Lesa meiraStríð verður ekki unnið með vopnum og peningum "/> Skip to content

Stríð verður ekki unnið með vopnum og peningum

Guðspjall dagsins á nú heldur betur við þá tíma sem við lifum núna, sagan af því þegar djöfullinn reyndi að freista Jesú. Jesús var hungraður og þyrstur eftir fjörutíu daga föstu í eyðimörkinni og þá mætir djöfullinn og býður honum gull og græna skóga vilji Jesús falla fram og tilbiðja hann. En innra með Jesú var ekki tóm heldur elska svo hann lét ekki freistast.

 Þegar við erum hungruð og þyrst þá á djöfullinn greiðari aðgang að okkur. Mér finnst svo magnað hvernig biblían talar hreint og beint um djöfulinn og um leið merkilegt hvað nútímamaðurinn er feimin við hugtakið.  Við höfum öll jú okkar djöful að draga eins og máltækið segir. Glíman við alkóhólisma er sem dæmi sannkölluð glíma við djöfulinn því alkóhólismi eflist einmitt og herjar á okkur þegar við líkt og Jesús erum „hungruð og þyrst“ þegar okkur hungrar í sjálfsást, sterkari sjálfsmynd, mannlega nánd, þegar okkur þyrstir í uppgjör áfalla og frið í hjarta, þegar okkur skortir kjark til að horfast í auga við bresti okkur og mæta þeim. Djöfullinn býður okkur að falla fram fyrir hann og þiggja hroka og sjálfsupphafningu að launum. Djöfullinn er andstæða ástarinnar, andstæða Guðs og mun þess vegna aldrei vilja okkur vel en svo er hann líka kamelljón og oft erfitt að greina hornin og halann við fyrstu sýn.

Hver einasti alkóhólisti sem virkur er í neyslu er staddur á einskonar vígvelli og ekur skriðdrekum yfir sjálfan sig og þá sem elska hann. Stríð eru verk djöfulsins, um það vitna atburðir síðustu daga austur í Úkraínu. Pútín hefur látið undan freistingum djöfulsins, ákveðið að lúta honum fyrir völd og sjálfsupphafningu í eigin tómi og allir þjást, við erum öll skelfingu lostin og úkraínska þjóðin í fjötrum angistar af því að einn maður er á valdi djöfulsins, eitthvert tóm, eitthvert hungur, einhver þorsti hefur leitt hann til þeirrar ákvörðunar að ráðast inn í annað ríki og meiða og drepa fólk.

Í sjónvarpsfréttunum á dögunum var rætt við sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, konu að nafni Olga Dibrova. Hún var yfirveguð í tali, gaf sér tíma til að hugsa, nam staðar eftir hverja setningu, horfði beint í augu viðmælandans. Viðtalinu lauk hún með því að lýsa yfir að úkraínska þjóðin hefði sterka burði til að sigra stríðið og svo bætti hún við, stríð vinnast nefnilega ekki með vopnum eða peningum heldur andlegum styrk. Og þá fór undirrituð að vatna músum framan við skjáinn vegna þess að við manneskjurnar erum þannig gerðar að þegar einhver segir sannleikann í miðri þjáningu, þá förum við að gráta, ekki af þjáningunni heldur voninni, þjáningin gerir okkur nefnilega dofin en vonin losar um tilfinningar. Og þetta var svo mikill sannleikur hjá henni Olgu Dibrovu, stríð verða ekki unnin með vopnum eða peningum heldur andlegum styrk. Það á jafnt við um styrjaldir milli þjóða sem og sálarstríð þess sem fíknin hefur hertekið.

Andlegur styrkur er fenginn með andlegu lífi. Með lífi sem er mótað af fjölbreyttri menningu og sannleiksleit í gjörvöllu sköpunarverkinu þar sem við leyfum hrifnæmi okkar að skoða allt frá trjálaufi til hæstu tinda, þar sem við krjúpum gegnt barninu og horfum í augu þess þegar það talar, þegar við finnum lífsfyllingu í því að vera til staðar og þjóna fólkinu okkar, þegar við finnum djúpstæða gleði í því að vakna á venjulegum mánudagsmorgni í marsmánuði og drekka einn kaffibolla og fara út að ganga af því að lífið hefur kennt okkur að það er ekki sjálfgefið heldur þakkarvert. Og þegar við finnum ró til að íhuga eða biðja, bera bænarefni fram af því að við trúum á eitthvað stærra en okkur sjálf, sem í mínum huga er Guð, Jesús Kristur. Það er andlegt líf og andlegt líf sigrar styrjaldir, hrekur djöfulinn á brott og hleypir englunum að.

Published inHugleiðingar