Lesa meiraNýjar tilfinningar "/> Skip to content

Nýjar tilfinningar

Á þessum sólríka degi sem er að kvöldi kominn skírði ég lítinn dreng í örmum ástvina. Um leið og athöfn lauk fór ég að dánarbeði eldri manns sem hafði kvatt  fyrr um daginn eftir erfið veikindi. Við rúmstokk hans sátu ekkjan og afkomendur og krossmarkið sem ég hafði rétt áður brugðið á enni og brjóst skírnarbarnsins var nú borið að brjósti þessa látna manns blandað tárum ástvina rétt eins og hann væri aftur orðin barn við skírnarlaug eilífðarinnar.

Í sjálfu sér er þetta ekki óvenjulegur dagur í lífi prests, við erum aftur og aftur kölluð frá einni laug til annarrar, já laug segi ég því lífið er vatn sem finnur sinn farveg til líknar og gleði. Það sem hins vegar gerir svona daga merkilega er að allar tilfinningar hvort sem er við skírn eða andlát eru nýjar. Þess vegna tekst maður í hvert sinn á við þá áskorun að hlusta eftir hljómfalli gleðinnar og hjartslætti tregans í nýjum takti einhvers konar frumtakti. Það eru ólýsanleg forréttindi að fá að hitta Guð aftur og aftur í anddyri lífs og dauða í þessari  þjónustu við samferðarfólkið og vera einungis falið að vera og hlusta og þykjast ekki vita hvernig best sé  nú að gleðjast eða syrgja, fæðast eða deyja. Vandinn við að vera prestur er ekki sá að því fylgi tæknilega flókin veruleiki sem tekur sífelldum breytingum, vandinn er að eldast í starfinu og eignast reynslu en koma henni samt ekki upp með að gjamma  á ögurstundum í lífi fólks. Guð er þar sem allar tilfinningar eru nýjar og Guð þarf ekki á tilsögn einhverra reynslubolta að halda, heldur þjónustu og samfélagi, auðmýkt og mennsku.

Við megum ekki gleyma að hlusta eftir vatninu sem rennur úr augum fólksins, yfir höfuð hvítvoðungsins, fram af klettabrúninni, undan ísnum, brýst í gegnum klakabönd, seytlar yfir gróður, því dropinn holar steininn og fyllir upp í hjartað.

Við þurfum að æfa okkur að hlusta, þó ekki væri nema til að vernda lífið, jafnt við fæðingu sem dauða, hvort sem við prestar eða eitthvað annað.

Published inPistlar