Lesa meiraÞað er Guð, hann er regnboginn "/> Skip to content

Það er Guð, hann er regnboginn

Eitt það skemmtilegasta við prjóna flík er að velja liti og raða þeim saman. Litir hafa eflaust meiri áhrif á okkur mannfólkið en við gerum okkur grein fyrir. Að minnsta kosti höfum við mörg sterkar skoðanir á þeim. Við eigum mörg okkar eftirlætis liti og svo eru til litir sem við gjörsamlega þolum ekki. Við suma liti eigum við í ástar/haturssamband við, í ákveðnum blæ eru þeir okkur að skapi en skeiki um tommu eru þeir ómögulegir. Í gegnum tíðina hafa ákveðnar litasamsetningar verið algjörlega bannaðar, já næstum því með landslögum. Þegar ég er að alast upp var talið nánast hryðjuverk gegn mannkyni að setja saman bleika flík og rauða. Þá þótti brúnn og svartur ekki eiga saman.  Ég man alltaf hvað mér fannst móðir mín hugrökk þegar hún lét sauma á sig svarta og brúna leðurflík og þegar hún hætti að nota flíkina lét hún yfirdekkja antikstól með henni sem tók á sig skemmtilega mynd,  þar varð til blanda af gömlu og nýju í stofunni heima.

Ég man líka þegar ég var unglingur hér á Akureyri hvað mér fannst Anna Richards fjöllistakona flott einmitt fyrir það hvað hún var óhrædd við að brjóta allar óskráðu reglur um litasamsetningar. Það fylgir raunar oft listrænu fólki að það sér liti með öðrum augum og horfir út fyrir kassann með sinn sískapandi huga. Ég held að bróðir minn sem er myndlistarmaður hafi aldrei í lífinu getað hugsað sér að mála myndir eftir pöntunum fólks sem vantar veggskraut í ákveðnum lit sem tónar við nýja stofusófann. Ekki að það sé eitthvað að því. En mig minnir að hann hafi einu sinni fengið slíka beiðni og þá horft á viðkomandi eins og þeir töluðu alls ekki sama tungumál og þyrftu á góðum túlki að halda.

Að skapa er einmitt það að ögra viðteknum hugmyndum og snúa þeim á hvolf og kanna þanþol mannshugans og fagurfræðinnar. Aðeins þannig fæðist ný vitneskja, ný viðmið og gildi á hverjum tíma. Þess vegna er listin svo ótrúlega mikilvæg af því að hún segir okkur svo mikið um það hvað það merkir að vera manneskja.

Í septembermánuði sótti ég prjónahátíð á eynni Fanö í Danmörku ásamt nokkrum góðum konum héðan úr bæ. Þar tókum við eftir að litaval danskra prjónakvenna er greinilega töluvert glaðlegra en okkar. Ef til vill ræður skammdegi og þungur vetur einhverju þar um en svo gæti það líka verið fámennið og tilhneiging okkar til að gera eins og manneskjan á næsta borði af því að það krefst meira hugrekkis að vera ögrandi í fámenni en fjölmenni.

Dönsku prjónakonurnar voru mikið í stórum peysum í skærgulum og bleikum litum, hvítum og kóngabláum og skáru sig úr mannfjöldanum eins og sumar á miðju hausti. Ég var alveg heilluð og um leið svo undrandi að hafa aldrei látið mér detta í hug þessar litasamsetningar. Ég hálf skammaðist mín að hafa þurft  að yfirgefa landið til að uppgötva að gulur og bleikur fer alveg dásamlega vel saman í prjónaðri flík. En við þurfum jú oft að ferðast, fara að heiman til að sjá og reyna nýjar samsetningar ekki satt?

Tvö stærstu ástartákn kristinnar trúar eru einmitt dæmi um ögrandi samsetningu, skærrautt á móti gulu eða bleiku. Annars vegar krossinn þar sem kristur breytir aftöku í fæðingu og hins vegar regnboginn sem verður til í samruna rigningar og sólar. Með regnboganum lýsir Guð því yfir að hann elski hina fjölbreyttu flóru mannlífsins. Og ekki bara elski heldur sé hver manneskja í kyni sínu, kynþætti og kynhneigð sköpuð í mynd Guðs. Fáar litasamsetningar eru jú eins ögrandi og regnboginn. Fæst nútímaheimili eru innréttuð í mörgum litum, þótt manneskjurnar sem þar búa séu einmitt það, í öllum litum regnbogans. Flest heimili eru hvít og grá en það eru fæstar manneskjur. Við erum samsett úr mörgum ólíkum litum, í okkur togast á allskonar mótsagnir en þar eru líka andstæður sem haldast þétt í hendur, samanber sorg og gleði. Flest erum við flæðandi milli lita. Hver er bara kona og bara karl? Bara gagnkynhneigður og bara samkynhneigður? Við erum alltof flókin til að hægt sé að setja á okkur svo einfaldar merkingar og allt lífið erum við uppgötva eigið sjálf.

Umfram allt erum við þó Guðs góða sköpun og því má aldrei gleyma. Mikilvægasta trúræknin felst í að muna það um sjálfan sig og aðra. Vel orðaðar bænir og guðfræðilega snjallar prédikanir munu aldrei koma í stað þess að efla hugrekki sitt gagnvart fjölbreytileika lífsins. Gagnvart því að vinna með fordóma sína, það er hin eiginlega kristna trúrækni og það sem Jesús bað okkur lengstra orða um að gera. Hann kenndi okkur eina bæn, hann bað okkur að framkvæma tvær athafnir, skírn og altarisgöngu en þess utan var hann mest að kenna okkur að hugsa út fyrir kassann og leiða okkur fyrir sjónir að manneskjur væru margskonar.

Á undanförnum vikum hefur verið mikil umræða og nokkur átök um hinsegin fræðslu í grunnskólum. Tilgangurinn með fræðslu samtakanna 78 er annars vegar að setja í orð hugsanir, sjálfsmynd og líðan barna sem vita ekki hvernig þau eiga að snúa sér en skynja það eitt að þau skera sig úr fjöldanum með einhverjum hætti. Hins vegar að fræða þau sem ekki líður þannig en hafa mikið um það að segja hvernig trans eða samkynhneigðu ungmenni líður þegar það kemur út úr skápnum, sem sagt félagarnir. Með öðrum orðum þá eru samtökin að vinna að því að vernda líf og heilsu barnanna okkar. Þau eru að segja, „hvernig sem þú ert, þá ertu eins og þú átt að vera.“ Samtökin 78 eru lýðheilsustofnun, þau eru að vinna að því að vernda heilbrigði fólks til líkama og sálar. Það er ekki lítið og ekki lítið sem við  sem samfélag eigum þessum samtökum að þakka, þau hafa bókstaflega bjargað mannslífum. Bjóðum þau velkomin á hvert heimili, í hvern skóla og hverja kirkju.

Regnbogi Guðs er ögrandi. Passar ekki við einn einasta sófa á íslensku heimili í þeirri tísku sem nú ríkir. Þó er ekkert sem fær okkur til að hrífast eins mikið og djúpt og þessi ástarbogi milli Guðs og manna. Ekkert sem fær þreyttan ökumann á rauðu ljósi til gleyma áhyggjum sínum eins fljótt og regnbogi við Faxaflóa. Hið mesta undur og hin mesta fegurð lífsins birtist í sterkum og ögrandi litbrigðum. Það er Guð, hann er regnboginn.

 

 

Published inHugleiðingar