Skip to content

Hildur Eir Bolladóttir Posts

#meToo og uppeldið

Í #meToo byltingunni hef ég mikið velt fyrir mér ábyrgð minni sem uppalanda tveggja ungra drengja. Drengirnir spegla nefnilega samskipti okkar hjónanna, orðræðuna á heimilinu, hvernig við horfum á hvort annað, ávörpum hvort annað, virðum framlagt hvors annars til þessarar sameiginlegu lífsbaráttu okkar. Þeir skoða hvað pabbi er að horfa á í sjónvarpinu og á netinu, hvernig hann talar almennt um konur, hvort hann hafi helst orð á stórum brjóstum og stinnum rassi eða hvort hann heyri það sem konur eru að segja í fréttum og á opinberum vettvangi og taki það gilt, taki yfirhöfuð á mark á konum. Er pabbi í beyglum yfir því að hlusta á hinn nýja forsætisráðherra flytja áramótaávarp og gerir grín að því hvað hún sé lítil og stelpuleg eða fer hann strax að tala um inntak þess sem hún hefur að segja af því að fyrir honum er algjört aukaatriði hvernig ein valdamesta … Lesa meira

Áramótaheit 2018

Mér finnst fólk mjög fallegt og gott. Þegar maður er nálægt fólki gerast ákveðnir töfrar sem ekki nást í gegnum síma eða tölvu, töfrarnir birtast í augnaráði og svipbrigðum,nærveru, hlýju, krafti, orku, brosi, kímni, gagnkvæmum skilningi með og án orða, rósemd, hrifningu, kærleika, umburðarlyndi gagnvart skoðunum og skringilegheitum, hvatvísi og örlyndi.
Við höfum svo gríðarlega mikla getu til að umgangast allskonar fólk í návígi vegna þess að þegar við erum í sjónlínu og snertingu við manneskjur þá langar okkur til að reynast vel, sýna umburðarlyndi og virðingu. Þá skynjum við lifandi nærveru og af því að við erum tilfinninga og siðferðisverur horfum við ekki svo glatt framhjá tilfinningum og líðan annarra í hinni lifandi nærveru. Við getum leyft okkur að hugsa og segja leiðinlega hluti um fólk sem er fjarri en þegar við hittum það augliti til auglitis þá verðum við ósjálfrátt fyrir áhrifum af mennskunni sem tengir okkur öll … Lesa meira

Og bara ein spurning.

Stundum þarf bara eina spurningu eins og þá sem útvarpsmaðurinn bar fram á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og til verður heil ræða. Spurningin varðaði það hvernig við gætum tekist á við gráan hversdagsleikann eftir að hafa notið birtu jólanna og hátíðleikans sem umlykur okkur í desembermánuði. Svar mitt við spurningu útvarpsmannsins var í stuttu máli það að jólin ættu í raun að vera grundvöllur hversdagsleikans allan ársins hring. Jesús tjaldaði ekki til einnar nætur hér á jörð þótt hann hefði skamma viðveru í Betlehem forðum. Þess vegna á boðskapur jólanna um frið og kærleika og samkennd að vera undirtónn hvers dags sem við lifum. Ég er stundum spurð að því sem prestur hvort það sé ekki óvenju mikið að gera hjá mér um jól og fylgir þá spurningunni jafnan sá hljómur að það hreinlega hljóti að vera, svar mitt kemur því mörgum á óvart því sannleikurinn er sá … Lesa meira

Bernskan þín og bernskan mín

Þegar ég var lítil stelpa átti ég mitt eftirlætis jólaskraut sem var Betlehem í glansútgáfu. Hrönn heitin móðursystir mín kom með það um miðja síðustu öld alla leið frá Ameríku og gaf fjölskyldunni. Ég man að við upphaf aðventu setti mamma upp nokkra jólasveina sem pabbi hafði föndrað úr efni sem fékkst í verslun sem mig minnir að hafi heitið Kompan og var til húsa hér í Skipagötu á Akureyri. Jólasveinarnir stóður á arinhillunni alla aðventuna eins og upphitunarband fyrir stórhljómsveit en svo var það ekki fyrr en á Þorláksmessu þegar hinn sætkenndi rjúpnailmur blandaðist hátíðartóni Bjarna Þorsteinssonar úr barka föður míns að Betlehem var sett á sinn stað. Fjárhúsið var búið til brúnum tekkvið sem hefur eflaust verið vinsæll í innanhússhönnun um miðbik tuttugustu aldar og inn í það var þeim Maríu og Jósep troðið sem og einu lambi, asna og örsmáu Jesúbarni í jötu. Jósep var klæddur hversdagslegum … Lesa meira

“Hann mun lifa” – jólasaga

Yfir henni er guðdómlegur friður, andlitsdrættirnir lausir undan þjáningum undangenginna daga, hendurnar hvíla niður með síðum, þessar hendur sem hafa í raun viðhaldið lífi mínu, umvafið börnin okkar, hnoðað í brauð. Hendurnar sem spenntu greipar með börnunum okkar í bæn á hverju einasta kvöldi. Á baugfingri ber hún giftingarhringinn sem setið hefur fastur í meira en hálfa öld, eftir að börnin fæddust náði hún honum aldrei af en ég man hvar hún stóð stundum við eldhúsvaskinn og pillaði brauðdeigið af honum af mikilli nákvæmni, nuddaði hringinn sápu og þerraði með viskastykki, alltaf hlýnaði mér við þessa sjón. Ég vissi að hringurinn minnti hana á heitin okkar forðum, ég var hennar og hún mín og aldrei virtist það trufla hana að ná honum ekki af, nú fer hringurinn með henni í kistuna, partur af mér með henni inn í sjálfa eilífðina. Unglæknirinn gengur hljóðlega inn til okkar, varfærinn og hátíðlegur, það … Lesa meira

Bréf til Jesú

Kæri frelsari Jesús Kristur frá Nasaret í Galíleu.

Á þjóðhátíðardaginn fyrir tæpum fjörutíu árum var ég færð til skírnar við fjölsótta fermingarathöfn í Laufáskirkju við Eyjafjörð. Presturinn var pabbi minn og eitt fermingarbarnanna systir mín. Mér skilst að dagurinn hafi verið sólríkur og fagur, himininn heiður og blár og fermingarbörnin ábúðarfull og stillt þótt systir mín hafi reyndar vafið einhverjum brúnum tuskulörfum um flétturnar sínar tvær rétt áður en krakkaskarinn lagði af stað til kirkju, enn eru því áhöld um hvort mamma hafi fellt tár vegna hárgreiðslu fermingabarnsins eða af djúpri lotningu er skírnarbarnið var vatni ausið og fært í þitt örugga fang elsku Jesús minn. Að minnsta kosti og burtséð frá tískuslysi systur minnar tókstu þarna við mér og gafst mér hlutdeild í upprisu þinni. Fyrir það verð ég ekki bara ævinlega þakklát heldur raunar þakklátari eftir því sem árin líða.

Þú manst kannski Jesús að ég var með … Lesa meira

Af hverju að skíra börn?

Í fjölmenningarsamfélagi er eðlilegt að skírnarathöfnum fækki, samfélag okkar er litríkara en áður og ekkert nema gott um það að segja, tækifærum til heimóttarskapar fer sem betur fer fækkandi eftir því sem heimurinn opnast meir og minnkar um leið. Það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af afdrifum barna sem ekki eru skírð þau eru jafn elskuð og örugg og hin. Skírnin er gjöf frá Guði sem við höfum bara frjálst val um að þiggja.

Í okkar samfélagi tíðkast að ungbörn séu skírð að ósk foreldranna sem sömuleiðis ákveða hvað þau borða, hverju þau klæðast og hvenær þau fara í svefn. Í mínum huga er skírnin yfirlýsing um að barnið sé nóg í augum Guðs þar sem það hvílir við skírnarlaugina í faðmi ástvina sinna. Að hvítvoðungurinn sem engu hefur áorkað öðru en því að fæðast í heiminn sé eins merkilegur í augum Guðs og öldungurinn sem unnið hefur … Lesa meira

Bækur bjarga mannslífum

Af öllu því góða sem að mér var rétt í uppvexti mínum tel ég að bækur hafi verið með því besta. Foreldrar mínir voru óþreytandi við að finna handa mér bækur til að lesa og oft á tíðum voru það bókmenntir sem óþroskaður hugur minn þurfti nú svolítið að erfiða við að melta. Ég var kannski tíu ára þegar ég las Barn náttúrunnar eftir Halldór Laxness, hann var að vísu ekki nema sjö árum eldri þegar hann skrifaði þá sögu en pabbi gat heldur ekki beðið eftir að ég læsi um hann Bör Börsson sem hann hafði sjálfur hlýtt á í útvarpinu sem drengur ásamt stórum hluta íslenskrar æsku. Ég man að ég féll kylliflöt fyrir Bör og sat með hann í einu skúmaskoti gamla torfbæjarins heima í Laufási og bað til Guðs að engir túristar kæmu nú og trufluðu mig. Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Margues var síðan … Lesa meira

Jesús er oft svo óviðeigandi

Í dag langar mig að ræða um það hvað hann Jesús frá Nasaret er oft vandræðalega óviðeigandi. Eiginlega er hann mest óviðeigandi maður sem ég hef kynnst. Honum datt til dæmis í hug að drekka úr sömu vatnsskjólu og samversk kona, vitandi það að gyðingar og samverjar ættu aldrei undir neinum kringumstæðum að drekka úr sama íláti.

Svo var hann líka ótrúlega óviðeigandi þegar hann leyfði konunni sem var á blæðingum að snerta sig, í stað þess að ávíta hana sem óhreina konu eins og búist var við, þá sagði hann bara „ Dóttir trú þín hefur bjargað þér, far þú í friði ver heil meina þinn“ en konan hafði semsagt haft blóðlát samfleytt í tólf ár líklega vegna þess að það fannst engum viðeigandi að vera eitthvað að koma við hana og lækna.

Svo var hann líka alveg ótrúlega óviðeigandi þegar hann leyfði henni Maríu frá Betaníu að sitja … Lesa meira

Innblástur og hormónaflipp

Ég hef verið svo upptekin af orðinu innblástur undanfarna daga, ástæðuna má rekja til ráðstefnu sem ég sat um liðna helgi þar sem heimspekingur einn færði haldgóð rök fyrir því að þetta hugtak, innblástur, hefði misst gildi sitt í notkun tíðarandans. Heimspekingurinn dró meðal annars fram auglýsingu frá sænska húsgagnrisanum Ikea þar sem stóð “ Ikea innblástur fyrir heimilið?” Með réttu hefði átt að standa “hugmyndir fyrir heimilið” því innblástur er auðvitað ekki eitthvað sem maður verslar líkt og pylsu með öllu, ekki eitthvað sem maður bara sækir sér eftir þörfum. Innblástur er nefnilega svo margbrotið og merkilegt fyrirbæri sem við þurfum að tala um af einlægni og þakklæti, innblástur er ekki einhver neysluvara sem veitir skammtíma sælu eða magafylli og það sem meira er, innblástur kemur þegar honum sjálfum hentar en ekki endilega þegar við sækjumst eftir honum, innblástur er á vissan hátt sjálfstætt fyrirbæri.

Þið kæru fermingarbörn hafið … Lesa meira