Lesa meiraMenning er sálgæsla "/> Skip to content

Menning er sálgæsla

Þegar ég var 10 ára var ég haldin alveg gríðarlegum menningar og menntahroka. Þá hafði ég einhvern veginn mjög sterkt á tilfinningunni að ég væri bullandi námsséni og ætlaði mér sko ekki að sættast á minna en eina doktorsgráðu þegar ég yrði stór, helst tvær. Þetta gerði það að verkum að ég var óforbetranlegur bessewisser og stóð kinnroðalaust aftur og aftur upp í hárinu á kennurum mínum með ósvífni og þótta að vopni, enn í dag grunar mig að eurovisionframlagið „Þá veistu svarið“ í flutningi Ingibjargar Stefánsdóttur hafi verið óður til bernsku minnar. Menningarhroki minn fólst aðallega í því að vera undantekningarlaust sammála föður mínum þegar kom að því að ræða tónlist, hann hafði alveg heiðarlega yndi af klassískri tónlist, hann gat setið og lygnt aftur í augunum í stofusófanum og hlustað á Joan Sutherland, Jussi Björling, Verdi, Vivaldi  ofl án þess að láta truflast af umhverfinu. Mér fannst hins vegar í hjarta mínu Bubbi Morthens miklu skemmtilegri en í huga mínum var lítill bústinn hrokagikkur sem taldi það nokkurt veikleikamerki að viðurkenna hrifningu sína á einhverjum verbúðarsöngvara með gaddavírsrödd í rifnum gallabuxum og örugglega með tattoo. Þarna var ég ekki alveg búin að fatta að það væri sirka hálf öld sem skildi okkur pabba að í aldri og fannst bara mjög eðlilegt að vera á sama stað og hann í minni menningarúrvinnslu.

Í dag finnst mér Bubbi ennþá flottur og líka Joan Sutherland og Jussi Björling en ég er ekkert mikið fyrir óperur, kannski einstaka aríur, mér finnst sumir sálmar mjög fallegir en aðrir alveg fáránlega leiðinlegir, mér finnst sumar evrópskar myndir mjög góðar en aðrar alveg sjúklega leiðinlegar þá vel ég frekar að horfa á rómantískar myndir frá Ameríku með fyrirsjáanlegum endi af því að það er oft hvílandi. Ég er nefnilega búin að komast að því að menning er sálgæsla, hún er spegill á líf okkar hverju sinni og þess vegna þarf hún að vera fjölbreytt. Hver einstaklingur er nefnilega svo fjölbreyttur. Stundum þurfum við evrópska mynd þar sem fólk sést sitjandi á klósettinu með buxurnar á hælunum og leikararnir eru allir með skítugt hár, stundum þurfum við amerískar sögur til að sefa hversdagsangistina, stundum þurfum við Bubba til að minna okkur á að við erum bara lítið fiskiþorp og svo þurfum við Verdi eða Vivaldi til að blasta hátíðleikanum og minna okkur á að þó  við búum á eyju þá getum við alveg skroppið í burtu.

Menning er sálgæsla, hin kristna trú er menning af því að hún er sálgæsla, hún er spegill á líðan okkar og þess vegna á helgihaldið í kirkjunum á það sammerkt með leiksýningum og tónleikum að það á að varpa ljósi á líðan okkar og styðja okkur á þroskabrautinni, hugga, gleðja og kenna og jafnvel sefa hversdagsangistina en umfram allt á helgihaldið að spyrja spurninga og hjálpa okkur að finna svör án þess að reyna að höndla sannleikann. Menning er sálgæsla og sálgæsla er menning.

Published inPistlar