Lesa meiraFlugpresturinn "/> Skip to content

Flugpresturinn

Sumir halda að preststarfið sé eitthvert óvenjulegasta starf í heimi. Sjálf hef ég stundum gælt við þá hugmynd eftir daga þar sem ég hef haft aðkomu að svo ólíkum atburðum og tímamótum í lífi fólks að ég veit varla hvort ég er á mála hjá jólasveininum eða Jesú. Að vísu eiga þeir það báðir sameiginlegt að vera gjafmildir þó að jólasveinninn sé nú heldur veraldlegri í hugsun. Það sem ég á við er að preststarfið er svo fjölbreytt að það rúmast illa innan ákveðins ramma, sem málverk væri það hugsanlega fest á blindramma. En getur ekki verið að fleirum líði svona gagnvart sínu starfi? Erum við ekki öll á einhvern máta að gegna óvenjulegum störfum sem hafa oft teygjanlegan ramma? Og ef betur er að gáð sjáum við þá ekki ýmis líkindi með störfum hvers annars þó burðarverkið sé e.t.v. ólíkt?

Þegar ég fer að íhuga málið betur þá skýtur upp í kollinn á mér líkindum með preststarfinu og flugfreyju/þjóna starfinu. Að vísu eru átakanlega litlar útlitskröfur gerðar í prestastétt svona miðað við sýnileika enda ljóst að kirkjur fara sífellt stækkandi með breyttu mataræði kirkjunnar þjóna. Það skyldi enginn lifa í þeirri blekkingu að halda að litlu sveitasóknirnar séu sameinaðar vegna fjárskorts heldur er það í raun vegna þess að rýmið við altarið er miðað við presta sem unnu líkamlega erfiðisvinnu, neyttu próteinríkrar fæðu og stóðu því hnarrreistir frammi fyrir almættinu, grjótharðir í kjörþyngd. Það er af sem áður var. Nú eru nýju kirkjurnar í Reykjavík sumar á stærð við Leifsstöð en samt starfa þar að meðaltali tveir prestar. Í Leifsstöð eru hins vegar nokkur hundruð manns á launaskrá (óábyrg tala). Nú og ef við berum þetta saman við flugfreyjustarfið þá er ljóst að aðstæðumunurinn hefur heldur breikkað milli þessara ágætu stétta því vinnurými flugfreyjunnar er einmitt á við gömlu góðu sveitakirkjurnar. Hins vegar eiga þessar tvær starfsstéttir þ.e. prestar og flugfreyjur/þjónar margt annað sameiginlegt.

Fyrir það fyrsta þá starfa báðar stéttirnar í búningum þó það verði nú að viðurkennast að við prestarnir erum nokkuð djarfari í litavali auk þess sem við höfum ekki enn komið okkur upp höfuðfötum sem líkjast litlum árabátum í laginu, það er þó ekki svo vitlaus hugmynd enda er báturinn frumkristið tákn. Í öðru lagi þá eigum við það sameiginlegt að vera í grunninn atvinnugóðmenni sem er ætlað að bregðast við óvæntum aðstæðum með bros á vör. Þar tel ég þó flugreyjurnar/þjónana í heldur erfiðari stöðu því þau geta lent í því að einhver bókstaflega æli á þau, það hef ég aldrei upplifað a.m.k ekki síðan ég var í menntaskóla, en þá var ég heldur ekki prestur.

Í þriðja lagi þá er starfsvettvangur presta lífið sjálft og flugvélar eru dálítið eins og lífið, um leið og þú sest upp í þær þá eru örlög þín að mestu leyti í höndum annarra og þú verður að reyna að hvíla í þeirri staðreynd. Fólki gengur auðvitað misvel að höndla það, rétt eins og lífið. Um leið og maður treystir dómgreind og velvilja flugstjórans þá getur maður slakað á og notið flugsins, jafnvel verslað svolítið í Saga boutique sem flugfreyjurnar kynna með bros og vör, nú eða snætt “gómsætt” álbakkafæði í samfélagi við aðra. Og eins og í lífinu þá er mestur viðbúnaður við flugtak og lendingu. Þá eru ljósin slökkt og kyrrð færist yfir mannskapinn hvort sem það er vegna þess að menn eru hræddir eða auðmjúkir í bæn sinni um að allt fari vel.

Já það er ýmislegt líkt með þessum störfum, jafnvel fleira en rúmast í einum pistli. Þó get ég ekki látið hjá líða að nefna það að þó að flugfreyju/þjóna stéttin sé í heildina gæjalegri í útliti þá er gaman að segja frá því að það eru fáar stéttir í þessu landi  eins mikið myndaðar og við prestar. Smettið á mér er t.d. í fáránlega mörgum íslenskum myndaalbúmum, já vittu til ég gæti verið í myndaalbúmi hjá ömmu þinni og afa með sveitt enni og úfið hár. Frábært. Og við hlið mér annað hvort undurfagurt skírnarbarn eða lofandi unglingur í draumhvítum fermingarkyrtli. Þau höfðu ekkert val. Hins vegar er ég sárasjaldan beðin um að vera á mynd með brúðhjónum, það er kannski vegna þess að þá eru yfirleitt atvinnuljósmyndarar á staðnum og þeir hafa bæði næmt auga og metnað og þurfa að skila af sér mannvænlegri vinnu. Jæja svona er þetta, preststarfið er óvenjulegt og auðvitað finnst mér það líka gríðarlega mikilvægt. Finnst ekki öllum sitt starf mikilvægt og jafnvel mikilvægast?  Og er það ekki bara gott? Það viðheldur þá bæði metnaði og dug. Það er gott að vera prestur en ætli það sé nokkur möguleiki á að verða kannski flugprestur? ( Pistill frá árinu 2012)

Published inPistlar