Haustið hefur lengi verið minn eftirlætis árstími. Mér finnst náttúran sjaldan ef aldrei jafn falleg og á haustin, jafnvel ekki einu sinni á vorin þegar hún þó vaknar til lífssins og endurfæðisst, gróður er nýr og afkvæmi manna og dýra kallast á af túni. Vorið er vissulega yndislegt í eftirvæntingu sinni en þó finnst mér haustið betra, það er einhver sátt, eitthvert æðruleysi yfir haustinu sem gerir það að verkum að hver dagur fær þá frekar að nægja sína gleði og sína þjáningu. Haustin marka oft breytingar í lífi okkar, sumir hefja skólagöngu á nýju stigi, aðrir fara í fyrsta sinn út á vinnumarkað og svo eru margir sem setja sér ný markmið og stefnu í venjubundinni rútínu. Ég var einmitt ein af þeim sem fann oft bæði hvöt og kraft til að setja mér ný markmið fyrir veturinn, skapa mér ný verkefni sem væru ögrandi og þroskandi. Að barnsskónum slitnum er þetta haust þá líklega hið fyrsta sem ég mæti án þess að iða í skinninu eftir að finna mér einhver ný verkefni til viðbótar við hin hefðbundnu. Nú þarf ég hins vegar að finna út úr því hver ástæða breytinganna sé, hvort það er nokkuð kulnun, leti, metnaðarleysi eða hreinlega þroski og aukið æðruleysi. Þó verð ég að viðurkenna að þessi breytta stefna veldur mér alls engu hugarangri heldur þvert á móti töluverðri vellíðan. Allt í einu er eins og mér finnist ég loks bara vera nóg, svo ég vitni nú í frægan frasa sem olli töluverðum titringi á síðasta ári í tengslum við vinsælan fyrirlesara af yngri kynslóðinni. Kannski er þetta eitthvað sem gerist eftir fertugt, hver veit, hef ekki prófað það fyrr. Nú finnst mér einhvern veginn vel hægt að taka á móti nýjum vetri án þess að setja mér ný markmið og að hugsanlega geti ég hreinlega endurnýtt þau gömlu. Að endurnýta gömul markmið? Getur það hreinlega verið lykillinn að minni steitu, meira jafnvægi, aukinni lífsgleði?
Að loknu sumarfríi þegar ég settist niður á skrifstofunni minni í kirkjunni og tók að svara tölvupóstum, skipuleggja helgihald vetrarins, mæla mér mót við syrgjendur og rúlla hópastarfinu af stað áttaði ég mig allt í einu á að þetta starf sem ég hef unnið síðastliðinn þrettán ár er kannski bara alveg nógu mikið markmið í sjálfu sér, jafnvel þótt hvert haust sé öðru líkt. Kannski þarf ég ekkert að keppa að öðru en að sinna þessu starfi vel, kannski þarf ég ekkert að búa til nýtt hlaðvarp eða stofna nýja bloggsíðu. Kannski þarf ég bara að halda áfram að skíra börn af þakklæti fyrir lífið, gifta pör í gleði yfir sístæðri trú mannkynsins á ástinni, jarða manneskjur í allri elskunni sem að verður til frammi fyrir dauðanum og heitir von. Veita sálgæslu af forvitni og auðmýkt, uppfræða fermingarbörn af ábyrgð, tala við gamla fólkið af virðingu, áhuga og alúð. Kannski er þetta bara nóg og kannski er bara líka nóg að eiga fjölskyldu í ofanálag, huga að nauðsynlegri hreyfingu og borða góða og holla fæðu. Kannski þarf ég ekkert að setja mér ný markmið, kannski þarf ég bara að hlúa að því sem mér hefur nú þegar verið trúað fyrir. Má vera að þetta sé ávinningurinn af því að vera fertugur og ef svo er þá er satt sem vinkona mín sjötug sagði, „til hamingju Hildur með að vera fertug, nú fyrst byrjar líf þitt.“
Eitt af því að sem ég held að auki á streitu okkar í nútímanum sé þörfin fyrir að setja mælikvarða á allt og helst ömmur okkar líka. Stundum finnst mér eins og gæði nútímalífs snúist fyrst og fremst um mælanlegan árangur en ekki raunverulega upplifun eða bara lifun. Getur verið að við séum hugsanlega að missa af lífinu sjálfu í öllu annríkinu við að mæla það. Nú gengur annar hver maður með úr og síma sem mælir hvað hann fer mörg skref yfir daginn, enginn er maður með mönnum nema hann hafi kveikt á Stravaappinu þegar hann gengur á fjöll eða fer út að hlaupa. Einu sinni var gamla góða ónákvæma baðvigtin eina almenna mælingin sem fólk hafði til að fylgjast með líkamlegu ástandi, nú er hins vegar mælanlegt líkamlegt ástand orðið viðmið og kannski ekki að undra þótt margir séu stressaðir eða kvíðnir. Á dögunum fór ég í uppreisn gagnvart Strava og raunar Spotify líka og þaut út í morgunskokkið án síma og heyrnatóla, hljóp sem leið lá upp í Naustaborgir og inn í Kjarnaskóg án þess að hafa nokkuð í höndum um hraða eða lengd. Og hvað haldiði að hafi gerst? Jú ég svitnaði á hlaupunum líkt og áður, komst í endorfínástand en sá samt um leið vísi að íslensku hausti í gróðri og trjám, ég sá líka fugla og það sem meira er ég heyrði þá syngja, svo tók ég eftir eigin hugsunum og heyrði minn eigin andardrátt og gat allt í einu numið hversu ágætlega lungu mín virðast starfa á svona hlaupum, það vakti með mér gleði og þakklæti. Svo kom ég heim, hafandi ekki hugmynd um hversu langt ég hefði farið, skondraðist í steypibað og hélt út í daginn og uppgötvaði að ég hafði óvart stundað núvitund í morgunsárið án þess beint að ætla mér það, vegna þess eins að ég sleppti því að mæla.
Og svo er það hitt sem er alveg gjörsamlega ómælanlegt en við eyðum samt orku og andlegri heilsu í að reyna að mæla, eins og ást og farsæld og hamingja. Einu sinni spurði ég ástvin minn eftirfarandi spurningar „ elskarðu mig mikið“ hann horfði á mig hneykslaður og sagði „ nei ég elska þig ekki mikið..ég bara elska þig.“ Það var sennilega þá sem ég fór að hugsa um allar þessar mælingar, þegar ég sjálf var orðin svo mikill fangi þeirra að ég þurfti að vita hversu mikið viðkomandi elskaði mig. Hið ómælanlega er ómælanlegt af ríkri ástæðu, það er svo við getum ekki höndlað með það, svo við séum meðvituð um að það er gjöf frá einhverju æðra en mannlegum mætti, í mínum huga er það Guð. Ást er ást, farsæld er farsæld og hamingja er hamingja og ekkert Strava til sem mælir það. Stundum ruglum við þessu saman við eitthvað sem er ekki ekta, en það afhjúpar sig þá fljótt. Ef við raunverulega elskum einhvern þá leynir það sér ekki, ef við erum farsæl þá sýnir það sig í samskiptum okkar og ef við erum hamingjusöm þá er það svo ólíkt öllu sem heitir vansæld að við þurfum ekki að velkjast í vafa um hvort það sé hamingja eður ei.
Nú er haust, tími markmiðanna. Eftir þessar hugleiðingar get ég varla talað um það kinnroðalaus að setja mér einhver markmið, það væri ótrúlega mótsagnakennt eftir þessar núvitundarpælingar en það er akkúrat það sem við manneskjurna erum, mótsagnakenndar og gerir okkur svo áhugaverðar og svolítið fallega barnslegar líka. Hvað með að maður geti þó sett sér það markmið að lifa þessu lífi án þess að þess að þurfa alltaf að fylgjast með árangri? Er það eitthvað?