Lesa meiraVertu skáld! "/> Skip to content

Vertu skáld!

Sá einn er skáld sem skilur fuglamál

og skærast hljómar það í barnsins sál.

Hann saurgar aldrei söngsins helgu vé.

Hann syngur líf í smiðjumó og tré

 

Sá einn er skáld sem skilur það og fann

að skaparinn á leikföng eins og hann

og safnar þeim í gamalt gullaskrín

og gleður með þeim litlu börnin sín

 

Sá einn er skáld sem þögull getur þráð

og þakkað guði augnabliksins náð.

 

Þannig yrkir Davíð Stefánsson í öðrum hluta kvæðisins um fuglana. Hér er skáldið trúmanneskja og trúmanneskjan skáld. Að iðka trú er að yrkja. Að yrkja jörðina, rækta jörðina. Að yrkja fólk í merkingunni að rækta fólk. Að yrkja ljóð í merkingunni að rækta tunguna, rækta reynsluheim manneskjunnar.

„Sá einn er skáld sem skilur fuglamál og skærasta hljómar það í barnsins sál.“ Já það er rétt, fuglamálið hljómar skærast í barnsins sál. Það kallast á við fjallræðu Jesú þar sem hann segir : „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn.“

Og svo segir Jesús okkur líka í guðspjöllunum að við rötum ekki inn í guðsríki öðruvísi en að verða eins og börn. Börn sem skilja fuglamál. Börn sem treysta hinu góða í lífinu, treysta því að lífið geti verið gott. Börn sem skilja fuglamál og skapa sér leik, undrun, gleði og fegurð úr fjöruskeljum og steinum, spreki og reka, nú eða bara ímyndunaraflinu einu. Hefurðu prófað að segja þriggja ára barni bullsögu við kvöldverðarborðið í þeim tilgangi að fá það til að borða matinn sinn? Ég hef gert það og það eru ekki bókmenntir sem mér yrði boðið í Kiljuna til að segja frá. En barnið, það kann að bæta við stundina með undruninni einni, augnaráði tilhlökkunar og spennuþrunginni þögn, sem gerir bullsöguna að eins konar heimsbókmenntum, nærvera barnsins gerir söguna að heimsbókmenntum. Með öðrum orðum. Barnið skapar mikilfengleika með einlægni sinni, hið smáa verður stórt, hið hversdagslega, hátíðlegt.

Og enn veit barnið ekkert um það sem bíður þess í kapphlaupinu um peninga og völd, klækjabrögð, samanburð og sjálfstortímingu blekkingarinnar stóru um að hamingjan sé föl og dauðinn jafnvel umflýjanlegur ef maður á bara nóg og heldur sér ungum og fögrum og eftirsóknarverðum.

Okkur verður tíðrætt um stöðu íslenskunnar í ljósi aukinna umsvifa í ferðaþjónustu hér á landi og í ljósi fleiri innflytjenda og hælisleitenda. Margir lýsa yfir áhyggjum af því að fæst starfsfólk tali íslensku og matseðlar veitingastaða séu sumstaðar jafnvel bara á engilsaxnesku. Í því samhengi veltir fólk því upp hvort þessi þróun muni ekki á endanum tortíma tungumálinu af því að við séum svo ósköp fá en það þykir mér afar ólíklegt, einfaldlega vegna þess að viljinn til að tortíma tungumálinu liggur í persónulegri afstöðu hverrar manneskju til móðurmálsins. Sá sem vill varðveita íslenskt mál gerir það hvort sem hann býr á Íslandi eða er afkomandi vesturfara búsettur í Winnipeg í Kanada þar sem eitt sinn var ein helsta miðstöð íslenskrar menningar í heiminum. Þar voru meira að segja fjölmargar íslenskar bækur gefnar út á móðurmáli vesturfaranna . Þar hefur fólk haldið íslenskri tungu við þrátt fyrir að búa í enskumælandi landi og jafnvel aldrei stigið fæti á íslenska grund. Það er auðvitað bara vegna þess að fólkið hefur vitað og skynjað að tungumálið er tengingin við rætur þess og að rótlaus maðu verður alltaf svolítið eins og gestur í eigin skinni. Varðveisla tungumálsins er með öðrum orðum ekki háð ytri heldur innri veruleika manneskjunnar.

Þess vegna getur fjöldi ferðamanna hvað þá fjöldi innflytjenda ekki borið ábyrgð á lífslíkum íslenskrar tungu. Það er sjálfsmynd hverrar manneskju sem velur hvort hún vill þekkja rætur sínar með því að lesa ljóð og skáldverk, ævisögur, barnabækur, gömul sendibréf eða minningargreinar til að efla málskilning sinn og orðaforða. Og þegar kemur að börnunum okkar, þá snýst þetta líka um að eiga spjallstundir við kvöldverðarborðið þar sem eldra fólkið kennir yngra fólkinu fleiri orð til að tjá sinn innri veruleika. Tjá tilfinningar sínar og skoðanir.

Hugsið ykkur hvað er mikilvægt að rækta málskilning sinn til að njóta og spegla líf sitt í góðum kveðskap. Á liðnu ári hefur til dæmis ljóðið hans Davíðs frá Fagraskógi sem hann Haukur heitinn Morthens söng svo innilega, Til eru fræ oft komið upp í huga minn samhliða fréttum af stríðsástandinu í Úkraínu.

Til eru fræ, sem fengu þennan dóm:
Að falla í jörð, en verða aldrei blóm.
Eins eru skip, sem aldrei landi ná,
og iðgræn lönd, er sökkva í djúpin blá,
og von sem hefir vængi sína misst,
og varir, sem að aldrei geta kysst,
og elskendur, sem aldrei geta mætst
og aldrei geta sumir draumar ræst.

Til eru ljóð, sem lifna og deyja í senn,
og lítil börn, sem aldrei verða menn.

Hér tekst skáldinu með undur hlýjum en þó svo djúpsárum hætti að leiða okkur fyrir sjónir hvað þjáningin er, hvert eðli þjáningarinnar er og ef það er eitthvað sem stríð gera þá er það einmitt þetta, að vængstýfa vonina og gera drauma að engu. Og hann reynir ekkert að enda ljóðið á einhverri ódýrri uppörvun heldur gerir það sem góðum sálgæti sæmir, sem er að leyfa þjáningunni að hafa sinn tíma, sitt rými og færa henni orð.

Í guðspjalli dagsins er meginstefið þetta: Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.

Ef það er eitthvert land, einhver þjóð sem á mikið er það Ísland og íslensk þjóð. Ísland er land friðar, meira jafnréttis en víða þekkist, mikils landrýmis, menntunar, náttúruauðlinda, sagnahefða, já land endalausra tækifæra. Okkar hlutverk er að vera þeim skjól sem misst hafa sitt fyrir heimskra manna ráð. Við fengum svona mikið, ekki til að safna í hlöður heldur til að deila með þeim sem þurfa, það er dílinn sem Guð gerði við okkur í þessu landi. Við höfum ekkert unnið fyrir því að fæðast hér fremur en í stríðshrjáðu landi en sökum þess láns að lifa við slíka gnægtir þá er okkur ætlað að veita af gæðum lands og þjóðar. Það er hin kristna krafa, hún er ekkert miðjumoð, hún er engin marengsterta. Við eigum bræður og systur um allan heim í Jesú Kristi. Við erum kölluð til að mæta þeim sem skáld er skilur fuglamál , saurgar aldrei söngsins helgu vé en syngur líf í smiðjumó og tré.

En svo er það líka okkar stóra gæfa að vera krafinn þess að gefa af því sem við eigum eða höfum að láni, það varnar því að við verðum græðginni að bráð, því eðli græðginnar er að eignast fánýta hluti en tapa um leið öllu sem máli skiptir og standa eftir fátækari í sál og sinni.

Með fjaðraþyt skal fagna sálum þeim

sem fæðast seinna inn í þennan heim.

Þær hræðast síður hríð og reiðan sjó

fyrst hér er nóg um tré og smiðjumó.

Já ef við ræktum fólk, skáldskap og náttúru munu ófæddar kynslóðir síður hræðast hríð og reiðan sjó og það á að vera okkar helsta markmið, okkar framtíðarsýn.

 

 

 

Published inHugleiðingar