Skip to content

Það er flókið að vera manneskja

Það er flókið að vera manneskja,
ekki sambærilegt því að reikna stærðfræði
eða semja dróttkvæði
stjórna seðlabanka
og mynda fullkomna ríkisstjórn.
Það er alls ekki eins og að
syngja íslenska þjóðsönginn
án þess að lenda í andnauð
eða steikja kleinur sem hvorki eru of dökkar né ljósar.
Greiða úr flæktri jólaseríu
og skera andlit forsætisráðherra út í laufabrauð.
Þetta er flóknara en að læra trúarjátninguna fyrir fermingu
og velja nýjan forseta,
vera töff kirkja
og kynþokkafullur prestur
í fullum skrúða.
Vinna bæði með upprisuna
og dauðann.
Nei það er flókið að vera manneskja
á þann hátt sem enginn skilur, nema hafa reynt
og þess vegna skulum við halda áfram að tala um hvað það merkir að vera manneskja,
þar til allur heimurinn er með
og engum líður lengur eins og hann sé einn ( HEB)

Published inPistlar