Lesa meiraÞað er sárt að elska "/> Skip to content

Það er sárt að elska

Að elska er stór og margræður veruleiki. Að elska er ekki alltaf það sama og að vera ástfanginn og það þýðir ekki endilega það sama og að vera hamingjusamur. Með öðrum orðum þá getur manneskjan elskað án þess að vera ástfangin eða hamingjusöm þó svo að það fari vissulega oft saman. Að elska er að finna tengingu við aðra manneskju og taka hana inn að hjarta sér, finna til ábyrgðar gagnvart henni og skynja að velferð hennar skiptir þig miklu máli. Að elska aðra manneskju þýðir að hennar gleði er þín gleði og hennar sorgir þínar sorgir. Að elska er það sem við köllum kærleikur, að vera ástfanginn á rómantískan máta getur að sjálfsögðu innifalið þann kærleika sem um er rætt en að elska er  samt dýpri veruleiki, það er eitthvað sem getur ekki horfið eins og það að vera ástfanginn. Að elska er að finna til en að elska er líka að eiga von í örvæntingunni og þjáningunni. Að elska er að vita að maður er ekki einn. En það er samt alls ekkert alltaf gaman að elska og síður en svo alltaf auðvelt.

Í dag er mikið talað um gildi þess að hafa gaman, lifa og njóta, verða besta útgáfan af sjálfum sér og svo framvegis. Það að elska samrýmist ekkert endilega alltaf þessum frösum, stundum er bara drulluerfitt að elska. Það er til dæmis enginn glamúr eða freyðandi búbblur á heilabilunardeildinni þangað sem maður fer til að heimsækja ástvin sem er hættur að þekkja mann. Það er ekkert lifa og njóta þá, það er bara sárt og aftur sárt en af því að maður elskar viðkomandi þá gerist það að maður öðlast dýpt í sálinni til að sjá og skynja að það sem eitt sinn var sjálfsagt en er nú orðið að dýrmætum fjársjóði. Að haldast í hendur, nudda stirða fætur, hjálpa til við að matast, greiða hár, lesa ljóð, spila tónlist, þegja saman og leyfa anda hinna heilögu tilfinninga að hugga okkur. Sumir segjast ekki vilja heimsækja þá sem komnir eru út úr heiminum, farnir inn í græna landið, segjast vilja frekar muna þá eins og þeir voru, það eru kannski þeir sem ekki vita að það er líka ógnarsárt að elska.

Að elska er líka að setja barninu sínu skýr mörk og vera oft leiðinlegur í huga þess. Segja Nei! þegar aðrir foreldrar segja já, hafa áhyggjur af skjánotkun og banna síma hér og þar. Krefjast þess að barnið komi heim á tilsettum tíma, hringja og leita að því sé það ekki að standa við gefin loforð og koma því jafnvel í vandræðalega stöðu meðan hinir foreldrarnir eru alveg kúl á því. Ekki svona móðursjúkir eins og þú. Það er alls ekki alltaf gaman að vera foreldri, bara alls ekki, en það á heldur ekki að vera það. Foreldrar geta sannarlega orðið vinir barnanna sinna þegar börnin eru komin til vits og ára, fram að því eiga þeir bara að vera foreldrar. Og þegar barnið öskrar að það hati þig, þá fyrst veistu að það treystir á þig.

Að elska er að vera heiðarlegur við þá sem maður elskar og koma sér ekki undan óþægilegum samtölum um erfið mál, að þora að takast á við ástvini sína, vitandi að dýpt og styrkur tengslanna sé slíkur að þau slitni ekki þótt gefi á bátinn. Að elska snýst mjög mikið og oft um það að flýja ekki af hólmi þegar erfiðleikarnir banka upp á, þó það sé vissulega þægilegra  og tíðarandinn leggi oft ríka áherslu á að maður hugsi fyrst og fremst um sjálfan sig.

Fjölskyldur eru vissulega flókið fyrirbæri, uppkomin systkini eiga ekkert endilega alltaf skap saman, aldraðir foreldrar geta stundum gert mann brjálaðan, óleyst mál frá uppvaxtarárum geta enn verið að trufla. Það er margt í mörgu en að elska þetta fólk snýst mjög mikið um að muna að lífið leiddi ykkur saman, Guð leiddi ykkur saman, ekki til að stofna skemmtigarð heldur til að vera fjölskylda og fjölskyldur eru eitt það fallegasta sem til er í lífinu. Innan fjölskyldna elskar fólk jafnan frá dýpstu hjartarótum sem þýðir að þar getur líka verið mikill sársauki og endalaus verkefni til að vinna með, lifa með og leysa. Þar sem er djúp ást verður líka til djúpur sársauki. Þrátt fyrir allt er þó ekkert dýrmætara en að eiga fjölskyldu.

Að elska kirkjuna er mjög svipað því og að vera í stórum systkinahópi þar sem ýmislegt gengur á og maður skilur ekki alltaf ákvarðanirnar og leiðirnar sem aðrir í hópnum fara, samt einhvern veginn er þessi djúpa tenging til staðar og tilfinning fyrir því að bera ábyrgð og flýja ekki af vettvangi þegar vesenið verður. Nei maður skilur ekki alltaf leiðirnar sem aðrir í hópnum fara en á endanum hefur Guð samt ákvarðað okkur til að fara út í þetta líf og bera ávöxt og það er það sem við þurfum fyrst og fremst að muna í sársauka elskunnar. Það er það sem gerir það að elska svo endalaust fallegt, að við höfum fyrst og fremst verið kölluð til þess að bera ávöxt elskunnar,  í velsæld okkar og hamingju sem og þrengingum og þjáningu. Velsæld elskunnar verður í öllum þessum víddum, jafnvel þótt ekkert annað standi eftir.

Published inHugleiðingar