Að elska
er að hella upp á kaffi
án þess að hafa nokkurn tíma drukkið kaffi
og kveikja á útvarpinu
þótt maður þrái þögnina
bara vegna þess að hún þarf að vakna
Að elska
er að para saman svarta sokka
í stærð fjörutíu og fimm
svo hann fari ekki í ósamstæðum
til vinnu
Að elska
er að lakka á henni táneglurnar
meðan enski boltinn er í sjónvarpinu
og missa af þessu eina marki
til að hitta á réttan stað
Að elska
er að baka skúffuköku á sunnudegi
og bera fram með nýmjólk
þótt best væri að hann drykki bara undanrennu
eða vatn
Að elska
er að kaupa blómvönd í Bónus
og bera heim
í gulum poka
innan um klósetthreinsi
og kæfu
Að elska
er að horfa saman á kvikmynd
um eiturlyfjabaróna
í Mexícó
Og vera á túr
og langa bara að sjá fallegt fólk
sem myrðir ekki aðra
eða vaknar
með reyttan hnakka og stýrur
Að elska
er að gera það sem mann langar ekki til að gera
fyrir þann sem þarf á því að halda
og finna hvernig hamingjan
eykst
jafnt og þétt
við hverja fórn