Lesa meiraAð loknum vetri "/> Skip to content

Að loknum vetri

Erindi þessa pistils er ekki það að koma því skila hvað ég hafi nú gengið í gegnum margt á liðnum vetri. Við erum öll að heyja okkar baráttur með einum eða öðrum hætti. Nema hvað á liðnum vetri raðaðist þó nokkuð margt á herðar mínar á nokkuð skömmum tíma, ég gekk í gegnum hjónaskilnað, skipti um húsnæði, kvaddi hundinn minn og missti tengsl við vini og vandamenn. En ég hlaut á sama tíma margskonar blessun, undurfallegar lífsgjafir í ást og nýjum tengslum, bara svo því sé nú haldið til að haga, lífið er aldrei bara þjáning, nema náttúrlega þá stuttu stund sem maður neyðist til að hlusta á nútíma graðhesta tónlist er unglingurinn á heimilinu hertekur græjurnar í bílnum, það er hins vegar allt allt allt önnur saga, í allt annan pistil.

Það sem kom mér mest á óvart á liðnum vetri var hvað starfið mitt reyndist mér persónulega mikil huggun og sálgæsla. Nú er mikið rætt og ritað um kulnun í lífi og starfi og ekki vanþörf á, mitt mat er hins vegar það að kulnun verði þegar við erum ekki nógu tilfinningalega og andlega nærð til að geta halda öllum boltum hversdagsins á lofti, að við séum þá að erfiða án þess að vera til þess nógu nærð til líkama, sálar og huga, rétt eins og bensínlaus bíll. Ég held að þetta sé umhugsunarvert en dettur ekki hug að ætla að ég hafi endilega rétt fyrir mér. Nema hvað að mitt í auga stormsins sem geysaði í lífi mínu í vetur og ég reyndi að mæta með því að lifa nokkuð reglusömu lífi, hreyfa mig, tala við fagaðila og myndast við að hugsa jákvætt, birtist eðli starfs míns, preststarfsins, sem er að vera til staðar fyrir aðra í gleði og sorg, sem mín mesta huggun. Oft var ég drulluþreytt og annars hugar, þá reyndist það að fá að vera til staðar fyrir annað fólk í mikilli sorg  ákveðin græðsla fyrir mig sjálfa. Í ágjöf lífsins er svo mikilvægt að finna sig hafa tilgang og finna hvernig maður getur líknað öðrum þó maður sé ekki sjálfur alveg heill, svo er það nú einu sinni þannig að fólk sem syrgir er oft mjög gefandi án þess kannski að það geri sér grein fyrir því. Syrgjendur eru gjarnan í sterkum tengslum við kjarna lífsins, frumkraftinn, sjálfan kærleikann,  og hafa engan tíma né áhuga á að velta sér upp úr öðru, þið getið rétt ímyndað ykkur hversu mögnuð sú nærvera er. Að þjóna öðrum þegar maður er sjálfur ekki alheill er græðsla, ég hef komist að því, en hvort  þjónusta mín hefur verið góð og gjöful á þessum tíma verða auðvitað aðrir að dæma um, ég veit fyrir víst að gleymdi óvenju oft í vetur að skila kveðjum við útfarir og þykir það afar leitt.

Tilgangur þessara skrifa er í raun sá að benda á að oft er sjálfsvinnan ekki það eina sem hjálpar okkur til að komast í gegnum erfiðleika, þótt sjálfsvinna sé mjög nauðsynleg. Stundum er gott og gagnlegt og græðandi að gefa af sér, jafnvel þegar maður heldur að maður hafi ekkert að gefa, kannski verður hin raunverulega samlíðan fyrst þá, kannski verður hinn ríki tilgangur nærverunnar og þjónustunnar til að teyma mann áfram um eigin dimmu dali. Ég hallast að því. Ég held að kulnun í starfi verði ekki vegna þess að maður hafi gefið of mikið af sér, kulnun getur hins vegar orðið ef maður fær ekkert til baka. Ég fékk svo mikið til baka úr starfinu mínu í vetur, mig langar að þakka öllu fólkinu sem ég var samferða á þessum tíma fyrir að leyfa mér að vera og gefa mér hlutdeild í dýpt sinni, fegurð og kærleika. Takk góða fólk, þið vitið hver þið eruð.

Published inHugleiðingar