Lesa meiraSanngjarnt þjóðfélag er öruggara þjóðfélag "/> Skip to content

Sanngjarnt þjóðfélag er öruggara þjóðfélag

Ungur maður spurði mig á kaffihúsi þar sem við sátum og sötruðum okkar Latte hvernig við gætum alið drengina okkar upp þannig að þeir verði ekki nauðgarar? Þetta var býsna stór spurning en sá ungi er fjölmiðlamaður og því vanur að þurfa að spyrja krefjandi spurninga. Ég er auðvitað ekki alvitur þó ég hafi vissulega gælt við þá hugmynd þegar ég var sirka 10 ára, svo þetta er mitt svar: Ekki einu sinni Jesús hefur getað alið börn sín upp á svo fullkominn máta að þau gerist ekki sek um að meiða og særa, ekkert foreldri hefur alla þræði í hendi sér þegar kemur að því að ala upp annan einstakling, sumir þræðir verða okkur alltaf ósýnilegir. Ofbeldi er í eðli sínu hungur, sá eða sú sem fremur ofbeldisverk lifir við einhvers konar skort, skort á heilsu, skort á samkennd með sjálfum sér og öðrum, skort á viðurkenningu og athygli, skort á tilgangi og von, skort á ástúð, skort á siðferði, skort á lífsvilja. Í dag jarðsöng ég vitra konu sem hélt því fram að börn væru aldrei óþekk, bara svöng. Ég held að því sé eins farið með okkur fullorðna fólkið, við erum ekki bara óþekk, við erum svöng. Sem samfélag getum við hjálpast að við að seðja þetta hungur. Það gerum við með því að greina sameiginlega hagsmuni og leggja orð, hendur og fjármuni í að rækta þá,þá erum við að tala um heilbrigðiskerfið, aðgengi að menntun, menningu, jafnrétti trúarbragða og virðingu gagnvart ólíkum leiðum manneskjunnar til að efla anda, sál og líkama. Sanngjarnt þjóðfélag er öruggara þjóðfélag

Published inPistlar