Lesa meira“Þannig ber að fullnægja öllu réttlæti” "/> Skip to content

“Þannig ber að fullnægja öllu réttlæti”

Í ljóðinu Fæðing Ljóssins yrkir Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson

Stilltur, hljóður

finnur geislinn sér

farveg gegnum

alheimsmyrkrið.

Kvikur, skarpur

glitrandi fagur

gullinn strengur.

Þegar lengst er nótt

enn sem fyrr

fæðing ljóssins.

( AÁS)

Já einmitt þegar lengst er nótt

enn sem fyrr fæðing ljóssins

Guð er að verki, við finnum ljós í langri nótt, þykku stingandi ullarteppi myrkursins, þá einmitt fæðist barn í fjárhúskofa og vonin kveikir ljós. Þess vegna lifum við af allskonar hremmingar í þessum heimi, andlegar sem líkamlegar, en við verðum líka að trúa því að við komumst í gegnum þær og þar höfum við ríkar skyldur gagnvart hvert öðru. Guð kveikir ljós og er ljós en okkar er að leiða hvert annað gegnum dimma dali í átt til ljóssins. Ef við undirbyggjum ekki jólin saman sem samfélag ef við flyttum ekki hvert öðru góðu fréttirnar um sigur kærleikans yfir hatrinu og styrk hinnar barnslegu og fölskvalausu einlægni gagnvart valdinu sem safnar sjálfu sér í græðgi, þá myndu ekki koma jól. Þökk sé veirufjandanum þá höfum við uppgötvað enn frekar hvað við þurfum mikið á hvert öðru að halda. Listsköpun þarf á endurgjöf áhorfandans að halda, kirkjulegar athafnir þurfa á nærveru safnaðarins að halda, íþróttaleikir þurfa á stuðningsmönnum að halda og síðast en ekki síst þarf sorgin á mannlegri nánd að halda.

Guðspjall dagsins fjallar um skírn Jesú, Jóhannes frændi hans segir, „ mér er þörf að skírast af þér en þú kemur til mín“ og Jesús svarar honum að bragði, „lát það nú eftir þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“

Þegar ég var prestur í Laugarneskirkju fyrir rúmum áratug leið varla sá sunnudagur að ekki væri barn fært til skírnar í hinni reglubundnu guðsþjónustu safnaðarins. Mér er svo minnisstæð fegurðin og gleðin sem að umlukti skírnarstundina því þá höfðum við alltaf sunnudagaskólabörnin í kringum skírnarfontin og leyfðum þeim að fylgjast með áður en sunnudagaskólakennararnir leiddu þau niður í safnaðarheimili hvar þeirra guðsþjónusta hélt áfram. Söfnuðurinn var virkur þátttakandi í skírninni með því að standa upp af kirkjubekkjum þegar barnið var vatni ausið og biðja bæna fyrir lífi þess, heill og hamingju. Á umliðnum árum hefur skírnin færst meir og meir inn í einkarýmið, þar sem aðeins þeir allra nánustu eru viðstaddir. Þó er skírnin opinber yfirlýsing Jesú frá Nasaret, hún er nefnilega opinber réttlætisyfirlýsing sem við öll þurfum að heyra og meðtaka áður en barnið hefur göngu sína um samfélagið. Í skírninni er því lýst yfir að barnið sé heilagt og guðdómlegt og að ekkert okkar hafi rétt á að umgangast það út lífið með öðru en kærleika og virðingu. Einstaklingurinn sem er færður til skírnar hefur strax við fæðingu öðlast allar forsendur til að vera elskaður og virtur jafnvel þótt um sé að ræða einstakling sem hefur ekki áorkað öðru í lífinu en að smokra sér í gegnum fæðingarveg móðurinnar. Skírnin er réttlætisyfirlýsing á þann hátt að hún storkar tíðarandum sem er í fullu starfi við að spyrja okkur „ hvað ertu, hvað áttu, hvað hefur þú fram að færa?“ Á meðan heilagur, andi skírnarinnar spyr engra spurninga heldur lýsir yfir „ þið eruð elskuð, þið eruð virt, þið eruð heilög.“

Eftir því sem að samfélag okkar leggur meiri áherslu á einstaklingshyggju minnkar rýmið fyrir okkur til að meðtaka saman réttlætisyfirlýsingu hinnar heilögu skírnar. Já það er eiginlega undarlegt hvað mörgu góðu heftur verið ýtt út af almannarýminu og inn í prívatið á meðan til dæmis samfélagsmiðlar eru  uppfullir af hlutum sem koma fáum við.

Þegar barn er fært til skírnar væri ákjósanlegast að allur heimurinn væri viðstaddur og heyrði og meðtæki skyldur sínar gagnvart barninu. Samkvæmt Jesú frá Nasaret þá má enginn í heiminum misbeita valdi gagnvart skírnarþeganum, vanvirða, né gera kröfu um fullkomnun til líkama og sálar. Í eyrum flestra hljómar þetta sem augljós sannindi en því miður reynist veruleikinn oft annar. Mörg börn og ungmenni upplifa mikinn kvíða gagnvart samtímanum sem setur á svið einhvers konar sýndarveruleika þar sem allir eru grannir, glaðir, klæddir merkjafötum og með allskonar æðisleg fyrirheiti um frægð og frama.

Skírnin og hlutverk safnaðarins í henni er andleg bólusetning gegn veiru samanburðar, sjálfsniðurrifs og sjálfshaturs. Það eru svo margir sem eru í raun að glíma við endalaust sjálfshatur, draga ekki skýrar línur fyrir eigin heill, meiðast í samskiptum og meiða með samskiptum.

Við þurfum svo mikið á hvert öðru að halda, þurfum að vera samferða í lífinu og styðja hvert annað og standa við það sem barninu er lofað við skírnarlaugina að við ætlum sem kristið samfélag að láta það finna hversu dýrmætt það er og elskuvert með eða án afreka eða frama sem tíðarandinn hverju sinni setur á stall og dýrkar. Þannig fullnægjum við öllu réttlæti því hið algilda réttlæti er á endanum það að láta sérhvert mannsbarn finna að það sé elskað og virt.  

Published inHugleiðingar