Lesa meiraJesús og transstrákurinn Blær "/> Skip to content

Jesús og transstrákurinn Blær

“Viltu ekki frekar hest Jesús”

Jakob Sebedeusson,

einn af lærisveinunum hrukkar ennið áhyggjufullur

yfir áformum meistara síns

viltu ekki hest svo fólkið sjái þig betur?

Nei við borgarhliðið er bundinn asni, viltu losa hann og færa mér

við skilum honum á sama stað áður en við neytum kvöldverðarins á loftinu, ef dýrið verður hrætt þá er hér tugga til að gefa og þú hefur hönd til að sefa Jakob.

Það er hádegi og sólin er hátt á lofti. Mikill mannfjöldi hefur safnast saman á torginu og veifar pálmagreinum sem blævængjum í hitanum.

Og þarna kemur hann Jesús ríðandi á asnanum, lotinn í herðum, næstum eins og hann sé að gera sig minni og léttari fyrir dýrið sem lullar hægt en örugglega gegnum hliðið

lærisveinarnir í humátt á eftir.

Lítil stúlka slítur sig lausa frá móður sinni og hleypur á móti þeim

hún klappar dýrinu og horfir stórum brúnum augum á Jesú

Átt þú hann? Hvað heitir hann?

Jesús brosir til telpunnar

Nei veistu ég á hann ekki og ég veit heldur ekki hvað hann heitir.

Stalstu honum? Spyr telpan og augun stækka, ekkert í veröldinni er viðkvæmara en augu barns sem er forvitið í fyrirvaraleysi sínu.

Ég fékk hann að láni svarar Jesús og hlær. En hvað finnst þér að hann eigi að heita vinkona? Æ þetta er bara asni, hann þarf ekki að heita neitt svarar stelpan og strýkur yfir múlinn. “ Allir þurfa að heita eitthvað” svarar Jesús, bæði asnar og menn.

Hvað heitir þú litla stúlka?

Ég heiti Abigail svarar telpan stolt, í höfuðið á ömmu minni

Veistu Abigail ég þekkti þig áður en þú varðst til og mun aldrei gleyma þér , nafnið þitt er skráð í lífsins bók og rist í hjarta mér líkt og í hjarta ömmu þinnar sem þú heitir í höfuðið á.

Hvernig þá svarar stúlkan með  örvæntingu í svip, er það ekki sárt

Nei það þýðir að  þú ert partur af mér Abigail alveg eins og þú ert partur af ömmu þinni því hún fæddi mömmu þína og mamma þín fæddi þig og þú ert líka frá mér komin. Við erum saman í andanum Abigail, næst þegar þú verður hrædd eða reið eða óviss, mundu þá að við erum saman í einum anda, ég og þú, að eilífu.

Jesús snýr sér að Jakobi, þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að ég vildi frekar asna en hest því ef ég hefði riðið hesti  líkt og hermennirnir hér allt um kring  hefði barnið aldrei séð mig og ég misst af barninu. Sérðu alla mennina á hestunum, það er enginn að tala við þá, þeir eru einir í sinni veröld. Þess vegna er fólkinu hætta búin af þeim, þeir tala ekki við neinn og allra síst börn.

Mannfjöldinn hefur fylgst með samskiptum Jesú og barnsins og allt í einu tekur fólkið að leggja pálmagreinar á veginn þar sem asninn lullar með Jesú á bakinu. Það hrópar hósanna, hósanna, lofaður sé sá sem kemur í nafni drottins, hósanna.

 

Fleiri börn hlaupa að Jesú og asnanum, þau vilja líka fá að segja til nafns eins og litla Abigail

Ég heiti Noah!

Ég heiti Ava!

Ég heiti Fatima!

Ég heiti Ahmed!

Ég heiti Blær og ég er transstrákur segir fölur drengur sem stendur að baki hópnum eins og hann geri ráð fyrir hinu versta

Jesús stígur af baki, gengur að drengnum, beygir sig eftir pálmagrein sem liggur á sólbökuðum veginum , viðstaddir taka andköf, ætlar hann ekki að hýða hann? En þá réttir hann drengnum greinina og segir “Blær þú ert með pálmann í höndunum því þú ert skapaður í Guðs mynd ” um leið og Jesús sleppir síðasta orðinu taka tár að renna  í stríðum straumum niður kinnar drengsins eins og tveir íslenskir fjallalækir í vorleysingum. En það er einmitt það sem gerðist, hann var leystur frá þrautum eins og lækurinn úr klakaböndum.

Ef ég hefði verið á hesti Jakob, þá hefði hann Blær aldrei stigið fram segir Jesús og lítur á lærsvein sinn með ástúð í augum af því að hann veit að Jakob vill vel. Jakob kinkar kolli, nú skilur hann. Skilur hvað það merkir að vera með allt vald í höndum sér, vald til að umbreyta lífi mannfjöldans sem leggur pálmaviðargreinar á veginn í von um að Jesús sjái hvert og eitt þeirra og þekki þau með nafni. Nú skilur Jakob fyrst  hvað það í raun og sanni er að vera friðarhöfðingi.  Það er að ríða inn um borgarhliðið á asna og eiga sitt fyrsta samtal við lítið stúlkubarn sem heitir Abigail á meðan þeir sem þrá ekkert heitar en að ráða til þess eins að ráða, standa álengdar og bíða færis að klekkja á sannleikanum. En þeir vita heldur ekki að ef þeir sussa á fólkið í gleði þess og von taka steinarnir að hrópa því máttur kærleikans gerir alla hluti nýja.

 

 

 

 

 

Published inHugleiðingar