Jesús talar mjög oft um óttann í guðspjöllunum og hvetur fólk til að láta hann ekki ráða för. Allt frá því að engillinn á Betlemhemsvöllum sagði fjárhirðunum að óttast ekki þegar hann birtist þeim í öllu sínu veldi og boðaði fæðingu frelsarans í fjárhúskofa lagði Jesús aftur og aftur áherslu á að við létum ekki óttann ráða för í lífi okkar. Oftar en ekki er það í aðstæðum þar sem viðstaddir upplifa eitthvað áður óþekkt, eitthvað sem hróflar við hugmyndum þeirra um framgang lífsins, samanber guðspjallið sem ég var lesið hér áðan, ummyndunina á fjallinu, atburður sem án efa hefði gert okkur mörg hver skelkuð og hvað segir Jesús þar þegar lærisveinarnir falla fram og hnipra sig saman dauðskelkaðir? Jú hann segir „Rísið upp og óttist ekki“. Breytingar er nokkuð sem gerir okkur mörg hver óttaslegin, hvort heldur sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar enda tölum við oft um að einhver hafi sýnt mikið hugrekki með því að gera breytingar á lífi sínu. Sumir með því að skipta um vinnu, flytja til annars lands, ganga út úr erfiðu ástarsambandi og svo framvegis.
Hvað ætli þau sem beita markvisst ofbeldi eigi flest sameiginlegt? Að vera óttaslegin.
Ég held að ótti sé ákveðið kjarnamein í ofbeldishegðun. Það dregur að sjálfsögðu ekki úr ábyrgð þess sem ofbeldinu beitir enda ekkert sem réttlætir ofbeldi nema þá hugsanlega sjálfsvörn til að bjarga lífi sínu. Hins vegar er gagnlegt að kryfja ofbeldishegðun í viðleitni við að uppræta hana því eins og við vitum svo vel þá breytist ekkert nema gerendur ofbeldis horfist í augu við eigin ábyrgð og hluti af því er að skoða viðbrögð sín. Ótti er hættulegt afl og þau sem beita ofbeldi eru oftar en ekki óttaslegið fólk, ótti þeirra getur hins vegar verið af margskonar meiði sem ég ein er ekki megnug að ná utan um. Þó held ég að ótti gerenda sé mjög oft tengdur einhvers konar afhjúpun á vanmætti eða afhjúpun á leyndarmáli sem gerandinn hefur ekki enn haft hugrekki til að horfast í augu við og gera upp. Þegar við verðum hrædd getum við orðið vond. Við sem höfum misnotað vímugjafa getum sennilega flest viðurkennt áhrif óttans á neyslu. Mörg okkar ef ekki öll höfum misnotað áfengi og önnur vímuefni til að slá á óttann, óttann við að gera breytingar á lífi okkar, óttann við að horfast í augu við gamlar sorgir, áföll, eigin breyskleika eða aðstæður í núinu sem þurfa að breytast til að við náum jafnvægi og þegar okkur skortir hugrekki til að gera þær breytingar þá seilumst við í flöskuna.
Óttinn er ótrúlega hættulegt afl, ekki bara andlega og félagslega eins og áður hefur komið fram, heldur líka líkamlega. Eftir því sem ég eldist skil ég betur og betur þessa möntru hans Jesú „ óttist ekki, verið óhrædd“ bæði er hann að hugga okkur en líka beina okkur frá óttanum að voninni svo við látum ekki óttann stýra okkur því þá skapast mynstur sem leiðir til mikillar óhamingju.
Ég tala um að ótti geti líka verið hættulegur líkamlegri heilsu. Því hef ég svo sannarlega komist að á undanförnum tveimur árum. Eins og kannski margir vita greindist ég með krabbamein vorið 2020 og aftur í fyrra 2021. Á þessum tíma hef ég farið í gegnum tvennslags lyfjameðferðir, 27 geisla og eina stóra skurðaðgerð og allt hefur þetta sínar aukaverkanir og miklar líkamlegar og andlegar áskoranir. Það er þó ekkert miðað við óttann sem brýst fram þegar kemur að eftirfylgd og myndatökum. Af öllu því vonda við krabbamein er óttinn verstur, minn ótti snýr að því að vera mynduð að innan og bíða niðurstöðu og það held ég að sé vegna þess að þá hef ég ekkert um framvinduna að segja, þá upplifi ég stjórnleysi, þá er bara eitthvert fólk að skoða myndir af innyflunum í mér, sér hugsanlega eitthvað vont og ég get ekkert gert. Þá er skárra að mæta í sína lyfjameðferð eða skurðaaðgerð og vera raunverulega þátttakandi í einhverjum aðgerðum og breytingum. Óttinn fer, að ég held ekkert betur með líkamann en krabbameinslyf eins svakalega og þau geta verið. Ég hef upplifað í ótta biðarinnar að fá hjartsláttartruflanir, andþyngsli og doða í varirnar, niðurgang og áberandi bólgueinkenni í líkamann sem hafa gengið til baka þegar óvissunni létti. Ég er sannfærð um að þetta er gríðarlega óhollt fyrir líkamann sérstaklega ef þetta er endurtekið ferli.
Nú bíða mín fjögur ár í eftirfylgd þar sem ég þarf að glíma við þennan vágest, það er að segja óttann, og það í hvert sinn sem líður að myndatöku. Það fyndna er samt að ég hef aldrei dvalið lengi við vondu fréttirnar þegar þær hafa komið, tvisvar hefur mér verið tilkynnt um að ég væri með krabbamein en í hvorugt skiptið brotnaði ég niður eða missti vonina, ég grét ekki einu sinni heldur fór strax í að einblína á það sem hægt væri að gera og uppörva börnin mín, þannig að það er ekki eins og lífið hafi verið búið. Óttinn er að því leyti engan veginn í samræmi við mín fyrri viðbrögð, hann er bara þarna til að vinna mér mein af því að ég hef ákveðið að mér finnist vont að bíða eftir niðurstöðum úr myndatökum.
Ótti er andskoti. Ég held að Jesús sé einmitt að vara okkur við djöflinum þegar hann segir okkur að óttast ekki því það er ekkert venjulegt hvað hann segir þetta oft, í allskonar aðstæðum í guðspjöllunum segir hann „ óttist ekki“ en svo fylgir hann því líka eftir með því að auðsýna fólkinu kærleika og koma því í skilning um að sé elskað skilyrðislaust af honum, af Guði. Ótti er ekki bara andstæða hugrekkis, heldur líka andstæða elskunnar og varnar elskunni, kærleikanum, ástinni inngöngu í líf okkar. Óttinn við að vera hafnað, óttinn við að vera ekki nóg, óttinn við að vera ekki samþykktur, óttinn við að missa stjórn, óttinn við að deyja, óttinn við að lifa. Elskan er ekki í óttanum, lífið er ekki í óttanum. Óttastu ekki því Guð er með þér. Amen.