Lesa meiraÍ döprum hjörtum ( jólasaga) "/> Skip to content

Í döprum hjörtum ( jólasaga)

„Helvítis Léttbylgjan með allt sitt jólagarg“ hugsar Marteinn um leið og hann ýtir á leitartakkann á útvarpinu , gamla gufan stendur fyrir sínu en dóttirin stillir á þennan ófögnuð þegar hún fær bílinn að láni. „Gimsteina og perlur, gullsveig um enni“ syngur Helgi Björns eins og rifinn saxófónn, „djöfull er þetta þreytandi“ tautar Marteinn um leið og Rás eitt birtist eins og frelsandi engill í andlegri eyðimörk sem ber honum það sem máli skiptir,dánarfregnir og jarðarfarir. Marteinn Jónsson er ekki það sem menn kalla jólabarn þó hann reyni allt hvað hann getur til að halda andliti gagnvart fjölskyldunni. Hann er meira að segja í skreytingarnefnd húsfélagsins og þurfti þess vegna að taka afstöðu til þess hvernig seríur ætti að kaupa fyrir blokkina. Hann eyddi heilli klukkustund af ævi sinni í að ræða aftur á bak og áfram um hvort sniðugra væri að kaupa marglitar seríur eða hvítar, það skipti víst máli hvað myndi standast tímans tönn. Og ekki nóg með það, þegar hann kom heim af fundinum fullur gremju og niðurlægingar beið eiginkonan eftir honum með hið árlega jólaverkefni, að dýfa hundrað og fimmtíu Sörum ofan í brætt súkkulaði við undirleik Bing Crosby og Frank Sinatra.Þeir félagar minna hana nefnilega svo mikið á æskujólin sem hún átti í faðmi hamingjuríkrar fjölskyldu. Hún þreytist aldrei á að rifja upp jólin heima á Brekku í Suðursveit og vöknar um augu er hún minnist móður sinnar sálugu sem bakaði tólf sortir af smákökum og steikti laufabrauð með bros á vör meðan faðir hennar sinnti búskapnum, eflaust líka með flírulegt bros á vör og hor í nös bætir Marteinn við minninguna og hlær. Marteinn hefur konu sína grunaða um að rugla saman eigin æsku og þáttaröðinni um Húsið á sléttunni, það getur ekki verið að bernskan hafi verið jafn slétt og felld eins og hún vill vera láta.
Hún hefur líka oft reynt að grafast fyrir um æskujól Marteins en þau hvíla rykfallin og læst í hans innstu sálarkimum, lykillinn týndur og tröllum gefinn eins og vera ber, að hans mati. Æskujólin hans eru engin sykurfroða líkt og hennar, enginn Bing Crosby og loftkökur, ekkert fjandans laufabrauð og englakransar. Æskujólin hans eru blákaldur raunveruleiki sem á hvorki heima á Léttbylgjunni eða í skreytingarnefnd húsfélagsins. Æskujólin hans liggja óhreyfð og marineruð í brennivíni og blótsyrðum foreldra sem gátu varla staðið í lappirnar af ölvun þegar kom að því að opna gjafirnar. Hann man best eftir jólunum þegar hann var tólf ára, þegar hann fékk stóra pakkann og hjartað tók aukaslag. Það var Þorláksmessukvöld og foreldrar hans sofnaðir eftir langt og strangt rifrildi um hvort elda ætti hamborgarhrygginn eftir hennar höfði eða hans, í huga Marteins voru bæði þessi höfuð jafn vitlaus, hverjum er ekki sama hvort notaður er púðursykur á kjötið ef fólk hefur ekki einu sinni rænu á að slökkva á ofninum? Þegar Marteinn sneri sér frá eldavélinni og leit undir tréð blasti við sjón sem fékk hann til að trúa eitt augnablik á komu frelsarans það var pakkinn sem gaf honum von, mjór og langur og fagurlega skreyttur englahári og bústnum jólasveinaandlitum, mamma hafði greinilega vandað sig við þennan. Á merkimiðanum stóð skýrum stöfum,Til Marteins frá mömmu og pabba gleðileg jól. Skítt með rifrildið, þau höfðu keypt það sem hann langaði í, veiðistöng og veiðihjól svo hann gæti farið með sínar eigin græjur í næsta veiðitúr með afa, það voru nefnilega hin raunverulegu jól í hans huga. Að standa við árbakkann og hlusta á fuglana kvaka í kappi við afa sem sönglaði sjómannavalsana og hló að unga, kappsfulla veiðimanninum sem rak út úr sér tunguna í hverju kasti sannfærður um að nú myndi sá stóri bíta á. Það færðist bros yfir andlit drengsins við minningu sem yljaði eins og sól í heiði. Það var líka erfitt að sofna þetta kvöld, tilhlökkunin yfir veiðistönginni varð kvíðanum yfirsterkari, skyldi þetta hafa verið svona hjá þeim Maríu og Jósep sem biðu eftir barninu í köldum og dimmum fjárhúskofa? Sú saga hafði svo sem aldrei talað sérstaklega til hans, ekki fyrr en nú þar sem hann lá í rúminu og fann hvernig kvíðinn og gleðin tókust á eins og tvær herdeildir í kviðarholinu uns hann sofnaði án þess að vita hvor deildin fór með sigur af hólmi.
Aðfangadagur rann upp eins og flestir dagar æsku hans, í þykkri og þrúgandi þögn þar sem foreldrar hans vissu ekki hvort þeirra hefði borið ábyrgð á hörmungum gærdagsins. Á miðju stofugólfi var ósýnilegt eldfjall sem beið þess að gjósa, allir héldu sig í hæfilegri fjarlægð frá hver öðrum en þegar líða tók á daginn hófust jarðhræringar sem í fyrstu mældust varla á richterskala, bara örlítið tuð um hver ætti að keyra út jólagjafirnar og hvernig baðskipulagi væri háttað.
Undir kvöld heyrðust fyrstu drunur og eldfjallið nötraði, nú var hátíð í bæ. Pabbi tók undir tón séra Bjarna sem ómaði úr útvarpsmessunni en þegar mamma sussaði og vændi hann um helgspjöll hækkaði hann róminn „Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós“ söng hann með prestinum um leið og hann læddi örlítið meira vodka út í jólablönduna. Marteinn flýtti sér að kyngja matnum, því fyrr sem þessu borðhaldi lyki því betra og þegar hann væri búinn að taka upp veiðistöngina gæti hann farið einn inn í herbergi og æft sig að kasta, hann yrði bara að passa að krækja ekki í gardínurnar sem amma heklaði en að öðru leyti var ekkert til að skemma. Þegar messunni lauk og dómkórinn söng Heims um ból var pabbi orðinn voteygur og drafandi „ meinvill í myrkrunum lá“ hvíslaði hann eins og um lokalínur í dramatísku Shakespeare verki væri að ræða. Mamma þóttist vera glöð en Marteinn sá hvernig hún þurrkaði vangana þar sem hún stóð við eldhúsvaskinn og beið þess að vatnið í krananum myndi kólna svo þau gætu haldið leikritinu áfram og sest við jólatréð án þess að klóra augun úr hvort öðru. Marteinn þekkti þetta leikrit mætavel, bæði upphaf þess og endi.
Pabbi handlék hvern pakka eins og um sprengju væri að ræða og las ofurhægt á merkimiðana, ekki til þess að skapa stemningu heldur til að ergja mömmu sem vildi ljúka þessu af sem fyrst. „Til Marteins frá mömmu og pabba“ loksins var komið að því sem Marteinn hafði beðið eftir, ljósið í myrkrinu, veiðistöngin, lykillinn að frelsinu, hann gat ekki beðið eftir að hringja í afa og segja honum fréttir, skipuleggja ferðir næsta sumar, hjartað barðist í brjósti hans þar sem hann sat í súkkulaðibrúna leðursófanum og reif utan af stönginni. Flugdreki! Hrópaði mamma með gervilegum undrunartón, „ jahá þetta var sko málið þegar ég var drengur“ ansaði pabbi með glott á vör, „þá vorum við strákarnir vanir að hittast á Klambratúni og fara í keppni um hver gæti flogið flugdrekanum hæst“ Marteinn sagði ekki orð, hann fann hvernig hjartað varð hrímað af reiði, hvernig blóðið storknaði í æðum hans af kulda og heift, hann leit til skiptis á mömmu og pabba, ískaldur og þögull stóð hann upp úr sófanum með drekann í hendi, stillti sér framan við foreldra sína og hægt og bítandi braut hann flugdrekann í örlitla búta meðan mamma kallaði nafn hans aftur og aftur með örvæntingu í röddu. „Marteinn minn, Marteinn minn“ kallaði hún á meðan pabbi blótaði ofan í jólablönduna en úr útvarpinu hljómaði jólasálmurinn „í dag er glatt í döprum hjörtum.“
“Flugdreki” fussar Marteinn um leið og veðurfréttir taka að hljóma í útvarpinu og hann beygir inn á bílaplanið við Hallgrímskirkju. Í aftursætinu liggur hemputaskan. Á himni dansa norðurljós kringum blikandi stjörnur og snjórinn marrar og urrar undan hverju skrefi. Í anddyri kirkjunnar tekur meðhjálparinn á móti séra Marteini með skilaboð frá organistanum „kórinn langar svo til að syngja Í dag er glatt í döprum í hjörtum í stað, Það aldin út er sprungið, er það í lagi þín vegna séra minn“ ? „ Ég er nú hræddur um það“ svarar Marteinn glaðbeittur „ það er svo mikill sannleikur fólginn í þeim sálmi en nú ætla ég að æfa mig á hátíðartóninu minn kæri það þýðir ekki að bjóða söfnuðinum upp á eitthvert væl á sjálfri hátíð ljóss og friðar.“

Published inPistlar