Lesa meiraAlmar og albönsku fjölskyldurnar "/> Skip to content

Almar og albönsku fjölskyldurnar

Jólaprédikunin á það til að skrifa sig sjálf, á liðinni aðventu skrifaði lífið og tíðarandinn nokkrar. Einn frumlegasti helgileikur síðari ára var án efa „Almar í kassanum“ sem þjóðin fylgdist með í heila viku á internetinu. Almar var nakinn inn í glerkassa og því fóru frumþarfir hans ekki framhjá glöggum áhorfendum. Og það var einmitt það sem kom fólki mest á óvart og vakti jafnvel hneikslan að maðurinn skyldi gera slíkt fyrir allra augum það er að segja þeirra sem kusu að horfa. Þegar ég fór að uppgötva evrópskar raunsæismyndir á sínum tíma eins og verk breska leikstjórans Mike Leigh þar sem venjulegt fólk með óviðurkennt útlit situr á salerninu á meðan það talar við makann sem stendur inn í svefnherbergi með stýrur í augum uppgötvaði ég, mér til mikillar skelfingar, að amerískt kvikmyndauppeldi hafði tekist að gera mig forviða yfir slíkum senum. Mér fannst nánast eins og ég væri að horfa á eitthvað forboðið. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta en einhvern veginn var þetta frelsandi. Mennskan er nefnilega frelsandi og sögur eru líka oft frelsandi og þegar mennska og saga sameinast í eitt, þá eru jólin. Gjörningur Almars er á vissan hátt helgileikur nakið guðsbarn í kassa. Fyrir tvöþúsund árum var barnið reyndar nakið í jötu en þannig tjáði Guð okkur að við værum í lagi með allar okkar sammannlegu frumþarfir. Barnið í jötunni er sáttmáli milli Guðs og manna um að hið sammannlega sé gott, að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir það, því þegar skömmin læðist inn skapast jarðvegur fyrir ofbeldi og kúgun, þá fyrst myndast aðstæður til að gera eitthvað ljótt úr því sem upphaflega er bara mennskt. Þannig að jafnvel þó gjörningur Almars hafi verið óvenjulegur og ögrandi var hann opinberun á því sem í upphafi er ætlað að vera mannlegt og gott og liggur fyrir okkur öllum, mér, þér og meira að segja páfanum. Það eru nefnilega ekki frumþarfir mannsins sem eru dónalegar heldur skömmin yfir þeim, skömmin yfir kynlífi hefur t.d. orðið til þess að skapa klám, ofbeldi og þöggun, skömmin yfir líkamanum hefur orðið til þess að afmynda hann eða gera eina óraunhæfa útgáfu eftirsóknarverða, trúarskömm hefur annars vegar orðið til að afneita andlegu lífi og hins vegar til að réttlæta ofbeldi í nafni trúar og þannig mætti lengi telja. Frumþarfir mannsins eru ekki skammarlegar heldur óttinn við þær og það var mikilvægasti boðskapurinn í gjörningi unga listnemans, menn geta deilt um hvort gjörningurinn sé list eða prédikun nema við sættumst á að list sé alltaf prédikun.
Í jólaguðspjallinu er Heródes holdgervingur skammarinnar, hann er svo langt leiddur í sinni skömm að hann kannast ekki lengur við mennsku sína og sér þar af leiðandi ekki hvað hann á sammerkt með öðru fólki. Skömm hans leiðir til hörmungaatburða í Betlehem þar sem saklaus börn voru líflátin. Brjóstvit Jóseps verður til þess að þau María koma barninu undan. Ein dýrmætasta gjöf sem Guð hefur gefið okkur er einmitt brjóstvitið, ef þér finnst erfitt að ímynda þér að englar séu til þá er brjóstvitið nokkuð nærri þeim fyrirbærum. Brjóstvitið er að mínu mati skilaboð frá Guði, það birtist oft sem innra hvísl um að gera eitthvað annað en hið augljósa eða auðvelda, stundum segir það þér að staldra við og stundum að synda mót straumnum. Allar manneskjur hafa brjóstvit það eina sem getur hulið það er vantrúin á að manneskjan sé heilög með allar þessar vandræðalegu frumþarfir .
Já jólaprédikunin hefur tilhneigingu til að skrifa sig sjálf, sagan af albönsku fjölskyldunum tveimur sem voru sendar úr landi í skjóli nætur með tvo langveika drengi er eins og nútímaútgáfa af jólaguðspjallinu. Það hefði nánast verið hægt að standa hér í kvöld og segja „ í ár má lesa jólaguðspjallið út úr sögu albönsku fjölskyldnanna og örlögum þeirra.“ Þeim var fyrst úhýst líkt og fjölskyldunni frá Nasaret og gert að yfirgefa landið um nótt eins og Maríu og Jósep með nýfædda barnið sem hefði auðvitað þurft að vera í öruggu umhverfi fyrstu dagana eins og aðrir hvítvoðungar. Það setur að manni hroll að hugsa um lítil börn á flótta um nótt, vansvefta og hrædd.
Saga albönsku fjölskyldnanna á það sammerkt með jólaguðspjallinu að fjalla um baráttu lífs og dauða þar sem lífið hefur að lokum yfirhöndina, guðspjallið hefur umfram allt huggunarríkan boðskap að flytja, það er upprisufrásögn ekki síður en páskaguðspjallið, jólaguðspjallið er líka sálgæslusaga sem kennir okkur hvernig samstaða, samkennd, hugrekki og trú á Guð og brjóstvit manneskjunnar ber mann áfram í erfiðum aðstæðum.
Jólaguðspjallið er saga um mátt þess að tilheyra öðru fólki og vera elskaður af Guði og mönnum. Saga albönsku fjölskyldnanna lýtur sem betur fer sömu lögmálum því á nýju ári er von er von á þeim til landins, Guði sé lof fyrir það, fyrir samstöðuna, samtakamáttinn og hina réttlátu reiði, þeirra gull, reykelsi og myrra reyndist vera íslenskur ríkisborgararéttur.
En hvað skyldu þessar tvær jólaprédikanir sem skrifuðu sig sjálfar á liðinni aðventu eiga sameiginlegt, Almar í kassanum og albönsku fjölskyldurnar? Jú þær minna okkur á hvað það er mikilvægt að afneita ekki því sem öllum manneskjum er áskapað, hvort sem um ræðir grunnþarfir líkama eða sálar. Viðbrögð samfélagsins við Almari í kassanum voru sumpart í mótsögn við þá kærleiksríku reiði sem ríkti yfir örlögum albönsku fjölskyldnanna. Af hverju bauð fólki við nöktum karlmannslíkama? Viðbrögðin eru verðugt umhugsunarefni, að bjóða við nekt eins og hún birtist hjá Almari getur verið spegilmynd þess að bjóða við félagslegri og tilfinningalegri nekt sem er svo algeng í samfélagi manna og verður til þess að fólk einangrast, verður hrætt og velur þá jafnvel að leita samþykkis í neikvæðum og skaðlegum kringumstæðum. Gott dæmi um slíkt eru allir þeir öfgahópar sem þrífast um víða veröld og ógna frelsi fólks til að hefja nýtt líf í öðru landi með sína trú og menningu. Hörmungar haustsins í París eru dæmi um slíkt. Þar kemur félagsleg nekt við sögu.
Hann Almar okkar var jú einu sinni lítið barn, kannski þurfum við einmitt að iðka meira það að sjá allt fullorðið fólk fyrir okkur sem lítil börn þegar berskjöldun þess vekur hjá okkur andúð. Ég held að jólaguðspjallið sé í og með hvatning til þess að muna að eitt sinn vorum við öll börn með þær frumþarfir sem héldu áfram að lifa og eflast í líkama okkar og sál. Jólaguðspjallið er hvatning um það að verða ekki skömminni að bráð, Guð gerðist nefnilega maður til þess að við gætum elskað okkur sjálf, líkama okkar og sál því það er jú forsenda þess að standa með öðru fólki og elska það í nekt sinni.

Published inPistlar