Skip to content

Hildur Eir Bolladóttir Posts

“Er samfélagsrýnir um borð?”

Það er einhvern veginn ómögulegt að festa hugann við nokkuð annað en ástandið þessa dagana annars vegar í Grindavík og hins vegar á Gaza. Fyrir viku síðan flaug ég heim frá Tenerife, hinu nýja fyrirheitna landi vesturlandabúa. Á meðan ég dvaldi á eyjunni barðist ég við blendnar tilfinningar. Mér fannst ég vera óttalegur veifiskati og örlaga plebbi að vera að flatmaga þarna í sólinni eins og ekkert væri sjálfsagðara á meðan börnum og öðrum saklausum borgurum væri tortímt á Vesturbakkanum en á hinn bóginn barðist ég líka við löngunina að njóta, því ég var þreytt og þráði góða hvíld. Ég velti fyrir mér að friða samviskuna með því að henda í „gáfulegan“ Facebook status um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, greina nú í eitt skipti fyrir öll kjarnann frá hisminu og vísa í sögulegar heimildir sem ég hef þó ekkert lesið í neinum doðröntum heldur mest megnis á netinu eins og … Lesa meira

Það er Guð, hann er regnboginn

Eitt það skemmtilegasta við prjóna flík er að velja liti og raða þeim saman. Litir hafa eflaust meiri áhrif á okkur mannfólkið en við gerum okkur grein fyrir. Að minnsta kosti höfum við mörg sterkar skoðanir á þeim. Við eigum mörg okkar eftirlætis liti og svo eru til litir sem við gjörsamlega þolum ekki. Við suma liti eigum við í ástar/haturssamband við, í ákveðnum blæ eru þeir okkur að skapi en skeiki um tommu eru þeir ómögulegir. Í gegnum tíðina hafa ákveðnar litasamsetningar verið algjörlega bannaðar, já næstum því með landslögum. Þegar ég er að alast upp var talið nánast hryðjuverk gegn mannkyni að setja saman bleika flík og rauða. Þá þótti brúnn og svartur ekki eiga saman.  Ég man alltaf hvað mér fannst móðir mín hugrökk þegar hún lét sauma á sig svarta og brúna leðurflík og þegar hún hætti að nota flíkina lét hún yfirdekkja antikstól með henni … Lesa meira

Ég á aðra fjölskyldu í útlöndum.

Í liðinni viku fór ég í mína reglubundnu sneiðmyndatöku og blóðprufu til að skoða hvort krabbamein sem ég var með fyrir tveimur árum væri ekki alveg örugglega á bak og burt. Sem betur virðist svo vera og ég auðvitað alltaf jafn þakklát fyrir góða skoðun. Um leið og ég hef fengið niðurstöðu úr skoðuninni læt ég að sjálfsögðu fjölskyldu mína vita, það er að segja þá fjölskyldu sem býr hér á landi. En síðan læt ég líka aðra fjölskyldu vita sem býr raunar á víð og dreif um heiminn, þó aðallega í Norður Ameríku. Sú fjölskylda hittist dag hvern á internetinu, nánar tiltekið á Facebook, í lokuðum hópi sem telur um þúsund manns.

Hópurinn umræddi samanstendur af fólki sem hefur greinst með sama krabbamein og ég glímdi við en umrætt mein er það sjaldgæft hér á landi að þegar ég greindist fyrst fyrir þremur árum leitaði ég þennan hóp uppi. … Lesa meira

Vertu skáld!

Sá einn er skáld sem skilur fuglamál

og skærast hljómar það í barnsins sál.

Hann saurgar aldrei söngsins helgu vé.

Hann syngur líf í smiðjumó og tré

 

Sá einn er skáld sem skilur það og fann

að skaparinn á leikföng eins og hann

og safnar þeim í gamalt gullaskrín

og gleður með þeim litlu börnin sín

 

Sá einn er skáld sem þögull getur þráð

og þakkað guði augnabliksins náð.

 

Þannig yrkir Davíð Stefánsson í öðrum hluta kvæðisins um fuglana. Hér er skáldið trúmanneskja og trúmanneskjan skáld. Að iðka trú er að yrkja. Að yrkja jörðina, rækta jörðina. Að yrkja fólk í merkingunni að rækta fólk. Að yrkja ljóð í merkingunni að rækta tunguna, rækta reynsluheim manneskjunnar.

„Sá einn er skáld sem skilur fuglamál og skærasta hljómar það í barnsins sál.“ Já það er rétt, fuglamálið hljómar skærast í barnsins sál. Það kallast á við fjallræðu Jesú þar … Lesa meira

Þægindi eru ekki mannréttindi

Mig langar að rifja upp tvær myndir af fjölmörgum úr uppvexti mínum sem ég held að hafi gert mér gott. Á annarri er ég að draga saman hey með hrífu framan við torfbæinn heima í Laufási í brakandi sumarblíðu. Sólin er hátt á lofti og ég er í stuttermabol og verð þess skyndilega vör að ég hef brunnið á framhandleggjunum og hleyp inn í hús í ofboði og lendi í beint í flasinu á pabba. Pabbi nær í eitthvert illa lyktandi smyrsl inn í baðskáp og makar á brunann og segir mér svo að drífa mig aftur út til verka. Þarna er ég kannski tíu ára og þótt vissulega hafi verið dálítið óþægilegt að brenna svona þá er jafn líklegt að mér hafi þótt heyskapurinn frekar leiðinlegur og séð mér leik á borði að sleppa vegna meiðsla. Ég man að ég fór aftur út nokkuð stúrin á svip ósátt við … Lesa meira

Ekki vera hrædd

Krakkar, það sem mig langar mest af öllu að segja við ykkur á þessum tímamótum er eftirfarandi: „Ekki vera hrædd við lífið.“ Lífið er gott og allt sem er lífsins megin er gott, ástin er lífið, vonin er lífið, gleðin er lífið, hamingjan er lífið, hugrekki er lífið, seigla er lífið, hláturinn er lífið. Það er engin ástæða til að vera hræddur við lífið en tíðarandinn sem við mannfólkið sköpum okkur eða hin ráðandi stemning í samfélaginu getur hins vegar oft og iðullega gert okkur hrædd. Það er vegna þess að við manneskjurnar höfum alveg sérstakt lag á því að hlusta ekki á Jesú heldur leggja áherslu á allt sem hann biður okkur einmitt um að sleppa, það er stundum eins og við séum öll á gelgjunni gagnvart honum Jesú. Jesús biður okkur til dæmis að sleppa því að bera okkur saman við aðra og hvetur okkur í staðinn til … Lesa meira

Það er sárt að elska

Að elska er stór og margræður veruleiki. Að elska er ekki alltaf það sama og að vera ástfanginn og það þýðir ekki endilega það sama og að vera hamingjusamur. Með öðrum orðum þá getur manneskjan elskað án þess að vera ástfangin eða hamingjusöm þó svo að það fari vissulega oft saman. Að elska er að finna tengingu við aðra manneskju og taka hana inn að hjarta sér, finna til ábyrgðar gagnvart henni og skynja að velferð hennar skiptir þig miklu máli. Að elska aðra manneskju þýðir að hennar gleði er þín gleði og hennar sorgir þínar sorgir. Að elska er það sem við köllum kærleikur, að vera ástfanginn á rómantískan máta getur að sjálfsögðu innifalið þann kærleika sem um er rætt en að elska er  samt dýpri veruleiki, það er eitthvað sem getur ekki horfið eins og það að vera ástfanginn. Að elska er að finna til en að elska … Lesa meira

Áfallahjálpin

Alúð er orð sem hefur orðið mér hugleikið að undanförnu, finnst þér þetta ekki fagurt orð, alúð? Ég man ljóð eftir föður minn þar sem meðal annars segir:

Mikla alúð legg ég

við lítinn garð

að húsabaki:

reit forfeðra minn,

sem bjuggu hér

mann fram af manni.

Ég man föður minn

og aldurhniginn afa

við jarðyrkjustörf

er tóm gafst.

-Ræktaðu garðinn

drengur minn;

þá slær hjartað

og slær rétt-

sagði afi við mig

þar sem hann kraup

og reytti illgresi

úr animónubeði

handan við kjarneplatréð.

Þegar maður les um konurnar sem höfðu fylgt Jesú, syrgðu hann og gengu að gröfinni á páskadagsmorgni til að vita um hann og smyrja hann ilmandi smyrslum þá kemur þetta orð ALÚÐ fyrst upp í hugann. Í huganum opnast gröfin þegar orðið verður að veruleika, þegar alúð er lögð við lífið. „ Hver mun velta stóra steininum frá“ hugsuðu konurnar á leið sinni að gröfinni. … Lesa meira

Ekkert Við og Þið

Nú búum við okkur undir páskahátíðina í kirkjunni með því að líta inn á við, skoða líf okkar og líðan, venjur og siði, hugsanir og gjörðir, samskipti við annað fólk og umgengni um sköpunarverkið. Langafasta eru fjörutíu dagar og minna okkur þann tíma þegar Jesús fastaði í eyðimörkinni eftir að hafa tekið skírn í ánni Jórdan.  Áður fyrr tíðkaðist að neyta léttari fæðu, taka út kjöt og hvíla meltinguna svo huganum gæfist betra tóm til að vinna sitt verk og íhuga pínu og dauða Jesú Krists. Nútímamaðurinn virðist reyndar vera búinn að enduruppgötva gildi föstunnar sér til heilsubótar því á umliðnum árum hafa margir tamið sér að fasta reglulega um lengri eða skemmri tíma og einhverjar læknisfræðilega rannsóknir verið gerðar sem staðfesta gagnsemi þess að fasta. Margir vilja meina að fastan komi blóðsykrinum í betra horf, vinni gegn sykursýki og hjálpi til við þyngdarstjórnun. Af því leiðir að manneskjunni líður … Lesa meira

Ekki stinga Jesúbarnið

Tvær konur á tíræðisaldri urðu mér innblástur þessarar hugleiðingar. Önnur er tengdamóðir mín Sigurjóna Kristinsdóttir en hin er Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti.

Á nýliðnu aðfangadagskvöldi þar sem tengdamóðir mín sat til borðs með okkur og hamborgarhryggurinn var að mjatla í gegnum meltingarkerfið ásamt rósakáli og brúnuðum kartöflum kom upp sú hugmynd meðal yngri kynslóðarinnar að kannski væri gaman að grípa í spil þegar pakkastundin væri afstaðinn. Með öðrum orðum þá var verið að leggja drög að dagskrá kvöldsins því ekki máttum við til þess hugsa að vera með öllu iðjulaus þegar búið væri að rífa utan af gjöfunum og eitthvað fannst okkur nú nöturlegt til þess að hugsa að liggja öll upp í sófa á samfélagsmiðlum. „Þegar ég var stelpa þá mátti alls ekki spila á aðfangadagskvöldi né jóladag og heldur ekki sauma út, pabbi sagði að þá gæti maður átt á hættu að stinga í Jesúbarnið“ sagði tengdamóðir mín … Lesa meira