Lesa meiraEkki vera hrædd "/> Skip to content

Ekki vera hrædd

Krakkar, það sem mig langar mest af öllu að segja við ykkur á þessum tímamótum er eftirfarandi: „Ekki vera hrædd við lífið.“ Lífið er gott og allt sem er lífsins megin er gott, ástin er lífið, vonin er lífið, gleðin er lífið, hamingjan er lífið, hugrekki er lífið, seigla er lífið, hláturinn er lífið. Það er engin ástæða til að vera hræddur við lífið en tíðarandinn sem við mannfólkið sköpum okkur eða hin ráðandi stemning í samfélaginu getur hins vegar oft og iðullega gert okkur hrædd. Það er vegna þess að við manneskjurnar höfum alveg sérstakt lag á því að hlusta ekki á Jesú heldur leggja áherslu á allt sem hann biður okkur einmitt um að sleppa, það er stundum eins og við séum öll á gelgjunni gagnvart honum Jesú. Jesús biður okkur til dæmis að sleppa því að bera okkur saman við aðra og hvetur okkur í staðinn til að fagna því hvað við erum einstök hvert og eitt, af því hvert og eitt okkar er sérútgáfa sem að hefur ákveðnu hlutverki að gegna í heiminum. Þess vegna eru ekki allir með sömu styrkleikana og sömu greindina og sömu hæfileikana, það er vegna þess að heimurinn þarf á fjölbreytileika að halda, annars verður náttúrlega engin framþróun eða breytingar. Hugsið ykkur ef það væru til dæmis allir nemendur framhaldsskólanna góðir í stærðfræði en engu öðru, færu bara allir í verkfræði og enginn í umönnun sjúkra, uppeldisfræði eða hárgreiðslu? Hugsið ykkur hvað það er mikilvægt að það séu einhverjir sem hafa engan sérstakan áhuga á stærðfræði eða eiga erfiðara með að finna sig þar svo þeir skynji að styrkleikar þeirra eru bara á allt öðrum stað. Samt höfum við skólakerfi sem gerir alla sem ekki geta lært stærðfræði mjög hrædda. Sem er náttúrlega galið.

Tíðarandinn segir líka að það eigi allir að vera tággrannir og stillir því þannig upp að ef maður er ekki tággrannur þá sé maður ekki aðlaðandi eða fallegur og það eru meira að segja til fatabúðir sem selja bara föt upp í ákveðnar stærðir svo þeir sem eru þéttari séu ekki að versla þar. Þetta er sem sagt framlag tíðarandans við að hræða fólk til að vera með holdarfar sitt á heilanum og stöðugt með streitu yfir hiteiningum og sumir verða jafnvel veikir, fá átröskun sem er alvarlegur sjúkdómur á meðan sannlekurinn er sá að það er ekki öllum ætlað að vera í sömu þyngd eða sömu fatastærð. Við erum hvert og eitt gerð úr ákveðinni genasamsetningu sem stýrir miklu þar um og aðal málið er að við hreyfum okkur og borðum hollt til að vera hraust og hamingjusöm. Að einhver ákveðinn vöxtur sé fallegri en annar er hugmynd tíðarandans sem einhver öfl önnur en Guð hafa skapað, að einhverju leyti peningaöfl sem eru að græða á óánægju okkar og hræða okkur til þrældóms við sig. Fegurð hefur nákvæmlega ekkert með holdarfar að gera. Bros vegur þyngra en BMI stuðull þegar kemur að fegurð.

Hugsið ykkur líka ef allir væru gagnkynhneigðir hvað veröldin væri miklu leiðinlegri og litlausari, hugsið ykkur hvað það er dásamlegt og þakkarvert hvernig samkynhneigð og bara hinsegin veruleiki nær að færa kærleikann inn í fleiri víddir og sýna okkur að ástin snýst miklu meira um tvær manneskjar sem tengjast einstökum böndum frekar en skyldunni til að stofna hefðbundna fjölskyldu og eignast tvö börn og bíl.

Elsku fermingarbörn, ekki vera hrædd. Jesús sem þið játist í dag sem ykkar leiðtoga, átti aldrei fasteign, engan pening, hann giftist ekki svo vitað sé, hann sagði hvergi að fólk ætti að vera gagnkynhneigt frekar en samkynhneigt, hann talaði aldrei um holdarfar fólks,  það er að segja hvort æskilegra væri að vera grannur eða feitur, hann átti allskonar vini og vinkonur með mismunandi gáfur og hæfileika, hann gekk ekki í merkjafötum en samt hlustuðu allir á hann og tóku mark á honum. Hann afkastaði miklu en hann hvíldi sig samt alltaf inn á milli og dró sig í hlé og gaf sér tíma til að endurnærast, það kemur fram í guðspjöllunum enda lenti hann ekki í burnouti. Hann hvíldi í því hlutverki sem Guð ætlaði honum og bar allt undir Guð í bæn. Þetta er sá sem þið ætlið að hafa að ykkar leiðtoga og stóra áhrifavaldi í lífinu. Hann þjáðist vissulega en hann reis líka upp úr þjáningunni til að staðfesta það sem hann vill að þið vitið, að þið þurfið ekki að vera hrædd við lífið. Lífið er gott, það sem er ekki gott er ótti mannanna við að gefa sig hinu Guðlega á vald en hið Guðlega er  kærleikur, þakklæti, gleði, hugrekki, einlægni, réttlæti, umburðarlyndi og sannleiksást. Það er ótti mannanna sem varpar skugga á lífið, ekkert annað ekki.

Guð blessi ykkur þennan dag, verið Guði falin og leitist við að lifa óttalausu lífi. Allt mun fara vel.

 

Published inHugleiðingar