að líta á þá sem mistök af hendi skaparans því mánudagar voru hvíldardagar æsku minnar. Öll ábyrgð var auðvitað á herðum foreldra minna en eðli málsins samkvæmt gat pabbi ekki fest sig við þennan opnunartíma því söfnuðurinn þurfti á þjónustu hans að halda og mamma átti alveg feykinóg með að reka félagsheimili í húsinu okkar. Ég er líka óendanlega þakklát fyrir þessa reynslu og lít alls ekki á hana sem einhvers konar barnaþrælkun þó svo að hún yrði næstum því til þess að ég yrði af skipulagðri sundkennslu en á þessum tíma fór hún einungis fram á sumrin vegna þess að sundlaug Grýtubakkahrepps var inn með Gljúfurá og vegurinn þangað var bara fær yfir blásumarið. Þá var sundlaugin sem tekin var í notkun á lýðveldisárinu 1944 orðin svo hættuleg að það þótti ekki verjandi að nota hana á vetrum, veggurinn sem sneri út að ánni var ótraustur og sennilega talið ívið verra ef okkur krökkunum skolað út í á um vetur en sumar. Að vetri hefðum við hugsanlega líka orðið úti milli sundtíma þar sem við hímdum skjálfandi upp í móa með heitt kakó og ostabrauð, það sem ekki drepur mann herðir mann, ekki satt?
En aftur að Laufási og ferðamannaiðnaði…….er þetta orð annars enn notað? Ferðamannaiðnaður, það meikar sens að segja klámiðnaður af því að í klámi er fólk einmitt hlutgert en hvað er átt við með ferðamannaiðnaði? Er verið að nota fólk? Ég held að við ættum ekki að nota ekki þetta orð, iðnaður á betur við um dótaframleiðslu, ferðaþjónusta er hins vegar mjög gott orð, minnir á göfugt markmið, þjóna fólki og elska náungann eins og sjálfan sig.
Þegar ég var að sýna gamla bæinn þá man ég eftir því að eiga draum um að Laufás yrði svona alvöru túristastaður, í draumnum var kaffihús í smiðjunni þar sem mamma stæði með hvíta harðangurssvuntu og seldi heimabakaðar kleinur og marsípansnúða og svo væru seldir minjagripir í anddyri bæjarins og þannig gæti ég verið í alvöru búðarleik á launum. Ég man að mamma var alveg pínu volg fyrir þessari kaffihúsahugmynd en pabbi var hins vegar á öðru máli, mér fannst hann nú reyndar alltaf vera á annarri öld, en það er nú önnur saga. Hann talaði um þennan Björn Halldórsson eins og þeir hefðu verið saman í bekk í grunnskóla, maðurinn löngu dáinn áður en pabbi fæddist. Nei pabbi sagði alltaf, „ heldurðu Hildur mín að fólk sé komið hingað í Laufás til að eyða peningum, nei elskan mín það er komið til að anda að sér sögunni og ganga um þennan bæ sem er alveg eins og hann hafi verið yfirgefinn í gær. ” Á þessum tíma var ég jafn ósammála honum í þessu og þeirri gegndarlausu vitleysu að ég mætti ekki fara ein á ball og vera fram eftir nóttu innan um sauðdrukkið fólk og barsmíðar. Í dag sé ég þetta í örlítið öðru ljósi, bæði það sem snýr að minjagripum og eins ballferðum barna undir lögaldri. Ég held að þessi svokallaða sérviska föður míns hafi einmitt verið mikilvæg og góð, ég held nefnilega að ferðaþjónustan þurfi oftar að fá fjarsýnisgleraugun hans pabba að láni. Það skiptir svo miklu máli að drekkja ekki náttúrperlum og sögufrægum stöðum í sölumennsku og muna að allt hefur sinn stað rétt eins og allt hefur sinn tíma.
Þó ég sé prestur er ég alls ekki á móti þeirri þróun að veitingastaðir og ákveðnar verslanir séu opnar á helgidögum jafnt jólum sem páskum, túrisminn er orðinn heilsárs á Íslandi og við því verður að bregðast, þess vegna verða veitingastaðir að vera opnir á aðfangadagskvöld, jóladag , föstudaginn langa og páskadag, fólk verður víst að borða þó frelsarinn sé upprisinn. En svo verðum við líka að horfa á hlutina í stærra samhengi, það þarf ekki að planta sjoppum og lundabúðum á öllum stöðum sem vekja áhuga hins forvitna ferðamanns. Ferðamannaiðnaður spyr einmitt um krónur og aura meðan ferðaþjónustan spyr um gæði, mennsku og verndun sögu og náttúru, ferðamannaiðnaður sér allstaðar tækifæri meðan ferðaþjónusta býr til tækifæri, ferðamannaiðnaðurinn er hér og nú en ferðaþjónustan horfir til framtíðar. Staðreyndin er að sá gróði sem við á endanum viljum sjá vex upp af þjónustu, allt það besta sem gerist í þessu lífi kemur af löngun mannsins til að þjóna, lykillinn að farsælu hjónabandi fæst með löngun beggja aðila til að þjóna fyrst en ekki græða, lykillinn að góðu uppeldi er fólgið í skilyrðislausum kærleika sem er þjónandi og fórnfús, lykillinn að blómstrandi ferðaþjónustu er gestrisni og þjónusta, skapandi hugsun og virðing fyrir sjálfum sér og öðrum. Græðgin er lævís og lipur, við skulum gæta þess að verða henni ekki að bráð, því þá fyrst byrjum við að tapa.
(Flutt á Ferðamálaþingi 2015 í Hofi)

Published inPistlar