Skip to content

Category: Pistlar

Dæmisaga nútímans

Mörgum hjónaböndum lýkur vegna þess að annar aðilinn eða báðir telja sig ekki lengur elska makann. Þegar frá líður skilnaði undrar fólk sig á því að hamingjan láti á sérstanda svo þegar betur er að gáð kemur í ljós að það var ekki makinn sem svo erfitt var að elska. Auðvitað er hér aðeins dregin upp ein mynd af fjölmörgum þegar kemur að hjónaskilnuðum og stundum er ástæða þeirra mjög augljós og skýr og skilnaður hið eina rétta í stöðunni.
Ég hef alveg upplifað mig óhamingjusama í mínu hjónabandi og velt því fyrir mér hvort ekki væri einhver annar þarna út í veröldinni sem myndi skilja mig betur og styðja með markvissu hrósi og uppörvun að ég tali nú ekki um að gera líf mitt að einu samfelldu ævintýri , já einhver sem væri alltaf að koma mér skemmtilega á óvart.Ég man að ég hugsaði þetta stundum þegar ég var … Lesa meira

Almar og albönsku fjölskyldurnar

Jólaprédikunin á það til að skrifa sig sjálf, á liðinni aðventu skrifaði lífið og tíðarandinn nokkrar. Einn frumlegasti helgileikur síðari ára var án efa „Almar í kassanum“ sem þjóðin fylgdist með í heila viku á internetinu. Almar var nakinn inn í glerkassa og því fóru frumþarfir hans ekki framhjá glöggum áhorfendum. Og það var einmitt það sem kom fólki mest á óvart og vakti jafnvel hneikslan að maðurinn skyldi gera slíkt fyrir allra augum það er að segja þeirra sem kusu að horfa. Þegar ég fór að uppgötva evrópskar raunsæismyndir á sínum tíma eins og verk breska leikstjórans Mike Leigh þar sem venjulegt fólk með óviðurkennt útlit situr á salerninu á meðan það talar við makann sem stendur inn í svefnherbergi með stýrur í augum uppgötvaði ég, mér til mikillar skelfingar, að amerískt kvikmyndauppeldi hafði tekist að gera mig forviða yfir slíkum senum. Mér fannst nánast eins og ég væri … Lesa meira

Í döprum hjörtum ( jólasaga)

„Helvítis Léttbylgjan með allt sitt jólagarg“ hugsar Marteinn um leið og hann ýtir á leitartakkann á útvarpinu , gamla gufan stendur fyrir sínu en dóttirin stillir á þennan ófögnuð þegar hún fær bílinn að láni. „Gimsteina og perlur, gullsveig um enni“ syngur Helgi Björns eins og rifinn saxófónn, „djöfull er þetta þreytandi“ tautar Marteinn um leið og Rás eitt birtist eins og frelsandi engill í andlegri eyðimörk sem ber honum það sem máli skiptir,dánarfregnir og jarðarfarir. Marteinn Jónsson er ekki það sem menn kalla jólabarn þó hann reyni allt hvað hann getur til að halda andliti gagnvart fjölskyldunni. Hann er meira að segja í skreytingarnefnd húsfélagsins og þurfti þess vegna að taka afstöðu til þess hvernig seríur ætti að kaupa fyrir blokkina. Hann eyddi heilli klukkustund af ævi sinni í að ræða aftur á bak og áfram um hvort sniðugra væri að kaupa marglitar seríur eða hvítar, það skipti víst … Lesa meira

Ég er Frosti og Máni kirkjunnar

Ég er alltaf að bíða eftir því að Guð segi mér að gera eitthvað annað en að vera prestur. Ástæðan fyrir því að ég fór í guðfræði á sínum tíma og tók vígslu var eiginlega sú að ég hélt að ég gæti ekki neitt annað. Ég var svo sem ekkert námsséní í menntaskóla, afleit í raungreinum og bara svona meðal í öllu hinu. Fékk að vísu alltaf hátt í dönsku, en hverjum er ekki sama. Það voru heldur ekki foreldrar mínir sem hvöttu mig til að fara út í prestskap, ég var ekkert að gera stóra hluti þegar ég fylgdi pabba eftir í hans embættisverkum, spilaði reyndar einu sinni á fiðlu í sunnudagaskóla á Svalbarðseyri og uppskar meira fliss en aðdáun. Þegar ég var nývígð 27 ára gömul og reyndi að ganga í prestaskyrtu innan um annað fólk leið mér alltaf svolítið eins og ég hefði orðið eftir við dimmiteringu … Lesa meira

Að skapa úr nóttu nýjan dag

Að elska er að skapa úr nóttu nýjan dag.
Draga gardínur frá glugga, breiða teppi yfir sæng
búa um rúm, hita kaffi
veiða fisk úr frosti.
Kveikja á barnatímanum, slökkva á útvarpinu
Smyrja kæfubrauð og festa í filmu.
Sjóða hafragraut, kyngja lýsi
og kúgast.
Blanda grænan drykk
“mamma er þetta geimverulýsi”?
Hugsa til kvöldsins
„á að steikja fiskinn eða baka?“
Kyssa bless, vera hress.
Hita bílinn, hlusta á Léttbylgjuna, skafa rúðu með geisladisk
til stuðnings gigtveikum
“ekki reynist frostið það, svo mikið er víst.”
Koma heim
borða fisk með ástvinum og tómatsósu.
Horfa á fréttir og Kastljós
Draga niður gardínur,
Pissa
elskast
kyssast
hin heilaga þrenning mannkyns.
Bjóða góða nótt
samlagast myrkrinu
Í draumi um nýjan dag
nýtt ljóð og nýjan hafragraut
Því hver vill lifa daginn í gær, lesa gömul ljóð og borða kaldan hafragraut?
Að elska er skapa úr nóttu nýjan dag ( HEB)… Lesa meira

Sanngjarnt þjóðfélag er öruggara þjóðfélag

Ungur maður spurði mig á kaffihúsi þar sem við sátum og sötruðum okkar Latte hvernig við gætum alið drengina okkar upp þannig að þeir verði ekki nauðgarar? Þetta var býsna stór spurning en sá ungi er fjölmiðlamaður og því vanur að þurfa að spyrja krefjandi spurninga. Ég er auðvitað ekki alvitur þó ég hafi vissulega gælt við þá hugmynd þegar ég var sirka 10 ára, svo þetta er mitt svar: Ekki einu sinni Jesús hefur getað alið börn sín upp á svo fullkominn máta að þau gerist ekki sek um að meiða og særa, ekkert foreldri hefur alla þræði í hendi sér þegar kemur að því að ala upp annan einstakling, sumir þræðir verða okkur alltaf ósýnilegir. Ofbeldi er í eðli sínu hungur, sá eða sú sem fremur ofbeldisverk lifir við einhvers konar skort, skort á heilsu, skort á samkennd með sjálfum sér og öðrum, skort á viðurkenningu og athygli, … Lesa meira

Af hverju trúi ég?

Í heimspekinni lærði ég það að við ættum aldrei að fullyrða hvort eitthvað sé til eða ekki til nema að gá að því fyrst. Ef ég fer inn í fatabúð og sé þar fallegan kjól sem er í stærð small, stærð sem ég hef ekki notað síðan um fermingu og ég spyr afgreiðslumanninn hvort hann eigi kjólinn í large og hann neitar án þess að kanna lagerinn þá fer ég út úr búðinni með þá tilfinningu að kjóllinn gæti verið til, kjóllinn sem hefði gert svo mikið fyrir mig á árshátíð Prestafélags Íslands sem verður haldin einhvern tímann.
Ef afgreiðslumaðurinn ( karl/kona) hefði farið bak við og leitað af sér allan grun þá væri ég sáttari. Hins vegar er sumt sem ekki er beinlínis hægt að sannreyna með því einu að gá, til dæmis það hvort Guð sé til, þess vegna segi ég aldrei “Guð er til” heldur “ég trúi … Lesa meira

Ferðamannaiðnaður eða þjónusta

Ég er alin upp með ferðamönnum og þess vegna þykir mér mjög vænt um þá. Ég sleit barnsskónum í Laufási við Eyjafjörð. Margir merkir klerkar hafa setið þann stað enda verið þar kirkja frá fyrstu kristni, sennilega er Björn Halldórsson þeirra þekktastur en hann þjónaði í Laufási á 19.öld og orti marga fallega sálma þar á meðal jólasálminn hugljúfa „Sjá himins opnast hlið.“ Kirkjan í Laufási var byggð árið 1865 og einnig er þar torfbær sem var byggður upp í tíð séra Björns á árunum 1866 – 1870, bærinn stendur enn í sinni upprunalegu mynd Foreldrar mínir sátu staðinn í 25 ár, pabbi var prestur og mamma svona „aðstoðarprestur“ í sjálfboðastarfi því hún helgaði líf sitt starfi kirkjunnar og hélt stórt og gestkvæmt heimili, annars er hún menntaður hárgreiðslumeistari svo því sé til haga haldið. Ég er yngst sex systkina, á sumrin sýndum við ferðamönnum gamla bæinn . Yngra systkini … Lesa meira

Það er flókið að vera manneskja

Það er flókið að vera manneskja,
ekki sambærilegt því að reikna stærðfræði
eða semja dróttkvæði
stjórna seðlabanka
og mynda fullkomna ríkisstjórn.
Það er alls ekki eins og að
syngja íslenska þjóðsönginn
án þess að lenda í andnauð
eða steikja kleinur sem hvorki eru of dökkar né ljósar.
Greiða úr flæktri jólaseríu
og skera andlit forsætisráðherra út í laufabrauð.
Þetta er flóknara en að læra trúarjátninguna fyrir fermingu
og velja nýjan forseta,
vera töff kirkja
og kynþokkafullur prestur
í fullum skrúða.
Vinna bæði með upprisuna
og dauðann.
Nei það er flókið að vera manneskja
á þann hátt sem enginn skilur, nema hafa reynt
og þess vegna skulum við halda áfram að tala um hvað það merkir að vera manneskja,
þar til allur heimurinn er með
og engum líður lengur eins og hann sé einn ( HEB)… Lesa meira

Vídeóleigur

Heimur batnandi fer,samt hellist stundum yfir mig gegndarlaus fortíðarþrá sem bítur í barnslega hjartað. Ég er allt í einu komin með vídeóleigur á heilann,sakna þeirra eitthvað svo mikið. Nú hugsa ég bara um lyktina af blandi í poka og unglingahormónum sem léði þessum fornu menningarhúsum svo viðkunnanlegan blæ. Þá sá maður líka oft hverjir voru að byrja saman, ástfangin pör að leigja sér mynd og í dópamínrússinu samþykktu hörðustu naglar kannski að taka The Bridges of Madison county eða jafnvel Pretty woman þótt þeir hefðu frekar brutt lýsisperlur en að horfa á þetta meðan þeir voru einhleypir. Þarna sá maður líka alvöru kvikmyndanyrði sem vissu í alvörunni hverjir hönnuðu hljóðeffekta í myndunum sem þeir voru að leigja, þetta voru svona týpur með yfirnáttúrulegan orðaforða í ensku og drukku kók í morgunmat. Svo voru það miðaldra hjónin sem leigðu sér franska mynd um önnur miðaldra hjón í tilvistarkreppu, þetta voru svona … Lesa meira