Það er stundum sagt að ef maður hafi ekki heilsu þá hafi maður ekki neitt. Ég verð að segja að þessu er ég hjartanlega ósammála. Það er auðvitað þeim sem fyrir verður mikið áfall og sorg að missa heilsuna, ekki síst ef heilsubresturinn er varanlegur, ekki dreg ég dul á þá angist. Þó held ég og þykist vita að manneskjur geti átt mikil lífsgæði og hamingjuríkt líf þrátt fyrir allt, margir kynnast einmitt fyrst eigin styrk, þrautseigju og visku að ég tali nú ekki um djúpstæðum kærleika samferðarfólks og vinarþeli þegar þeir verða fyrir heilsutapi. Margir upplifa frið í æðruleysi sínu. Eins er svo margt sem fólk uppgötvar að það geti sinnt og hafi hæfileika til þegar annað er tekið sökum veikinda.
Hins vegar er ég sannfærð um að það að lifa við stríð, sé nokkuð sem yfirtaki svo líf fólks að það sé mjög erfitt að njóta lífsgæða og lifa hamingjustundir, það er ekkert gott sem getur komið út úr stríði. Og þegar ég tala um að lifa við stríð þá á ég við ýmis konar styrjaldir. Í fyrsta lagi kemur upp í hugann hernaður þar sem lífi saklausra borgara er ógnað daglega og fjölskyldum sundrað, feður verða viðskila við fólkið sitt til að sinna herþjónustu og fólk þarf að flýja unnvörpum heimili sín og lífið sem það hefur byggt upp í heimalandi sínu. Svona styrjaldir eru augljóslega mannskemmandi. Annarskonar stríð eru til dæmis stríð sem fólk háir við fíkniefni, áfengi og ýmis konar vímugjafa. Það eru hræðileg stríð þar sem dauðinn er ekki endilega alltaf það versta heldur angistin sem hinn stríðshrjáði og ástvinir lifa, að vita aldrei hvert ástand morgundagsins er eða hvar hinn hrjáði dvelur og hvað hann upplifir á vígvelli fíknarinnar. Stríð eru líka háð innan fjölskyldna, heimilisofbeldi er jú ein algengasta dánarorsök kvenna í mörgum samfélögum heimsins. Og svo erum við líka oft okkar eigin versti óvinur, erum í hreinlega í stríði við okkur sjálf, mörg okkar þekkja ófrið eigin sálar, stríðsógn veikrar sjálfsmyndar og kannski erum við þá einmitt komin að upphafi allra styrjalda, í sjálfshatrinu sem manneskjan glímir við. Stríð eru margskonar, vígvellir víða.
Friður er dýrmætasta auðlind lífsins. En hvað er friður? Friður er jafnrétti, virðing gagnvart fjölbreyttu mannlífi, hugulsemi gagnvart náunganum, miskunnsemi gagnvart náunganum, efnahagslegur jöfnuður (því fátækt er ein tegund ofbeldis þar sem fólki er haldið í hlekkjum einangrunar og streitu) friður er sjálfsvirðing, æðruleysi, hófsemi, getan til að gleðjast yfir litlu og yfir því sem maður á og hefur og að kunna að hlakka til eins og barn, já vera einlægur eins og barn. Og talandi um barnið, eina forvörnin sem við raunverulega höfum gagnvart ófriði hvort heldur sem er stríði milli þjóða, gagnvart fíkn, ofbeldi eða hreinlega eigin tilveru, er að vernda börn frá því þau fæðast og þar til þau geta staðið á eigin fótum. Afdrifríkasta verkefnið sem við fáum í lífinu er að ala upp barn, þess vegna ættum við að gefa því verkefni góðan tíma og stjórnvöld að styðja við það verkefni með öllum ráðum. Barn sem elst upp við öryggi og gott atlæti, hvatningu, aga, heiðarleika og réttlæti eignast frekar þann frið sem hvorki heimurinn eða tíðarandinn megnar gefa eða taka, það eignast grundvöll til að standa á í lífsins ágjöf, ævina á enda. Fá störf í samfélaginu eru meiri ábyrgðarstörf en störf grunn og framhaldsskólakennara, leikskólakennara, íþróttaþjálfara og leiðbeinenda í tómstundastarfi. Það eru fá störf sem að vinna eins áberandi að því að tryggja heimsfrið eins og þessi störf. Friður er veruleiki sem vex upp með hverri manneskju, honum er sáð við fyrsta andardrátt barnsins þegar það kemst í fang móður sinnar og fær að finna að það er ekki eitt í kaldri veröld. Við treystum á kærleikann þegar við fæðumst, ekkert annað, treystum á það eitt að við séum elskuð. Nýfædd fylgjumst við ekki með fréttum, höfum engin markmið, engan metnað til að ná langt, engar gerviþarfir, enga löngun í peninga, búum ekki yfir ögn af hégóma, þekkjum ekki frægð né frama. Eina sem við þráum þegar við fæðumst er ást, kærleikur, elska. Þess vegna getum við óhrædd sagt að friður vaxi upp af ást. Kærleikur er friður. Friður er kærleikur.