Í aðdraganda guðsþjónustu sem helguð var hannyrðum og við nefndum prjónamessu átti ég áhugaverð samtöl við nokkra einstaklinga sem hafa sagt mér frá því hvernig hannyrðir og þá sér í lagi prjónaskapur hafa bjargað sálarheill þeirra á erfiðum tímum. Kona ein tjáði mér á dögunum að þegar hún hafi gengið í gegnum erfiðan hjónaskilnað og verið næst því frosin af angist og sorg hafi hún prjónað hverja peysuna á fætur annarri líkt og væri hún í akkorðsvinnu. Þannig sagðist hún hafa í raun sefað sjálfa sig og komist yfir erfiðasta hjallann í sínu skilnaðarferli. Sjálf fór ég ekki að prjóna fyrr en ég veiktist fyrir tveimur árum. Fram að því hafði prjónaskapur verið nokkuð sem ég var algjörlega búin að afskrifa eftir hörmulega vegferð í skóla þar sem mér tókst engan veginn að virkja áhuga eða einbeitingu til að gera nokkurn skapaðan hlut í handavinnutímum. Í raun og sanni var ég einn af þessum óþolandi nemendum sem voru með stöðugan fíflagang til að fela einbeitingarskort og eflaust einhvern vanmátt gagnvart verkefnum sem snéru að verklegri kunnáttu. En svo gerist það að fyrir tveimur árum kviknar áhugi og ég skrái mig á prjónanámskeið hjá stöllunum í Garn í gangi og þá upplifi ég einnmitt það sem fráskilda konan lýsti sem heilandi mætti prjónaskapar.
Sem guðfræðingur er mér löngu ljóst að sköpunarsagan í fyrstu mósebók er yfirhöfuð ekki um það hvernig heimurinn varð til heldur um tilgang skaparans með sköpun sinni. Ráðsmennskuhlutverk manneskjunnar í sköpunarverkinu er ekki að eiga og mega heldur að halda áfram að skapa með Guði vegna þess að þegar manneskjur skapa þá virkjast með þeim kraftar og eiginleikar sem í eðli sínu varðveita líf. Að varðveita lífið er æðsta hlutverk manneskjunnar. Þegar við sköpum eitthvað, hvort sem það er tónlist, ritlist eða prjónuð peysa þá förum við inn í lífsviljann okkar þar sem kærleikur ríkir, von og hamingja. Í sköpunarfasanum verðum við að sjálfsögði ekki Guð en við opnum hins vegar fyrir hina guðlegu eiginleika innra með okkur, sköpunarkrafturinn er hinn heilagi andi innra með manneskjunni og þess vegna einmitt er líkn og hjálp í því að skapa af því að andi sköpunar sem er heilagur andi, huggar og líknar.
Í sköpunarfasanum upplifum við líka tilgang sem er svo óendanlega mikilvægt fyrir andlega vellíðan mannsins. Mér fannst ég einmitt upplifa það svo sterkt í veikindaleyfinu þegar mér var ekki fært að sinna starfi mínu sem er í eðli sínu mjög skapandi starf að það að sitja með prjóna og búa eitthvað til, velja fyrst garn í ákveðnum lit með ákveðna áferð eða nokkra liti saman og þurfa að sjá fyrir sér flíkina og setjast svo niður við að skapa hana, það fyllti mig svo mikilli andagift og gleði já og hreinlega von.
Ég á vinkonu sem missti unga dóttur sína fyrir um ári , hún byrjaði að prjóna í veikindum mannsins síns fyrir nokkrum árum og hélt því áfram eftir andlát hans, svo veikist dóttir hennar og vinkona mín heldur áfram að prjóna. Þegar við tölum saman í síma förum við eðli máls í gegnum það sem fylgir sorginni en oftar en ekki endum við símtalið á því að ræða um prjónaskap. Eftir að ég fór sjálf að prjóna upplifi ég þennan part af samtali okkar vinkvennanna sem einhvers konar upprisu í hvert sinn, einhvers konar staðfestingu á því að þrátt fyrir allt og allt munum við lifa af og lifa innihaldsríku lífi.
Að prjóna er í eðli sínu bæði sálgæsla og sálfræðimeðferð. Hvort myndirðu til dæmis ráðleggja flughræddri manneskju að horfa á sjónvarp í flugi eða prjóna? Ég veit að sálfræðingur myndi allan tímann ráðleggja manneskjunni að prjóna. Ástæðan er einfaldlega sú að í prjónaskapnum felst ákveðin endurtekning og taktur sem hjálpar til við að dreifa huganum í streitufullum aðstæðum. Það er miklu ólíklegra að flughrædd manneskja nái að festa sig við bíómynd af því að þar þarf hún ekkert að gera, en hún þarf að gera eitthvað þegar hún er að prjóna og það sem meira er hún þarf að gera það sem hún gerir, taktvisst.
Eitt er það sem á tímabili varð næstum til þess að ég lagði af prjónaskapinn en það var að mér tókst aldrei að prjóna nokkurn skapaðan hlut án þess að sjá of seint einhverja villu eða hreinlega mistök sem urðu þess valdandi að mér fannst ég hvorki geta notað flíkina né gefið hana áfram. Þá gerist það að ég er stödd á heilsustofnunni í Hveragerði og sit þar um kvöld innan um prjónandi konur og ber þar upp þessa vansæld mína, lán mitt þessa kvöldstund var að í hópnum sat vitur eldri kona sem horfir á mig og segir „er sköpun Guðs fullkomin?“ Nei svara ég „ nei af hverju ætti þín þá að vera það?“ Þar með var málið afgreitt. Nú læt ég mér þykja vænt um þessa galla sem finnast í prjónaflíkunum mínum og bera persónu minni merki sem er bæði hvatvís og skemmtilega ófullkomin.
Ég hitti konu um daginn sem var nýbúin að missa móður sína úr alzheimer sjúkdómnum. Hún sagði mér að þegar öll færni til daglegra athafna var frá móður hennar tekin gat hún samt ennþá prjónað og í raun prjónaðu hún í gegnum öll veikindin þó prjónaskapurinn hafi verið á ýmsan máta. Mér fannst þetta svo fallegt og undirstrikað tilfinningu mína um að prjónaskapur sé eitt vanmetnasta verkfæri sálgæslu og geðhjúkrunar. Ég held að það sér hægt að prjóna sig í gegnum kvíða og prjóna sig í gegnum sorg þó svo að fleira þurfi auðvitað að koma til. Þegar Guð gaf okkur sköpunargáfuna og sköpunarkraftinn þá var hann meðal annars að gefa okkur verkfæri til sjálfsumhyggju og sjálfshjálpar. Því er brýnt að við ræktum sköpunargáfuna okkar markvisst einmitt svo við eigum þessi verkfæri á ögurstundum lífsins, þá semja sumir ljóð, aðrir tónlist og enn aðrir prjóna peysur. En ef við erum of mikið í símanum er hætt við því að við eigum ekki verkfærin þegar við þurfum á að halda.