Lesa meiraTakk "/> Skip to content

Takk

Á netinu las ég erlenda grein sem fjallar um hvernig iðkun þakklætis hefur áhrif á framleiðslu taugaboðefna sem stjórna andlegri líðan. Í greininni kemur m.a. fram að viðleitnin ein og sèr til að finna eitthvað þakkarvert í lífi sínu verður til að hækka í serótónín og dópamín lóni heilans. Skortur á þessum boðefnum eru talin valda andlegri vanlíðan og hafa áhrif á sjálfsmynd okkar og sýn á samferðarfólkið. Þess vegna skiptir máli að framleiðslan sé í jafnvægi. Í greininni kemur fram að iðkun þakklætis hafi taugalífeðlisfræðileg áhrif á heilastarfsemi okkar. Þetta á sér auðvitað samhljóm við þá staðreynd að þegar við verðum t.d. ástfangin þá eykst dópamínframleiðsla heilans, þá líður okkur eins og við svífum á draumbleiku skýi. Þegar makinn verður svo að sjálfgefnum hlut lækkar í dópamínlóninu og við förum að sjá ýmsa galla í fari okkar heittelskaða sem skiptu engu máli meðan við við kúrðum okkur ofan í draumbleika skýið.
Góðu fréttirnar eru þær að við getum sjálf hækkað í lóninu með því að þjálfa okkur í þakklæti. Við erum kannski stundum á þeim stað í lífinu þar sem það reynist þrautinni þyngri að finna eitthvað þakkarvert, ekki síst ef við erum að jafna okkur eftir alvarlegt áfall og jafnvel ástvinamissi. Í preststarfinu upplifi ég þó sjaldan jafn mikla iðkun þakklætis eins og í kringum andlát. Það er einmitt í kringum dauðann sem þakklætið verður að upprisu, það er þakklætið sem huggar og styrkir og kemur eftirlifendum aftur út í lífið en ekki spekingsleg orð eða svefntöflur þó þær geti verið nauðsynlegar um stund. En stundum erum við líka bara ákveðin í því að vera óánægð, alveg sama á hverju gengur. Sumt fólk er alltaf óánægt þó lífið rembist við að þóknast því með blússandi heilsu, gáfum og gjörvuleika, sumir velja hreinlega að vera óánægða týpan sem finnst alltaf eitthvað vanta, þó hana vanti ekkert nema að meta það sem hún hefur. Ég hef alveg verið þessi týpa en nú hef ég sagt henni stríð á hendur, af því að það er val. Nú hefjast virkjunarframkvæmdir fyrir alvöru: Èg ætla að þakka fyrir gegndarlaust ofdekur lífsins.
Ég ætla að þakka fyrir manninn minn og drengina mína sem eru framúrskarandi vel af Guði gerðir, èg þakka fyrir foreldra og systkini sem eru fallegar og gefandi manneskjur, tengdafjölskyldu sem er ræktarsöm og góð, vini sem eru skemmtilegri en allt afþreyingarefni 21.aldar til saman.
Þakka fyrir íslenskar bókmenntir sem hafa hjálpað mèr að skilja þessa þjóð og elska hana í vanmætti hennar og styrkleika, þakka fyrir starfið mitt sem hefur reynst mín besta menntun. Þakka fyrir mína geðröskun sem hefur fært mig nær fólki og þar með Guði. Þakka fyrir haustsólina sem minnir mig hlýlega á að þrífa stofugluggann. Þakka fyrir bæinn minn sem er gróðursæll í náttúru og mannlífi. Þakka fyrir hundinn minn sem kennir mér núvitund án þess að hafa kannski hugmynd um það sjálfur. Þakka fyrir að hafa hætt að drekka áfengi áður en það rændi mig persónuleika mínum. Þakka fyrir tónlistina sem afvopnar allar varnir hjartans, leiklistina sem rèttir okkur spegil að sálarlífi okkar og myndlistina sem ögrar og fegrar umhverfið allt. Þakka fyrir íslenska náttúru sem er svo falleg og töfrandi að hún getur sannfært mann um að búa í þessu landi þrátt fyrir langa og kalda vetur. Takk

Published inPistlar