TAKK Ólafur.
Ég á eina mjög skemmtilega minningu um Ólaf Ragnar sem nú lætur af embætti forseta Íslands eftir 20 ára þjónustu. Það var árið1997, ég var enn í menntaskóla en hafði að sumarstarfi að veita leiðsögn um Hóladómkirkju og bjó þá heima hjá foreldrum mínum. Á Hólahátíð þetta sumar flutti herra Ólafur Ragnar hátíðarræðu hvar hann tjáði sig um siðferðileg álitamál varðandi Decode og gagnagrunn Íslenskrar Erfðargreiningu en það var talsvert hitamál á þeim tíma. Ræðan rataði strax í fjölmiðla og vakti mikla athygli og umræðu. Foreldrar mínir voru vanir að bjóða ræðumönnum heim í mat að kvöldi Hólahátíðar og ég var auðvitað eitthvað að snattast þarna með mömmu, taka af borðum og bera fram veitingar. Allt í einu kemur Ólafur til mín og spyr með lágum rómi hvort ég geti leyft honum að hlusta einhvers staðar á útvarp, hann vildi ná fréttatímanum og heyra hvernig menn leggðu út af ræðu hans. Nú voru góð ráð dýr, heimili foreldra minna var jafnan vel búið flestu öðru en tækjum, nóg var af málverkum og bókum en aðeins eitt útvarp í stofunni þar sem allir gestirnir voru samankomnir og svo í eldhúsinu þar sem mamma var á fullu að tilreiða mat. Ég tjáði forsetanum að eina útvarpið utan hringiðunnar væri í herberginu mínu, það væri raunar bleik útvarpsvekjaraklukka sem ég fékk að gjöf þegar ég var 10 ára en svo væri herbergið líka í rúst þannig að ég kynni nú varla við að bjóða honum þangað inn. Ólafur kippti sér ekki upp við það enda á hann dætur á mínum aldri og vissi sjálfsagt við hverju væri að búast.
Svo fór að ég fylgdi forseta upp í herbergið mitt sem var pínulítið, undir súð, jafnan mjög snyrtileg en þennan dag hafði mér láðst að ganga frá fatahrúgu sem lá á rúminu og í minningunni finnst mér alltaf jafn fyndið að hugsa til þess þegar ég var að reyna að gera það besta úr aðstæðum, henda fatahrúgunni inn í skáp og slétta úr rúmteppinu og bjóða herra Ólafi að setjast um leið og ég tók til við að finna Rás 1 á útvarpsvekjaranum en þess ber að geta að þó Hjaltadalur sé fagur er hann allt annað en fjarskiptavænn. Að lokum rann ég á Gufuna og andaði léttar en herra Ólafur var alveg stóískur meðan á þessu gekk og brosti bara góðlátlega að tilfæringum mínum,svo sátum við þarna tvö og hlustuðum á fréttirnar og kannski var það einmitt þarna sem ég uppgötvaði að fólk er bara fólk, líka forsetar. Ég hef aldrei kosið Ólaf en alltaf þótt vænt um hann og því þakka ég allt gott sem hann hefur lagt til samfélagsins, það er nefnilega býsna margt.
Takk Ólafur Ragnar!
Published inPistlar