Lesa meiraEr maður þá kannski bara heimskur? "/> Skip to content

Er maður þá kannski bara heimskur?

Íbúi í New York, París eða London er ekki líklegur til að kippa sér upp við sírenuvæl ef hann yfirhöfuð gefur því gaum á meðan við sem búum á Akureyri eða í Reykjavík skynjum ónotatilfinningu við sömu hljóð og hugsum „ hvað ætli hafi gerst og hjá hverjum?“ Við erum líka eina þjóðin sem skrifar minningargreinar í blöð um hvern þann sem kveður þessa jarðvist og ekki nóg með það, við erum eina þjóðin sem les þessar minningargreinar yfir morgunkaffinu þó við þekkjum lítið eða ekkert til viðkomandi. Þegar ég stóð í anddyri Akureyrarkirkju í gær í svörtu hempunni minni og beið þess að útför hæfist rifu nokkrir erlendir túristar upp hurðina og stigu blaðskellandi inn í kirkjuna, þau þögnuðu er þau sáu prestinn og kistuna en lýstu engu að síður yfir vonbrigðum sínum með að fá ekki að skoða kirkjuna, ég meina hvað með það þótt einhver hafi dáið? Í mínum huga var það ekki bara einhver heldur mikilvæg persóna í okkar litla samfélagi en ef ég set mig í spor ferðamannanna sem kannski búa í milljónaborg út í Bandaríkjunum þá er eflaust ekki hægt að ætlast til þess að menn hagi tilfinningalífi sínu eftir dauða og útförum samborgaranna.

Ég horfi aldrei á fótbolta nema þegar íslenska landsliðið er að keppa en þá líður mér líka eins og ég hafi fermt alla leikmennina, þetta eru mínir menn og ég er í raunverulegu tilfinningalegu uppnámi yfir leik þeirra og frammistöðu. Mér líður alltaf eins og ég sé í flugvél þegar ég horfi á landsliðið keppa en ég er mjög flughrædd, flýg samt en er alltaf sveitt í lófunum og þurr í munninum og þegar ég fer á salernið þá geri ég fastlega ráð fyrir því að flugmennirnir missi fókus og vélin hrapi. Þannig er það líka þegar landsliðið er að keppa, ég þori ekki á salernið ef ske kynni að Hannes markvörður yrði eitthvað óöruggur eða Gylfi myndi fara að pæla hvar ég væri og missa af dýrmætri sendingu. Þess vegna hata ég líka uppbótartíma í fótbolta, hann er eins og seinkun á flugi, ekki það sem hrædda manneskju vantar. Bíddu en af hverju er ég að tala um sírenuvæl, dauða, útfarir og fótbolta í einum og sama pistlinum? Jú bara til að minna okkur á hvað við erum í raun lánsöm að búa í svona litlu samfélagi þó svo að því geti líka fylgt gallar. Það er eitthvað svo óendanlega fallegt við að vera Íslendingur á stóru stundunum í lífinu, bæði í gleði og sorgum, þar myndi ég aldrei vilja skipta við stórborgarbúann. Ókei þetta er kannski ekki beittur pistill, ég er ekki að tala um kvótagreifa og tekjublað Frjálsrar verslunar ég veit það, en má ekki stundum lyfta upp því jákvæða, er maður þá kannski bara heimskur?

Published inHugleiðingar