Lesa meiraVídeóleigur "/> Skip to content

Vídeóleigur

Heimur batnandi fer,samt hellist stundum yfir mig gegndarlaus fortíðarþrá sem bítur í barnslega hjartað. Ég er allt í einu komin með vídeóleigur á heilann,sakna þeirra eitthvað svo mikið. Nú hugsa ég bara um lyktina af blandi í poka og unglingahormónum sem léði þessum fornu menningarhúsum svo viðkunnanlegan blæ. Þá sá maður líka oft hverjir voru að byrja saman, ástfangin pör að leigja sér mynd og í dópamínrússinu samþykktu hörðustu naglar kannski að taka The Bridges of Madison county eða jafnvel Pretty woman þótt þeir hefðu frekar brutt lýsisperlur en að horfa á þetta meðan þeir voru einhleypir. Þarna sá maður líka alvöru kvikmyndanyrði sem vissu í alvörunni hverjir hönnuðu hljóðeffekta í myndunum sem þeir voru að leigja, þetta voru svona týpur með yfirnáttúrulegan orðaforða í ensku og drukku kók í morgunmat. Svo voru það miðaldra hjónin sem leigðu sér franska mynd um önnur miðaldra hjón í tilvistarkreppu, þetta voru svona týpur sem létu sér nægja að kaupa Gajol af því að þau voru að vona að myndin myndi segja þeim að skilja og þá væri betra að vera sæmilega útlítandi. Og helgarpabbarnir sem leyfðu þriggja ára börnum að kaupa bland í poka fyrir 500 kall af því þeir voru með samviskubit. Af hverju eru allir að hala niður myndum þegar við gætum verið að hittast og spegla okkur hvert í öðru? Við þurfum á því að halda

Published inPistlar