Lesa meiraSjálfsvíg "/> Skip to content

Sjálfsvíg

Sjálfsvíg er hjartaáfall sálarinnar, þetta segi ég ekki til hljóma voða skáldleg heldur í þeirri viðleitni að ræða sjálfsvíg sem eðlilega dánarorsök. Nú bregður kannski einhverjum sem hugsar „hvað er manneskjan að fara?“ Jú ég er bara að reyna fara í áttina frá því að ræða sjálfsvíg sem voveiflegan atburð að þeim stað þar sem við getum rætt sjálfsvíg sem sorglegan en um leið eðlilegan dauðdaga. Ætli sjálfsvíg sé ekki ein elsta dánarorsök þessa heims? Örugglega eldri en sykursýki tvö eða kransæðastífla. Sjálfsvíg hafa fylgt mannkyninu frá morgni tímans, sem þýðir þó ekki að við eigum að sætta okkur við þau heldur að hætta að hvísla um þau og skima fyrir þeim strax í grunnskóla og tala opið um það við náungann hvort hann hafi einhvern tíma haft sjálfsvígshugsanir, að það sé eðlileg spurning þegar erfiðleikar steðja að og fólk er langt niðri. Það er talað um að krabbameinsfrumur verði til í líkama okkar allra í frumuskiptum hvers dags, hjá flestum hafa heilbrigðu frumurnar yfirhöndina en hjá sumum og raunar allmörgum nær krabbinn sér á flug og veldur veikindum, eins er með dauðahugsanirnar, ekkert okkar fer í gegnum langt líf án þess að hafa hugleitt þann möguleika að yfirgefa sviðið en flest okkar ná að komast fljótt yfir þann hjalla og halda áfram. Ég hef sko alveg farið í gegnum þá hugsun að mér þætti of erfitt að lifa en fljótt komst ég þó að því að mig langaði samt ekki til að deyja, mér dettur hins vegar ekki til hugar að ég sé undanskilin þessu ekki frekar en að ég geti fengið brjóstakrabba. Forvarnarvinna gegn sjálfsvígum getur ekki orðið til þess að útrýma sjálfsvígum hér á landi eða í heiminum, það verður aldrei til neitt sem heitir sjálfsvígslaust Ísland. Forvarnarvinnan gengur út á það að rjúfa þögnina sem umlykur þennan gamla dauðdaga og bjóða upp á aðgengileg úrræði fyrir þá sem eru hjartveikir í sálinni og finna sig fjarlægjast alla lífslöngun. Ein megin ástæða þess að ástvinir sitja eftir með sektarkennd þegar sjálfsvíg verða mótast í upphafi af þeim samfélagslega misskilningi að sjálfsvíg sé óeðlilegur dauðdagi og nokkuð sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Sú hugsun hjálpar engu okkar þegar dauðinn og sorgin hafa tekið við. En meðvitundin um að sjálfsvíg sé bara möguleg dánarorsök líkt og krabbi eða heilablóðfall lyftir okkur strax yfir óttann sem gerir okkur meðvitaðri um gagnlega forvarnarhætti. Við gætum fækkað sjálfsvígum með því einmitt að sjúkdómsvæða þau eins furðulega og það hljómar og móta þannig bjargráð út frá hugmyndinni um að engum sé um að kenna og að enginn þurfi að skammast sín og að sá eða sú sem lifir af hjartveiki sálarinnar eigi algjörlega afturkvæmt inn í samfélagið til ábyrgðar og starfa líkt og þau sem lokið hafa lyfjagjöf við krabbameini. Fólk hvíslar enn um sjálfsvíg árið 2018, það er staðan og meðan við gerum það, þá deyja fleiri.

Að lokum vil ég segja til minningar um þá sem hafa látist úr hjartaáfalli sálarinnar að minning þeirra lifir í ljósi þess lífs sem þeir lifðu en ekki í skugga andlátsins og þannig á það að vera með okkur öll, hvort sem við deyjum úr heilabilun, hjartaáfalli eða sjálfsvígi. Við minnumst látinna í ljósi þess lífs sem þeir lifðu en líf okkar allra er auðvitað sífelld árstíðarskil þar sem vor tekur við af vetri og haust af hlýju sumri. Þannig er þetta líf og við þurfum svo sem ekkert að vera alltof hátíðleg gagnvart því, bara kærleiksrík, skilningsrík og auðmjúk.

Published inHugleiðingar