Lesa meira“Er samfélagsrýnir um borð?” "/> Skip to content

“Er samfélagsrýnir um borð?”

Það er einhvern veginn ómögulegt að festa hugann við nokkuð annað en ástandið þessa dagana annars vegar í Grindavík og hins vegar á Gaza. Fyrir viku síðan flaug ég heim frá Tenerife, hinu nýja fyrirheitna landi vesturlandabúa. Á meðan ég dvaldi á eyjunni barðist ég við blendnar tilfinningar. Mér fannst ég vera óttalegur veifiskati og örlaga plebbi að vera að flatmaga þarna í sólinni eins og ekkert væri sjálfsagðara á meðan börnum og öðrum saklausum borgurum væri tortímt á Vesturbakkanum en á hinn bóginn barðist ég líka við löngunina að njóta, því ég var þreytt og þráði góða hvíld. Ég velti fyrir mér að friða samviskuna með því að henda í „gáfulegan“ Facebook status um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, greina nú í eitt skipti fyrir öll kjarnann frá hisminu og vísa í sögulegar heimildir sem ég hef þó ekkert lesið í neinum doðröntum heldur mest megnis á netinu eins og þorri samborgara minna. En mig skorti þrek og svo er það farið að gerast meira og meira innra með mér þetta sem Sókrates sagði forðum, að ég veit aðeins eitt að ég veit ekki neitt. Og ég veit ekki neitt um ástandið í Palestínu og Ísrael annað en það sem flestir vita og það er aðeins toppurinn á ísjakanum og jafnvel þótt ég legðist í dýpri rannsóknir þá er ég ekki viss um að það myndi nokkru breyta. Ég er nú þegar búin að fatta að það er hreinlega engin eftirspurn eftir greiningu frá mér, ekkert ákall um slíkt.

En víkjum þá aftur að Tenerife. Dvölin þar var eins og við er að búast, nokkuð tíðindalítil.  Stærsta áhyggjuefni ferðamanns á Tenerife er hvort hann eigi að nota sólarvörn tuttugu eða þrjátíu, borða kvöldverð á amerísku ströndinni eða í Los Christianos, drekka áfengt eða óáfengt, verða sér út um töskuvog fyrir heimferð svo hann þurfi ekki að greiða yfirvigt. Þetta er engin algebra, meira svona eins og að perla mynd eftir móti. Og það er allt í lagi. Það er ekkert að því að vera stundum plebbi, það er meira að segja stundum fallegt af því að það er svo skelfing mannlegt og hið mannlega er fallegt sé það á annað borð satt. Og ef maður er kannski bara tuttugu prósent plebbi þá eru nú alveg góðar líkur á því að innan þessara hundrað prósenta sem maður er, sé líka einhver hugsandi vera sem gerir sér grein fyrir því að jöklar eru að hopa og sjávarborð að hækka af manna völdum, að fólk deyr úr fátækt vegna misskiptingar og græðgi annarra og við erum öll ábyrg í þögninni.  Að þegar styrjaldir brjótast út þá verða auðugar og máttugar þjóðir að bregðast hratt við með neyðaraðstoð og miða ekki við lægsta samnefnara, sem virðist reyndar vera að gerast hér á landi.

Í fluginu heim til Íslands gerðist síðan svolítið sem er í raun og veru kveikja þessarar hugleiðingar. Þegar um tveir tímar voru liðnir frá flugtaki heyrðist í kallkerfi vélarinnar „ Er læknir um borð?“ Eða öllu heldur af því að um ítalskt flugfélag og áhöfn var að ræða „ is there a doctor on board?“  Farþegi hafði misst meðvitund í vélinni. Um var að ræða beint flug til Akureyrar þannig að stærstur hluti farþega var af Eyjafjarðarsvæðinu, fljótt gáfu þrír hjúkrunarfræðingar sig fram og einn fyrrum sjúkraflutningamaður, allt fólk sem ég kannast við. Það var unun að fylgjast með framgöngu þeirra. Öll héldu þau fullkominni ró, næstum eins og atriðið hefði verið fyrirfram æft með öllum persónum og leikendum. Flugfreyjan bar sjúkragögn hratt og örugglega í mannskapinn, blóðþrýstingsmæli, súrefnismettunarmæli, hjartalínurit, súrefniskút og meira að segja nál og æðarlegg og vökvapoka. Slöngum og poka var hagrætt upp við töskugeymsluna ofan við sætið þannig að allt í einu leit ein sætaröðin út eins og ofurlítið sjúkrarúm. Flugvélin tók beygju, flugstjórinn tilkynnti að við myndum lenda í Lissabon og bað farþega sökum aðstæðna að halda sig í sætum.

Þegar horft var yfir farþegarýmið var eins og ekkert óvenjulegt hefði átt sér stað. Allir sátu í sínum sætum, konur sem höfðu verið að prjóna áður en ósköpin dundu yfir héldu áfram að prjóna, unglingar sem höfðu verið að horfa á þætti í símunum sínum héldu áfram að horfa, miðaldra fólk með bækur í höndum hélt áfram að lesa, enginn stóð upp til að fara á salernið, gangvegurinn var auður allt þar til vélin lenti á vellinum í Lissabon og búið var að flytja hinn veika út og inn í sjúkrabíl. Lendingin gekk vel, blá ljós sjúkra og slökkviliðsbíla sem raðað var upp við flugbrautina samkvæmt verklagi þegar um óvænta lendingu er að ræða, raskaði heldur ekki ró farþega. En þá er ekki öll sagan sögð. Í vélinni var stórfjölskylda héðan úr bæ sem var á leið heim eftir afmælisdvöl með ættföður á Tenerife. Drengur einn í fjölskyldunni á þrítugsaldri hafði setið nálægt hinum veika og konu hans og fylgst náið með aðgerðum hjúkrunarfólks. Þegar portúgalskir sjúkraflutningamenn höfðu tekið við inn í vélinni og gerðu sig líklega til að bera hinn veika út snaraðist ungi maðurinn úr sæti sínu og sagði „ég ætla að fylgja þeim.“ Fjölskylda hans reyndi ekki að telja honum hughvarf, hinn veiki var einn á ferð með konu sinni sem var eðlilega undir miklu álagi og ungi maðurinn sá að hann gæti verið þeim styrkur með málakunnáttu sinni. Svo hann yfirgaf vélina og fjölskyldu sína og hélt inn í borgina með þessu bláókunnuga fólki en vélin tók aftur á loft og við hin sem vissum, sátum eftir með kökkinn í hálsinum.

Nokkrum dögum eftir heimkomu berast svo vondar fréttir frá Grindavík. Allt bendir til þess að gos sé í vændum og jafnvel í byggð. Rýma þarf bæinn og íbúar yfirgefa heimili sín án þess að vita hvort þeir muni nokkurn tíma geta snúið aftur heim. Um leið berast fréttir af fólki sem býður heimili og húseignir til dvalar án umhugsunar, bláókunnugt fólk réttir öðru bláókunnugufólki hjálparhönd.

En aftur að Gaza, aftur að ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Hvað getum við gert. Það er engin eftirspurn eftir fleiri samfélagsrýnum held ég, ekki frekar en í flugvélinni þar sem hlúð var að hinum veika. Þar var ekki kallað eftir skoðun nokkurrar manneskju á ástandinu, heyrðist aldrei í kallkerfinu „ is there a social critic on board?“ Það var bara spurt hvort einhver gæti hjálpað. Og það er spurningin sem við erum líka spurð að varðandi styrjöldin sem geysar á Gaza í dag. Getum við hjálpað? Erum við að veita næga neyðaraðstoð sem þjóð? Þetta eru einu spurningarnar sem við þurfum að svara á meðan hamfarir ganga yfir. Á meðan fólki er ógnað og það týnir lífi. Getum við hjálpað, „ er líkn um borð í þjóðarskútinni okkar?“

Martröðin sem fólk er að lifa fyrir botni Miðjarðarhafs núna er slík að það er engin eftirspurn eftir pólitískum skilgreiningum og vangaveltum á samfélagsmiðlum. Bænir væru miklu sterkara svar af því að þetta er ástand sem er langt út fyrir alla röklegan skilning og andvarp okkar í bæn er miklu betra ávarp inn í aðstæður en skoðanir okkar og greiningar. Það eina sem við getum og eigum að gera er að koma sjúkragögnum á staðinn, matvælum og hreinu vatni og biðja fyrir öllum sem líða, Ísraelsþjóð jafnt sem Palestínu og síðast en ekki síst, kalla eftir vopnahléi.

Fegurðin sem ég upplifði í flugvélinni á dögunum var ekki bara fólgin í framgöngu hjúkrunarfólksins og drengsins sem fylgdi hinum sjúka og konu hans heldur líka farþegunum um borð. Ég verð að viðurkenna að ég varð dálítið stolt af því að þetta væri mitt samfélag sem brygðist svona við, hin máttuga yfirvegun, tillitsemi og skilningur. Fólk komst ekki klósett í langan tíma og það mátti sjá þegar hinn veiki var farinn frá borði og menn þyrptust í keng út á ganginn og í átt að salerninu. Meðan verið var að hlúa að sjúklingnum settu allir þarfir sínar til hliðar, grátandi börn hættu að gráta, svangir og þyrstir biðu átekta, allir sátu og þögðu og gáfu hinum nauðstadda rýmið.

Þetta getum við og þá er allt í lagi að vera kannski tuttugu prósent plebbi. En nú þurfum við að virkja þessa getu okkar, systrum og bræðrum fyrir botni Miðjarðarhafs til heilla.

 

 

Published inHugleiðingar