Lesa meiraAð vera veikur "/> Skip to content

Að vera veikur

Mig langar til þess að vera hér með örlitla, óskáldlega hugleiðingu um það að takast á við veikindi og vera aðstandi. Og af því að ég tala um að vera óskáldleg þá þýðir það að ég ætla að vera praktísk í kvöld sem er raunar bráðnauðsynlegt  þó það sé kannski ekki eins ljóðrænt og spurningin um tilgang lífsins. Eða hvað? Er ekki lífið í heild sinni ljóð, eins konar safn myndbrota úr hversdeginum þar sem við tökumst á við það óæfða hlutverk að vera manneskja?

Mig langar til að bera hér fram nokkur praktísk ráð sem ég hef safnað að mér í gegnum tíðina meðal annars með því að vera aðstandandi  síðustu átján árin og prestur í rúman áratug og blanda þessu saman í örlítinn kokteil. Kokteillinn er þó ekki áfengur enda skiptir miklu máli að vera edrú þegar ógnir steðja að eða bara þegar lífið verður meira krefjandi. Það skiptir ekki máli hvað veikindin heita, ef þau eru lífsógnandi eða ræna hinn veika dýrmætum lífsgæðum þá geta þessi ráð gagnast, ég er hins vegar ekki alvitur þannig að ég bið ykkur að taka við þeim með gagnrýnum og sjálfstæðum huga.

Eitt af því sem ég hef lært af því að vera aðstandandi er mikilvægi þess að fylgja veikum ástvini til læknis, sérstaklega þegar um er að ræða heimsókn sem felur í sér mat á heilsufari einstaklingsins, batahorfum og meðferð. Ástæðan er sú að það er nóg álag að vera veikur svo maður þurfi ekki líka að meðtaka allar upplýsingar og greina öðrum frá þeim, það er gott að deila þeirri ábyrgð og verður oft til þess að draga úr kvíðanum sem byggist upp við óvissu og óöryggi.

Það er nefnilega betra að hafa yfirsýn yfir veikindin og allt sem þeim fylgir, þótt fólk hafi vissulega rétt á að hafna upplýsingum ef það hreinlega vill ekki vita neitt.

Annað ráð sem kannski myndi ekki endilega flokkast sem beinlínis praktískt en engu að síður mikilvægt er að hafa eitthvað framundan að hlakka til, það þýðir einfaldlega að maður er knúinn til að gera ráð fyrir lífinu sem er ekki bara gott heldur verkjastillandi, þó ekki væri nema andlega verkjastillandi. Við eigum aldrei að hætta að gera plön þó við séum á fullu við að njóta líðandi stundar. Framtíðarplön eru hvetjandi og ég held hreinlega að þau lengi lífið og auki líkur á bata. Ég á til dæmis mömmu sem fékk marga blóðtappa í sumar og það sem í alvörunni bjargaði lífi hennar var að druslast hundveik suður til Reykjavíkur til að vera við skírn langömmubarns. Ef hún hefði ekki drifið sig með mér þá er óvíst að hún hefði lifað sumarið, það varð henni nefnilega til happs að vera stödd í Reykjavík þegar hún hneig niður og var flutt á lungnadeildina í Fossvogi þar sem hún komst undir hendur helstu sérfræðinga landsins í lungnalækningum. Þetta hefur líka orðið til þess að hún sér að það er ekkert alltaf öruggast að vera heima ef eitthvað hendir svo nú gerir hún plön um allskonar ferðir, jafnvel utanlands  og svei mér þá ef þessi plön eru ekki að halda henni gangandi, ásamt kannski smá þrjósku og passlegri ákveðni.

Mér finnst líka skipta máli að virkja sköpunarkraftinn þegar veikindi steðja að, við búum öll yfir þeim krafti, það er kannski eini ofurkrafturinn sem við öll höfum. Nærtækt er að minnast Eddu Heiðrúnar Backman leikkonu sem kvaddi okkur á dögunum. Hún var undurfalleg fyrirmynd, hún virtist ekki spyrja um efniviðinn heldur leyfði sköpunarkraftinum að ráða sem varð til þess að hún lifði fyrir ofan sjúkdóm sinn til æviloka, eins aðgangsharður og hann var á heilsu hennar, þegar hún missti eina fjöður úr hatti sínum bjó hún til fugl úr þeirri næstu. Það var svo mikil hvatning að fylgjast með henni þó svo að lífið með þessum freka sjúkdómi hafi án efa verið flókið og oft erfitt.

Ég hef lært sem aðstandandi að það skiptir máli að sýna þolinmæði, sum veikindi reyna á þolinmæði aðstandenda, ekki síst ef þau hafa áhrif á persónu hins veika þannig að þau dragi úr minni og snerpu. Það er svo mikill kærleikur fólginn í þolinmæðinni en ég veit að það er ekkert alltaf auðvelt að viðhalda þolinmæði og svo sannarlega er mannlegt að missa stundum sjónar á henni. Þá hjálpar að minna sig stöðugt á að breytingin sem orðið hefur á hinum veika er ekki hans gjörningur né vilji heldur boðflennunnar sem hangir glottandi yfir lífi hans og fjölskyldunnar.

Mér finnst skipta máli að styðja hinn veika í að hafa sig til, þetta getur hljómað sem hégómlegt ráð þegar ógnir steðja að en staðreyndin er að útlit hefur áhrif á sjálfsmynd okkar og sjálfstraust, það að detta út úr þjóðlífslestinni vegna veikinda er nógu mikið áfall fyrir sjálfsmyndina að maður þurfi ekki líka að horfa daufur í hina áþreifanlegu spegilmynd. Ég hef tekið með mér lit og plokkara í sjúkravitjun þar sem niðurstaðan varð að ég og hin veika efldum vináttu okkar og nánd meðan ég litaði á henni augabrúnirnar og svo lá hún eftir með frísklegri svip á fallega andlitinu sínu. Mér fannst líka dýrmætt að mega gera hana fína fyrst ég hafði hvorki þekkingu né getu til að lækna krabbann sem hún glímdi við.

Þetta eru bara nokkur ráð af fjölmörgum sem mér datt í hug fyrir þessa stund.

Umfram allt það sem hér er nefnt skiptir þó máli að ljá eyra og hafa hugrekki til að hlusta á þann veika án þess að finna sig knúinn til að hafa svör við öllu og hvað þá lausnir. Það þarf nefnilega mikið hugrekki til að hlusta á þjáninguna án þess að burtskýra hana fyrir eigin ótta. Besta sálgæslan er fólgin í elskandi hlustun þar sem virðingin næstum holdgervist í þögninni. Það er besta gjöfin, alltaf, í öllum aðstæðum. ( Flutt í Bleikri messu 9.10.16)

Published inPistlar