Lesa meiraHeiti pottur sjálfsmyndarinnar "/> Skip to content

Heiti pottur sjálfsmyndarinnar

Loksins, loksins, loksins. Loksins kom að því sem ég hef beðið svo lengi eftir.

Þegar ég var barn lét ég mig dreyma um að verða fullorðin. Mér fannst ekkert sérstaklega gaman að vera krakki þrátt fyrir að eiga hreint ágæta æsku. Fullorðinsárin heilluðu, mig langaði snemma að ráða mér sjálf og sá fyrir mér að sem fullorðinn einstaklingur myndi ég fá meira út úr lífinu. Loks kom að því að ég varð fullorðin samkvæmt lögum en þá fyrst fór lífið að verða verulega flókið, kvíði jókst og allskonar verkefni drógu verulega úr dýrðarljómanum sem hafði umlukið þá stöðu að teljast fullorðinn. Til að gera langa sögu stuttu er það fyrst núna sem ég er að upplifa eitthvað í líkingu við það sem ég lét mig dreyma um að væri ljómi fullorðinsára en ekki misskilja mig, ég hef átt frábært líf og guð minn almáttugur hvað oft hefur verið gaman, fyrir utan þá stóru og ólýsanlegu upplifun að fæða börnin mín og ala þau upp, sem er það besta af öllu góðu sem lífið hefur fært mér. Það sem ég á við er að gæðin við þau tímamót að teljast fullorðin verða alls ekki strax og maður telst fullorðin samkvæmt lögum. Árin milli tvítugs og fertugs eru sennilega gjöfulustu ár lífsins en um leið alveg ótrúlega flókin.

Á manndómsárunum er maður að gera allt það flóknasta á einu bretti, að minnsta kosti samkvæmt minni reynslu, eiga börn, mennta sig, byggja upp heimili, byggja upp atvinnu, hugsa um aldraða og veika foreldra ásamt því að takast á við þá snúnu stöðu að vera ungur með heilmikið misræmi í sjálfsmyndinni en eiga samt að takast á við tvöþúsund og fimm hundruð stór verkefni á einu bretti. En svo uppgötvar maður að þetta þarf auðvitað að gerast svona svo maður eignist einhvern tíma þann frið sem fylgir því að ná miðjum aldri. Maður þarf að fara í allar köldu sturturnar áður en heiti potturinn opnar. Heiti potturinn er hvíldin sem maður fær í sjálfsmyndinni sinni eftir allar köldu sturturnar á manndómsárunum. Heiti pottur sjálfsmyndarinnar er það að vera slétt sama um hluti sem áður tóku frá manni orku og krafta, ekki af því að maður sé fullnuma í lífinu eða búinn að höndla sannleikann heldur þvert á móti vegna þess að fyrir tilstuðlan köldu baðanna hefur maður uppgötvað að það er ekkert merkilegra í lífinu en það eitt að vera á lífi. Fyrir tilstuðlan köldu baðanna sem lífið dýfir manni ofan í trekk í trekk á manndómsárunum en þetta er þekkt yfirheyrsluaðferð hjá lífinu, þá er maður svo fegin að ná loks andanum að ýmsir hlutir hætta að skipta máli. Það eru meðal annars hlutirnir sem mig langaði að nefna í þessum pistli.

Ég keypti mér sumarkjól í búð sem nefnist Hjá Hrafnhildi, mamma sem er áttatíu og sex ára og systir mín sem er fjórtán árum eldri en ég versla gjarnan í þessari ágætu búð. Tvítug tengdadóttir mín sagði kjólinn flottan……… fyrir konu á mínum aldri….þótt hún myndi sjálf ekki ganga í honum…..mér hlýnaði um hjartarætur, þetta fá ekki allir að lifa.

Á dögunum hringdi kona nokkur í mig til að skamma mig. Ég hafði ekki látið hana vita um ákveðinn hlut sem varðaði svo sem ekki almannaheill en skipti hana máli. Á meðan á símtalinu stóð hugsaði ég um atriðið sem hún hafði heldur ekki látið mig vita um en var jafn mikilvægt og það sem ég hafði klikkað á. Ég hugsaði nokkrar sekúndur um hvort ég ætti að æsa mig við hana en vissi sem var, þökk sé köldu böðunum að það myndi nákvæmlega engu skila nema adrenalínrússi fyrir sjálfa mig sem nemur á brott mikilvæga starfsorku og þetta var snemma dags, allur vinnudagurinn framundan svo ég beit í tunguna á mér, baðst afsökunar og við kvöddumst með virktum. Nú þremur dögum seinna sé ég enn betur að æsingur hefði verið eyðilegging á annars frábærum degi, það hefði verið eins og að borða marengstertu klukkan átta að morgni og setja blóðsykurinn í fokk fyrir hádegi.

Ég er hætt að hugsa um að taka af mér aukakíló til að passa í markmiðsbuxur eða geta aftur verslað í Sautján. Nú reyni ég bara að vera skynsamlega feit til að minnka líkur á að fá aftur krabbamein eða sykursýki, þetta heitir víst að eldast.

Nú er maður líka kominn á þann aldur að finnast ekki lengur merkilegt að þekkja frægt fólk af því að maður veit að það er enginn ljómi yfir frægð. Flest frægt fólk engist um af sjálfsefa. Frægðin er sannkallaður bjarnargreiði mannlegs samfélags.

Jú jú mér finnst bullshit leiðinlegt en nú er ég samt eiginlega kominn á þann stað að þykja vænt um fólk sem talar hreinræktaða vitleysu af því að köldu böðin eru búin að kenna mér að ég get sjálf verið algjört fífl í hugsun og bara alls ekkert yfir það hafin að hlusta á smá bullshit úr öðrum. Fólk er bara fólk og bullshit er hluti af því að vera manneskja, við skilum saur með tvennslags hætti. Eina bullshittið sem er að mínu mati engan veginn líðandi heitir stríð. Stríð og ofbeldi í öllum myndum er í raun það eina sem ekki er hægt að líða með nokkru móti, annað bullshit er bara hluti af þeirri köllun að elska fólk.

Ég hef komist harkalega að því undanfarin tvö ár að þótt fólk kunni að meta starfskrafta mína að þá gengur allt sinn vanagang þótt ég detti út af vinnumarkaði. Þess vegna er fáránlegt að drepa sig á vinnu. Maður á að vanda sig í starfi, ekki vera sérhlífinn eða latur en almáttugur minn, þótt ég hætti að vera prestur í dag myndi það nákvæmlega engu breyta um framtíð kirkjunnar. Það kemur alltaf maður í manns stað þegar vinnan er annars vegar en það kemur hins vegar engin mamma í mömmustað fyrir börnin mín. Takk líf fyrir að kenna mér það með blautri tusku.

Það veit í raun enginn neitt og eftir því sem maður eldist tínir sú staðreynd spjarirnar af sér eina af annarri uns hún stendur eftir kviknakin. Við þykjumst oft vita voða margt en flest erum við kjölfróð og kunnum síðan nokkra góða frasa sem láta okkur líta betur út….um stund. Því borgar sig umfram allt að vera einlægur, það er í raun eina viskan sem við höfum umfram önnur spendýr, maður gerir mesta gagnið með því að vera bara nógu einlægur, minnsta áreynslan, mesta uppskeran.

Ég er lögst í heita pottinn…….loksins.

Published inHugleiðingar