Lesa meiraAð eiga eða eiga ekki drauma "/> Skip to content

Að eiga eða eiga ekki drauma

Í dag, kvenréttindadaginn 19.júní átti ég erindi við 97 ára gamla konu sem býr ein hér í bæ en var lengi bóndi og húsfreyja í sveit. Hún átti sjö börn, fjögur eru látin og eiginmaðurinn líka. Þegar mig bar að garði var hún búin að hella upp á kaffi og raða sjötíu ára gömlu ryðbrúnu stráheilu stelli á eldhúsborðið, bera fram kleinur og jólaköku og smyrja soðið brauð með fagurbleikum reyktum laxi. Ef orðinu æðruleysi er flett upp í íslenskri orðabók er mjög líklega að finna mynd af andliti þessarar konu. Kvenréttindadagurinn barst í tal og við ræddum jafnréttisþróun síðustu níutíu ára eða allt frá því að vinkona mín fór að muna eftir sér. Hún var alin upp af einstæðri móður, vinnukonu sem fór á milli bæja og þvoði þvotta og sinnti grófari húsverkum eins og dóttir hennar komst að orði, „mamma var ekki höfð í eldhúsinu, hún sinnti störfum sem fæstir kusu að vinna.“
Í miðju samtali okkar tókst mér að spyrja hana rétt eins og við værum jafnöldrur og skólasystur þótt rúmlega hálf öld skilji okkur að í aldri, hvað hana hefði nú kannski langað að læra ef búskapur hefði ekki orðið hennar ævistarf. Hún brosti við spurningunni, tók sér málhvíld og svaraði svo með því að beina sömu spurningu til mín „ hvað ætlaðir þú að verða, þegar þú yrðir stór?“ Ég fór auðvitað strax á flug og hóf að rekja atvinnumöguleikaferil minn af mikilli kúnst, allt frá því að ég sex ára gömul tilkynnti öllum sem heyra vildu að ég ætlaði að verða prestur, skáld og fiðluleikari til þess tíma er ég hafnaði köllun minni til trúarlegrar þjónustu og bjó mig undir að verða annað hvort stjórnmálamaður eða leikkona, reyndar ekki alveg ótengd störf en einhverstaðar á miðri leið hafði mér reyndar líka dottið í hug að verða læknir eða bókmenntafræðingur. Vinkona mín hlustaði af athygli á prestinn flytja mögulega ferilskrá sína með miklum tilþrifum og engu hiki uns ég lauk máli mínu og hún svaraði af hægð en festu „ekki að ég ætli eitthvað að kvarta en þannig var það nú bara að ég ólst upp við svo mikla fátækt að ég vissi strax sem barn að ég gæti ekki einu sinni látið mig dreyma, svo ég hreinlega sleppti því, en ég kunni sem betur fer vel við mig í sveitinni og hafði yndi af dýrum.“ Ég beit fast í soðna brauðið og tuggði silunginn í mauk á meðan ég hugsaði hratt um næsta umræðuefni. Að eiga sér drauma hefur ekki einu sinni alltaf talist sjálfsagt.

Published inHugleiðingar