Mig langar að rifja upp tvær myndir af fjölmörgum úr uppvexti mínum sem ég held að hafi gert mér gott. Á annarri er ég að draga saman hey með hrífu framan við torfbæinn heima í Laufási í brakandi sumarblíðu. Sólin er hátt á lofti og ég er í stuttermabol og verð þess skyndilega vör að ég hef brunnið á framhandleggjunum og hleyp inn í hús í ofboði og lendi í beint í flasinu á pabba. Pabbi nær í eitthvert illa lyktandi smyrsl inn í baðskáp og makar á brunann og segir mér svo að drífa mig aftur út til verka. Þarna er ég kannski tíu ára og þótt vissulega hafi verið dálítið óþægilegt að brenna svona þá er jafn líklegt að mér hafi þótt heyskapurinn frekar leiðinlegur og séð mér leik á borði að sleppa vegna meiðsla. Ég man að ég fór aftur út nokkuð stúrin á svip ósátt við sálgæslu föður míns og kláraði fjárans verkið.
Á hinni myndinni er ég að sækja sundkennslu um hásumar í gilinu við Gljúfrá en þar var bara hægt að kenna sund þegar troðningurinn að lauginni var orðinn þurr eftir veturinn og laugarvatnið ekki alveg við frostmark og nei ég er ekki fædd 1878 heldur 1978. Í dag er umrædd sundlaug rústir einar og ekki hægt að komast að henni nema á sérútbúnum jeppa. Við krakkarnir í Höfðahverfi lærðum þarna grunnatriði sundsins þótt aldrei hafi mér tekist að læra almennilega að stinga mér né synda skriðsund án þess að lenda í andnauð. Búningsklefarnir voru líflegir í margvíslegri merkingu því fyrir utan okkur krakkana spígsporuðu járnsmiðir, köngulær og mýs þar um og nörtuðu jafnvel í handklæðin okkar. Allir höfðu með sér nesti og flestir heitt kakó því sundkennslan var tekin í nokkrum skorpum, yngri og eldri hópar skiptust á að fara ofan í kalda laugina á meðan hinir náðu upp hita með kakódrykkju og hlaupum um gilið í leik. Ekki fannst okkur krökkunum heldur leiðinlegt að búa að þeirri vitneskju að sundlaugarveggurinn sem sneri út að beljandi ánni væri orðinn svo ótraustur að það væri bara tímaspursmál hvenær hann gæfi eftir og við myndum öll renna út í strauminn. Ég hygg þó að barnshugurinn hafi nú kannski heldur smurt á þá kenningu. En það sem ég hef nú gaman af að rifja þessar minningar upp og ekki síst með yngri áheyrendum. Ég verð nánast roggin. Ég er svo óumræðanlega þakklát fyrir að hafa alist upp í tíðaranda sem enn kenndi seiglu þó að hann hafi reyndar verið töluverður eftirbátur þess tíðaranda sem nú ríkir í að kenna tilfinningalegt innsæi og getu til að setja orð á andlega líðan. Ég var líka barn á tímum þegar allir voru hræddir við alnæmi og samkynhneigðir voru enn að flýja land og konur voru almennt með lægri laun en karlar þannig að Guð forði mér frá því að halda að allt hafi verið betra þegar ég var að alast upp. En sumt var betra og meðal annars það að foreldrar minnar kynslóðar kenndu ákveðna seiglu og þá dyggð að klára hafið verk. Það er rétt að taka það fram áður en lengra er haldið að ég er enn með báða framhandleggi og hef ekki orðið fráhverf sundiðkun þó ég sé leti minnar vegna allt of sjaldan að nýta þær stórkostlegu heilsulindir sem við eigum um allt land.
Í Morgunblaðinu í dag birtist frétt um fyrirhugaða breytingu á sundkennslu meðal efri bekkja grunnskóla þar sem stöðuprófum er meðal annars ætlað að leysa af hólmi hefðbundna sundkennslu. Ástæða breytinganna er sögð vera kvíði og vanlíðan ungmenna vegna sundkennslu og sturtuferða. Í fljótu bragði myndi ég halda að ef ástæður kvíða meðal barna og unglinga væru lagðar á vogaskálar myndi notkun samfélagsmiðla og samanburðarmenning þeirra sannarlega vega þyngra en sundkennsla. Eins er ljóst að þótt mörg ungmenni æfi íþróttir þá hefur hin almenna hreyfing barna minnkað gríðarlega á undanförnum áratugum. Börn og unglingar fara síður ferða sinna gangandi, leikur fer fram í tölvu eða í síma, rafhlaupahjól hafa meira að segja leyst hin hefðbundnu reiðhjól af hólmi. Þess vegna er ekki spurning í mínum huga að jafnvel þótt einhver ungmenni teljist fullnuma í sundi þá sé mjög gott að halda inn í dagskrá skóladagsins því uppbroti að stinga sér til sunds með jafnöldrum sínum. Hreyfing er eitt besta og náttúrulegasta geðlyf sem hægt er að nota og hún hefur ekki bara góð áhrif á kvíða og þunglyndi heldur líka athyglisbrest og ofvirkni. Þar tala ég af reynslu því ég er sjálf með greiningu á þessum kokteil og hef notað útihlaup í marga áratugi til að reyna að lifa af og lifa í gleði. En auðvitað er gríðarlega mikilvægt að vel sé hlúð að börnum og unglingum í sundlaugaklefunum og gætt að því að þar skapist ekki gróðrarstía eineltis. Til þess er jú fullorðna fólkið.
Hin síðari ár hef ég sem prestur og fermingarfræðari orðið meira vör við að foreldrar hringi og biðjist vægðar fyrir börn sín gagnvart utanbókarlærdómi. Þá erum við að tala um það að kunna Faðir vor, boðorðin tíu ( samt ekki í réttri röð eða með formlegu orðalagi) Gullnu regluna og trúarjátninguna. Þegar ég hóf prestsskap létum við krakkana einnig læra Heims um ból og Ástarfaðir himinhæða. Þegar pabbi var á lífi og í prestsskap þá lærðu börnin líka Passísálmana en við skulum nú alveg róa okkur. Nú erum við eiginlega komin á þá skoðun að minnsta vesenið sé að láta þau bara læra Faðir vorið. Það eru hvort eð er ekki nema sirka tuttugu prósent barna sem kunna það við upphaf fermingarfræðslunnar. Eru börn heimskari í dag en fyrir tuttugu árum? Nei það eru þau alls ekki. Í samtalið við börn samtímans greini ég hvern snillinginn á fætur öðrum sem einmitt kann að segja hvað honum finnst og hvernig honum líður og spyr djúpra tilvistarlegra spurninga en svo kannski hringir foreldri sama meistara og biður um að hann þurfi ekki að læra fyrir fermingarprófið af því að hann sé með lesblindu. Síðan hvenær fór lesblinda að hafa eitthvað með námsgetu að gera? Við höfum prófessora við háskóla landsins sem hafa lært með lesblindu og skilað doktorsprófi. Ég skil þetta ekki, ég skil ekki á hvaða vegferð við erum. Og nei fermingarfræðslan á ekki að snúast um utanbókarlærdóm heldur kynni barnanna af Jesú í gegnum sögurnar sem við segjum þeim og af kirkjunni sem hlýju og góðu skjóli í lífsins ólgusjó. Að sjálfsögðu verðum við að taka tillit til kvíða og mæta röskunum af fagmennsku, kærleika og víðsýni en ekki hvað? En ef við tökum börn aftur og aftur út úr aðstæðum áreynslunnar þá rænum við þau mikilvægasta afli mannlegrar sjálfshjálpar sem er seiglan. Lífið er guðdómlegt en það er líka mjög oft óþægilegt enda eru þægindi ekki sjálfsögð mannréttindi. Mér finnst þetta en ég þarf alls ekki að hafa rétt fyrir mér.