Lesa meiraÁst á annarri öld "/> Skip to content

Ást á annarri öld

Ég sat með ungum nýgiftum hjónum á dögunum þar sem við ræddum m.a. breytingar á stefnumótamenningu landans. Þau voru að uppfræða okkur gamla fólkið um ný öpp sem eru til þess gerð að para fólk saman eftir áhugamálum, útliti ofl sem hægt er að greina á rafrænu formi, eitt það vinsælasta kallast Tinder og er víst að gera allt vitlaust og ef fram heldur sem horfir  stefnir í alsherjar barhrun hér á landi enda þurfa menn nánast að verða sér út um kúlulán til að fjárfesta í einum perlandi á íslenskri krá . Á Tinder fer fram mjög markviss flokkun í annað hvort já eða nei og ef tveir aðilar segja já við hvor öðrum þá fer eitthvert ferli af stað sem getur leitt til þess að fólk hittist. Þetta er ekki ósvipað þeim tímamótum þegar heimabankarnir komu til sögunnar og maður þurfti ekki lengur að bíða pirraður í röð í bankanum fyrsta hvers mánaðar þegar hinn eftirsótti útborgunardagur rann upp. Nú getur maður borgað reikningana heima í tölvu, fundið sér maka , verslað föt og innbú á E bay, pantað sér mat og bara gert flest það sem venjulegt fólk gerir. Maður þarf eiginlega ekkert að fara út úr húsi, nema kannski með ruslið, svona endrum og eins.

Þegar unga parið var búið að uppfræða okkur gamlingjana um rafræna stefnumótamenningu uppgötvaði ég hvað það hefði mátt litlu skeika að við maðurinn minn yrðum ekki par. Við vorum nú kannski ekki nýkomin úr torfkofunum þegar leiðir okkar lágu saman en fyrir þann sem er fæddur eftir 1990 getur það hljómað sem svo. Þegar ég sá hann fyrst á barnum í Sódómu Sjallinn þá áttum við hvorugt gsm síma, þá voru raunar svo fáir sem áttu slík tæki að hinir útvöldu neyddust stundum til að spígspora með símtækið og tala í það án þess að nokkur væri á línunni, svo hringdi síminn og kúlið fauk út í buskann eins og biðukolla í norðanátt. Við áttum heldur ekki tölvur þegar við hittumst fyrst og hugtakið internet var eitthvað sem maður tengdi helst við Guðjón í OZ og Skúla Mogensen áður en sá síðarnefndi fór að hjóla. Þannig að til að gera langa sögu stutta þá var það bara gamli góði skífusíminn sem lagði líflínuna í árdaga sambandsins en það þýddi líka vissa félagslega einangrun þar sem maður þurfti að halda sig heima við ef ske kynni að pilturinn myndi hringja. Þá leigði ég með góðri vinkonu minni í Tjarnarlundinum á Akureyri, hún átti bíl og við hefðum getað rúntað út í hið óendanlega en nei, heima sat ég og beið eftir því að stórtennti maðurinn með strákústahárið í hlandgulu KA úlpunni hefði samband. Þegar ég rifja þetta upp og hugsa svo um alla samskiptamiðlana, æfóna og öpp sem nú bjóðast í tíðaranda tækifæranna líður mér svolítið eins og ég sé hreinlega ein af vesturförunum, mér líður eins og ég hafi svoleiðis lifað tímana tvenna að það liggi hreinlega á að fara að gefa út fyrsta bindi ævisögunnar.

En skiptir þessi þróun einhverju máli þegar kemur að raunverulegum tengslum? Skiptir einhverju máli hvernig maður hefur kynnst maka sínum þegar maður er á annað borð búin að kynnast honum? Ég held ekki. Það skiptir ekki máli hvort það gerist í gegnum tölvu,  á bar, í kirkjukór eða í ræktinni svo framarlega sem fólk elskar hvort annað, finnur sig vera jafningja og hefur áhuga og þrek til þess að temja hvort annað á svipaðan hátt og lýst er í ævintýrinu um Litla Prinsinn eftir Antoine deSaint-Exupéry en þar segir refurinn við litla prinsinn. „Fyrir þér er ég aðeins refur eins og þúsundir annarra refa. En ef þú temur mig, munum við þarfnast hvor annars. Þú verður mér eitthvað einstakt í heiminum og ég verð þér eitthvað einstakt. Ef þú temur mig verður það eins og sólargeisli í lífi mínu. Þá mun ég þekkja fótatak sem er frábrugðið öllu öðru. Þegar ég heyri fótatak annarra læt ég mig hverfa. Þitt mun kalla mig út úr greninu eins og söngur.“ „ Að temja táknar að binda bönd.“ ( Litli prinsinn)

 

Published inPistlar