Mig langar kannski ekki að tala um þetta hér við ykkur spariklædd og spennt fyrir þingvetrinum en ég ætla samt að gera það, vegna þess að ég held að það sé gagnlegt og kirkjan á umfram allt að tala um gagnlega hluti. Kirkjan á að hugga, uppörva, leiða og blessa og tala um gagnlega hluti, líka þegar hana langar frekar að tala um eitthvað létt og skemmtilegt.
Þess vegna ætla ég að tala um dauðaótta hér í dag. En af því að ég kann illa við að prédika yfir öðru fólki án þess að taka sjálfa mig í gegn um leið þá ætla ég að byrja á því að segja ykkur að ég er ekki undanskilin þeim ógagnlega veruleika sem er efniviður þessarar prédikunar. Mig langar þess vegna að segja ykkur frá einni birtingarmynd óttans sem hefur verið mér dulin, þar til nýlega. Þannig er að eftir krabbameinsveikindi eins og þau sem ég fór nýlega í gegnum þá snýst eftirfylgd heilbrigðiskerfisins um að líkaminn er myndaður í svokölluðum sneiðmyndatækjum til að sjá og greina hvort krabbinn hafi nokkuð tekið sig upp að nýju og þá hvar. Þessar myndatökur eru tauga trekkjandi eins og gefur að skilja einfaldlega vegna þess að maður veit að það er verið að leita að lífsógn í líkama manns. Nema hvað að alltaf þegar ég hef fengið góðar niðurstöður úr þessum blessuðu myndatökum þá gerist hið undarlega. Í stað þess að fara heim til mín og faðma fjölskylduna eða falla á kné og biðja þá finn ég óstjórnlega þörf fyrir að fara í búð og kaupa mér eitthvert óþarfa dót. Oftast eru þetta einhverjar flíkur eða skór eða skart, eitthvað sem ég samt fullan skáp af heima og vantar nákvæmlega ekki neitt. Í þessu samhengi er reyndar mjög fyndið að rifja það upp að þegar móðir mín sem komin er á níræðisaldur lá fjársjúk inn á spítala með einhverja útbreidda sýkingu í líkamanum fór systir mín og keypti á hana dragt í versluninni Hjá Hrafnhildi og kom með inn á sjúkrastofuna og sagði „mamma þú verður að lifa þetta af, komast á fætur og nota þessa dragt“ og ég tók alveg undir með henni „ já mamma þú ferð ekki deyja áður en þú hefur notað þessa dragt að minnsta kosti einu sinni.“
Já dauðaóttinn getur alveg verið fyndinn en í dýpsta kjarna sínum er hann þó allt annað en fyndinn. Dauðaótti sá er ég tala um hér er töluvert flókið fyrirbrigði eins og svo margt sem reynist okkur mannfólkinu djöfull að draga. Það er nefnilega málið með dauðaóttann að hann hefur í sjálfu sér kannski lítið að gera með hræðslu fólks við að deyja per se. Dauðaóttinn er okkur flestum dulin, fæst könnumst við beinlínis við hann í okkar hugsun og atferli, ákvörðunum og gjörðum nema að litlu leyti. Samt er óréttlæti heimsins á valdi þessa seigfljótandi klístraða fyrirbæris. Fátækt heimsins má að mörgu og miklu leyti skýra með dauðaóttanum, það er jú ekki auðvelt að skilja hvers vegna svona agnarsmár hluti heimsins á jafn óheyrilega mikla peninga á meðan einn þriðji hluti heimsins sveltur. Við fyrstu sýn virðist þetta vera vandamál sem ætti að vera auðleyst með einni ábendingu á internetinu en þá höfum við ekki gert ráð fyrir tangarhaldi dauðaóttans. „ Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki,“ segir Jesús og Markús guðspjallamaður greinir frá.
Hlutverk kirkjunnar er tala um gagnlega hluti af því að það var það sem Jesús gerði og þess vegna til dæmis gafst honum aldrei tími til að staldra við og stofna sér heimili, byggja sér hús og safna að sér dóti, hann varð að vera á ferðinni og ná eyrum sem flestra, þið sjáið að hann var ekkert mjög hræddur hann Jesús hann var ekki á valdi dauðaóttans. Hlutverk kirkjunnar er sem sagt að tala um gagnlega hluti en af miskunnsemi eins og Jesús gerði því þó hann væri hreinskilinn og stundum óþægilegur þá var hann alltaf miskunnsamur, það var alltaf kærleikur og miskunnsemi í öllum hans orðum, líka þegar hann reiddist í musterinu og hrópaði „hús mitt á að vera bænahús fyrir allar þjóðir en þið hafið gert það að ræningjabæli.“ Þess vegna ætla ég ekki að tala um dauðaóttann sem eitthvað sem tilheyri illa meinandi fólki vegna þess að við erum öll að fást við þennan ótta í einni eða annarri mynd og þetta snýst ekki um gott fólk og vont fólk því öll erum við bæði góð og vond, það er ekki til manneskja algóð né alvond. Nei við erum öll að fást við þá skelfandi tilhugsun að dag einn munum við ekki eiga neitt og veröldin ekki einu sinni bera þess merki að við höfum verið hérna, eða jú reyndar loftslagið mun bera þess merki en kannski ekkert annað. Og það finnst okkur skelfilegt, að við séum ekki hér og þess vegna verða oft viðbrögðin þau að safna dóti og völdum. Og hugsið ykkur, völd sem safnast upp á fárra hendur af dauðaóttanum einum eru völd sem munu aldrei geta gefið líf eða vöxt vegna þess að þau eru ekki völd þjónustunnar heldur völd eignarinnar, völd óttans. Þau lúta lögmálinu „ ÉG Á og þess vegna er ég, ÉG Á og þess vegna lifi ég.“ Þetta eru sem sagt völdin sem geta af sér hernað og fátækt já og þynnra ósonlag.
Tíðarandinn sem við lifum í er mjög lúnkinn við að hræða fólk. Hann gerir það alveg leynt og ljóst. Meira að segja sakleysislegir samfélagsmiðlar þar sem fólk virðist nú bara vera að óska hvert öðru til hamingju með afmælið og votta samúð sína við andlát og skiptast á skoðunum um þjóðfélagsmál virðast engu að síður vera að auka á kvíða og depurð vegna þess að þeir ýta undir þá tilfinningu að fólk sé ekki að ná árangri í lífi sínu. Og samt veit enginn í raun hvað það þýðir að ná árangri með líf sitt. Er það að eiga eldhúsinnréttingu úr Epal eða taka þátt í bubblupartýi við bakka Láxár í Ásum? Ég veit það ekki. Það eina sem ég veit er að mesta ógn við allt sem lifir er ótti, verstu leiðtogar í heiminum eru haldnir dauðaótta og stærsta ógn við líf og heilsu kvenna er heimilisofbeldi og svo veit ég eins og þið að fleira ungt fólk deyr úr sjálfsvígum hér á landi en krabbameini. Óttinn er allstaðar að deyða líf, einsemdin er allstaðar að deyða líf.
Ég held og er raunar sannfærð um að hin „heilaga“ hlutleysiskrafa samtímans séu ein mestu mistök sem við höfum gert sem samfélag á undanförnum árum. Með hlutleysiskröfunni þar sem trú og trúarbrögðum er ýtt út á jaðarinn en öll mannlífsmiðjan sótthreinsuð af því sem við teljum til einkamála heimilisins. Af því að trúin á að að vera einkamál og börn megi alls ekki hlýða á biblíusögur vegna þess að þá geta þau orðið heilaþveginn og það má alls ekki heilaþvo börn, ekki síst ef þau eiga að hafa frið til að melta öll hlutlausu skilaboðin sem að þau fá á Tik Tok og Instagram og allt hlutleysið í skólanum náttúrlega af því að þar er væntanlega ekki unnið með nein gildi, kennarar eru auðvitað bara vélmenni. Við verðum að gæta þess að börn lifi í alveg hlutlausu umhverfi þar til þau verða átján ára, þau mega alls ekki heyra dæmisögur eða þekkja skírskotanir í menninguna sem er fólgin í trúarbrögðunum og við verðum að gæta þess vel að þegar þau verða fyrir mikilli sorg að þá nefnum við aldrei Guð og Ljós og Von eða Upprisu fyrir huggun samkenndarinnar af því að það eru svo gildishlaðin orð og barnssálin höndlar ekki svona mikil gildi. En nú er ég að grínast og kannski að hæðast sem er ekki gott að prestur geri en ég er bara prestur en ekki Jesús og stundum kann ég ekki betur, Jesús kann þetta töluvert betur en ég þess vegna lifir kirkjan alla mistæka presta eins og mig og ekkert stendur og fellur með okkur.
Heilbrigðiskerfið okkar er alltaf fjárvana en það mun verða það eins lengi og óttinn er okkar mesta ógn. Ótti og einsemd er að aukast í samfélaginu og heilbrigðiskerfið hefur ekkert með orsök þess að gera eða vinna með, það tekst bara á við afleiðingarnar. Við sem samfélag þurfum að vinna með orsakirnar, við þurfum að berjast við dauðaóttann sem viðheldur fátækt og heldur úti stríðsrekstri en svo líka þennan ótta innra með okkur öllum sem er afleiðing þess að við megum helst ekki stunda andlega rækt í almannarýminu, megum ekki vera samferða í því að ræða andleg gildi og trú. Og þegar ég tala um andleg gildi og trú þá er ég ekki bara að tala um íslensku þjóðkirkjuna þótt hana þekki ég best, íslenska þjóðkirkjan gerir sér fulla grein fyrir að hún er einmitt bara ein grein á fjölmenningartré samfélagsins enda raunar langt síðan að íslenska þjóðkirkjan fór sjálf að halda úti og vinna í fjölmenningarstarfi en það er önnur saga. Ég er hins vegar þjónn innan íslensku þjóðkirkjunnar og veit hvað hún hefur upp á að bjóða og hún hefur upp á boðskap að bjóða þar sem manneskjur eru kallaðar til að horfast í augu við kjarna sinn um leið og þær eru umluktar miskunnsemi, það er í lagi að vera maður en þú þarft bara að þora að taka ábyrgð á sjálfum þér, Jesús mun síðan fylgja þér og blessa þig og vaka yfir þér og þú finnur þá náð í bæn og samfélagi. Vertu hugrakkur, vertu hugrökk, já vertu frjáls, ekki mæta lífinu af ótta við dauðann, ekki hafa áhyggjur af því að dag einn verðir þú ekki hér vegna þess að tengsl ástar og vináttu vara út yfir gröf og dauða. Jú jú fólk mun gleyma við hvað þú starfaðir og hvernig hús þú byggðir þér en framtíðar kynslóðir munu vita af þér í taugkerfi sínu vegna þess að þú hafði áhrif á formæður og forfeður í tilfinningatengslum, svo vandaðu þig umfram allt við það.
Ást erfist, sorg erfist og ótti erfist. Mannleg tengsl erfast í fegurð sinni, hamingju, en því miður líka í sársauka,tengslin margvíslegu lifa okkur, svo leggjum höfuðáherslu á þau og vinnum svo að því sem samfélag, ráðamenn og allir sem fá völd í hendur að jafna kjör fólks og lifum lífi í fullri andlegri gnægð vegna þess að það er eina vitið. Hættum að lifa í blekkingum um hið hlutlausa rými, því það er í besta falli leti, að við nennum ekki að tala um afhjúpandi en um leið sammannlega hluti og missum því af dýrmætu tækifæri til að ræða það sem getur rofið dauðaóttann. Ég hvet okkur til þess kæri þingheimur, kirkja, samfélag.