Að vandlega ígrunduðu máli hef ég komist að þeirri niðurstöðu að djöfullinn sé ekki til. Ég held að í heiminum sé engin illska, bara hungur. Ég held að Guð hefði aldrei skapað heim sem þar sem illskan er náttúrulögmál líkt og fæðing og dauði. Ef illskan væri náttúrulögmál þá hefði samviska okkar ekkert gildi og dygðirnar væru í besta falli hentugt skraut á terturnar sem við munum snæða hér upp í Hólaskóla á eftir. Illska þessa heims er vanræksla og hungur sem við höfum tækifæri til að bregðast við og um það fjallar þessi prédikun.
Þegar minnst er á vanrækslu dettur okkur fyrst börn í hug enda oftast talað um vanrækt börn en ekki vanrækta karlmenn og konur. Þó er það nú svo að öll erum við á einhvern hátt börnin sem við eitt sinn vorum, barnið býr innra með okkur allt lífið og brýst fram á gleði jafnt sem sorgarstundum og í styrkleika okkar og vanmætti. Sálfræðin byggir enn greiningar sínar á uppvaxtarsögu fólks jafnvel þótt meðferðarrúrræði taki breytingum í áranna rás. Sú aðferð að skoða æsku þeirra sem glíma við andlega og tilfinningalega erfiðleika á fullorðinsárum virðist aldrei úreldast. Það segir sig raunar sjálft að það atlæti sem okkur er búið þegar persónuleiki okkar, sjálfsvitund og sjálfsmynd er að þróast skiptir máli varðandi lífssýn okkar og samskiptafærni á fullorðinsárum. Hugmyndir okkar um hvaða uppeldisaðferðir séu heppilegastar fylgja svolítið tíðarandanum hverju sinni, mín kynslóð varð til dæmis fullorðin sextán ára á meðan ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum í dag.
En svo eru ákveðnir uppeldisþættir sem við vitum að verða aldrei bundnir ákveðnum tíðaranda eins og það að veita börnum andlegt og líkamlegt öryggi, elska þau skilyrðislaust, setja þeim skýr mörk svo þau rekist ekki á alla veggi, sýnilega sem ósýnilega, hvetja þau áfram til að rækta hæfileika sína og getu, sýna þeim ástúð og hlýju, athygli og áhuga, kenna þeim mannleg samskipti þannig að þau líti ekki á samskipti sem viðskipti heldur sem lífsgæði sem þarf að rækta. Þá þarf að fela börnum hæfilega ábyrgð í takt við aldur og þroska til dæmis með því að halda átökum foreldra og forráðamanna utan þeirra sjónsviðs og áheyrnar og gera þau ekki að trúnaðarmönnum eins á kostnað annars, svo fátt eitt sé nefnt. Þegar talað er um vanrækt börn sjá flestir fyrir sér börn sem alist hafa upp við súrrandi óreglu, ofbeldi og afskiptaleysi, skítug berfætt börn í rifnum fötum með brostinn svip en staðreyndin er sú að flest erum við að ákveðnu marki vanrækt börn, já við erum bara misjafnlega og mis mikið vanrækt. Í raun má ætla að ekkert barn komist alveg óskaddað frá æsku sinni og einmitt þess vegna höfum við öll tilhneigingu til að verða barnaleg þó fullorðinsaldri sé náð. Já þess vegna glímum við öll við einhverja fordóma, græðgi, athyglissýki og fullkomnunaráráttu, meðvirkni og fíkn, við hrökkvum stundum í píslarvættis hlutverkið og lokum á fólkið okkar án þess að ræða málin eins gagnlegt og það annars er og þess vegna glímum við líka mörg við kvíða, þunglyndi og skömm þótt fyrir því séu líka fleiri og flóknari ástæður. Ég veit að þessi upptalning hljómar ekki mjög uppörvandi á hátíðarstundu en það er bara eitthvað við þennan helgidóm, Hóladómkirkju sem gerir það að verkum að ekki er hægt að standa hér og blaðra um allt og ekkert, hér hafa of margar brautir verið ruddar of sögulegir atburðir átt sérstað til þess að maður geti geiflað sig með góðan varalit og talað um fegurð blómanna og dýrð fjallanna.
Ég vann við að sýna þessa kirkju í nokkur sumur meðan ég var í menntaskóla, hékk hér milli níu og sex á daginn og sagði sömu söguna aftur og aftur. Mér finnst ég einhvern veginn skulda félögum mínum Jóni Arasyni hálshöggnum, Guðbrandi Þorlákssyni sem meitlaði nafn sitt sjálfur í eigin legstein og hvílir hér að baki mér að ég tali nú ekki um kvenskörunginn Halldóru Guðbrandsdóttur sem liggur Hólabyrgðumegin í kirkjunni með lítinn stein en stór afrek að baki, að tala um eitthvað sem er hæfilega óþægilegt en vonandi líka hugvekjandi, þannig að ég ætla að halda áfram að tala um hungur jafnvel þótt flest okkar hér séu býsna vel alin og dagurinn bæði blíður og fagur hér heima á Hólastað.
Ef við reynumst öll vanrækt börn, þýðir það þá að við getum ekkert gert að takmörkunum okkar og hungri á fullorðinsárum? Er þá búið að varða veginn og við öll leiksoppar örlaganna? Nei sem betur fer ekki, við höfum margar leiðir og góða kosti til að seðja hungrið. Það fyrsta sem við þurfum að gera er að verða fullorðin um leið og við eldumst, að verða fullorðinn þýðir nefnilega að maður tekur við stjórnatauminum í lífi sínu og velur skynsamar leiðir til að mæta ótta ,skömm, stjórnleysi og fíkn. Að verða fullorðinn þýðir líka að maður gerir sér grein fyrir takmörkunum sínum og sýnir aumýkt til að leita hjálpar og viðurkenna að maður geti ekki gert allt sjálfur, ekki einu sinni að ala upp börnin sín. Þess vegna skiptir máli að við byggjum upp samfélag þar sem hagur einstaklingsins er ekki bara hans einkamál, þar sem velferð fólks er samvinnuverkefni ýmissa stofnanna og hreyfinga jafnt sem fjölskyldu. Vestræn samfélög hafa því miður þróað með sér gríðarlega einstaklingshyggju sem hefur yfirtekið vitundina um það að við komum hvert öðru við. Allt of oft berast fréttir af ógæfufólki sem ryðst inn í skóla eða aðrar opinberar byggingar og hefur skothríð eða ekur jafnvel flutningabíl inn í mannþvögu með hræðilegum afleiðingum eins og nýleg dæmi sanna og þegar farið er að leita viðbragða nágranna eða samstarfsmanna gerandans er viðkvæðið jafnan að um mikla rólyndismanneskju hafi verið að ræða, að þetta komi verulega á óvart þó hann eða hún hafi reyndar verið svolítill einfari. Heimurinn okkar er í gíslingu fálætis fremur en hryðjuverka, þau eru afleiðing en ekki orsök. Heimurinn okkar er líka í gíslingu besserwissera sem halda að þeir viti hvað allt heila mannkynið í fjölbreytileika sínum þarf á að halda til að lifa innihaldsríku lífi og síðast en ekki síst er heimurinn okkar í gíslingu ótta og fáfræði varðandi mismunandi menningu að ég tali nú ekki um tengsl menningar og trúarbragða og inntak trúarbragða. Og það er svo vont vegna þess að við öll sem erum fullorðin erum á einhver hátt vanrækt börn og börnin okkar líka og það besta sem við getum gert til að fylla upp í eyðurnar, græða gremjuna hafna fíkninni og verða ekki fórnarlömb hungurs er að lifa andlegu lífi.
Að lifa andlegu lífi er ekki bara það að vera kristin þó það sé sú leið sem ég persónulega aðhyllist og boða, að lifa andlegu lífi er í raun það að halda áfram að skapa sjálfan sig þar sem frá var horfið og leita stöðugt sannleikans. Að lifa andlegu lífi er að leggja rækt við eilíf gildi, sem ekki verða frá okkur tekin, jafnvel þótt við töpum öllum okkar eigum, metorðum, fálkaorðum og loks orðum, já jafnvel þegar við töpum sjálfu lífinu eins og við þekkjum það. Að lifa andlegu lífi er að hefja sig yfir takmarkanir tíðarandans hverju sinni á vængjum þeirra gilda sem geta flogið yfir tíma og rúm, gilda sem einmitt Jesús frá Nasaret kenndi í orði og verki, lífi, dauða og upprisu.
Ég á í raun mjög auðvelt með að skilja þau ólíku sjónarmið sem eru uppi varðandi samband ríkis og kirkju þó svo að ég hafi ekki enn komist að niðurstöðu í því máli. Ég veit bara eitt og það er að íslensk þjóð má alveg við því að hafa andlegan stuðning af kristinni kirkju og því starfi sem hún hefur upp á að bjóða að ég tali nú ekki um þeim boðskap sem henni er falið að flytja og samtvinnast daglegu starfi hennar.
Kirkjan sem slík verður auðvitað aldrei yfir gagnrýni hafin en það merkilega er að kannski hefur íslenska þjóðkirkjan sjaldan verið í jafn góðu jafnvægi og í dag sé litið til þeirra stóru framfaraskrefa sem hún hefur tekið á undanförnum árum með hjálp margra, jafnt þeirra sem standa innan hennar sem utan. Íslenska þjóðkirkjan er búin að læra það með nokkrum köldum sturtum að þjóðin nennir engu kjaftæði né orðhengilshætti, helgislepju eða fortíðarþrá og það var mikilvæg siðbót sem þurfti að verða en tengdist ekki Jesú frá Nasaret og hans lífgefandi boðskap heldur hinum vanmáttugu, vanræktu fullorðnu börnum sem eru að reyna að þjóna með öllum sínum takmörkunum. Kirkjan mun reglulega fara í kaldar sturtur en samt hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Nú getur einhver sagt “já en við getum bara ræktað okkar trú hvert og eitt í friði, þurfum enga kirkju til þess?” Og því svara ég “ jú við þurfum hana vegna þess að við getum ekki alltaf bara verið einhver staðar ein í friði með okkar flóknu mennsku þangað til upp úr sýður og friðurinn er úti.”
Jesús lagði áherslu á þetta samfélag sem kirkjan er og speglunina sem við þurfum að eiga hvert í öðru þegar við tökumst á við stóru málin sem eru auðvitað hvernig sófa við eigum að kaupa og hvar Omaggio vasinn á að vera……djók. Nei stóru málin varða sorgina og dauðann, hjónaband og skilnað, framhjáhald, fíkn, sektarkennd og sjálfsvinnu, barnauppeldi og lífsleikni á öllum æviskeiðum, kirkjan er að vinna með þessu stóru mál hvern einasta dag, allt árið um kring? Og hún gerir það bara gríðarlega vel…..með einhverjum undantekningum eins og er á öðrum sviðum. Kirkjan hefur það hlutverk að seðja hungur sem einn maður getur ekki satt, hvorki í eigin lífi né annarra. Og ástæðan fyrir því að hún getur sinnt því hlutverki er að fæðið sem hún býður nærir vitund fólks um að það tilheyri öðrum, sé einhvers virði og hafi einatt val um að beina lífi sínu í farsælar áttir þrátt fyrir alla þröskulda lífsins, háa sem lága.
Já gott fólk þetta er í raun eina framboðsræðan sem mig hefur langað til að halda hingað til og hún er sem sagt fyrir kirkjuna mína, haldin í þessum aldna helgidómi þar sem sagan hefur nánast skrifað sig sjálf. Í gegnum tíðina ef ég sjálf oft gagnrýnt kirkjuna mína en fátt elska ég þó meira og veistu, það væru svo mikil mistök að afskrifa hana sem barn síns tíma þegar hún hefur einmitt það hlutverk að varðveita alltaf barn hvers tíma.