„ Hver er sinnar gæfu smiður?“ Var yfirskrift greinar sem ég skrifaði átján ára gömul í skólablað Menntaskólans á Akureyri. Greinin fjallaði um forvarnarþing gegn vímuefnaneyslu ungmenna sem ég sótti á vegum skólans og var svo fengin til að skrifa um í Muninn nemendablað MA. Frómt frá sagt glottu vinir mínir út í annað þegar drottningin af Góða dátanum, Malibúprinsessa Sjallans, bjórynjan af Kaffi Karólínu sendi frá sér þessa grein eins og hún hefði löngum starfað með Steina löggu í áfengiseftirlitinu og fundið upp foreldraröltið í kjölfarið og látið loka Dynheimum vegna óspekta. Sko manneskjan sem vissi ekki fyrr en á fjórða ári í framhaldsskóla að dreifbýlisstyrkurinn væri ætlaður til að standa straum af hlutum eins og mat og skólabókum en ekki sem hlutafé í áfengis og tóbaksverslun ríksisins. Það er hins vegar allt önnur og skemmtilegri saga, sem verður sögð síðar.
Hitt man ég að á tímum engra snjallsíma né samfélagsmiðla skrifaði ég þessa grein og bar þá upp hvort orðtakið „ hver er sinnar gæfusmiður“ væri ekki kolrangt þegar litið væri til þess að áfengis og vímuefnaneysla unglinga væri ekki þeirra einkamál heldur málefni samfélagsins því það væri hlutverk hinna fullorðnu og ekki bara foreldra að vera ungmennum góðar fyrirmyndir í umgengni við áfengi. Þarna sendi ég sum sé ábyrgðina lóðbeint til föðurhúsanna. Gott hjá Hildi Eir, þá átján ára að aldri. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar, heilu höfin raunar.
Á dögunum las ég viðtal við danskan sálfræðing sem ég man nú hvorki nafn né deili á en viðtalið var í dönsku tímariti sem að varð á vegi mínum við kaffidrykkju inn í bókabúð. Þó man ég að maðurinn var rétt rúmlega fertugur og víst nokkuð þekktur í sínu fagi í gjörvallri Danmörku. Í viðtalinu hjó ég sérstaklega eftir því hvar sálfræðingur talar um að fáir frasar fari jafn mikið í taugarnar á honum eins og orðtakið „Hver er sinnar gæfusmiður.“ Og við þann lestur rifjaðist einmitt upp fyrrnefnd grein mín úr menntaskóla en síðan hún var rituð hefur samfélagið okkar þróast í þá átt að telja að hamingjan sé algjörlega í höndum okkar sjálfra, að lífsleikni snúist um viðhorf mannsins til aðstæðna, í erfiðleikum sé mikilvægt að temja sér jákvætt viðhorf og telja þakkarefnin í stað þess að dvelja við eymdina og svo framvegis. Allt er þetta gott og hárrétt upp að skynsamlegu marki. Danski sálfræðingurinn benti nefnilega að mínu mati réttilega á að í nútímasamfélagi megi enginn vera þolandi, það er að segja við þolum illa þolendur lífsins í allri þessari jákvæðu sálfræði. Ég segi þolendur en ekki fórnarlömb því þar erum við komin að öðrum kafla sem að snýst kannski frekar um það leiðinlega lífsval að vera fórnarlamb í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum. Að vera þolandi eða sá sem líður er hins vegar nokkuð sem fæst okkar komast hjá á lífsleiðinni, við verðum öll fyrir áföllum, missum ástvini, veikjumst, skiljum, verðum fyrir ofbeldi og óréttlæti ýmiskonar. Nútímasamfélag upphefur þá sem aldrei kvarta, það er einfaldlega þannig. Þeir sem aldrei kvarta eru æðrulausar hetjur, fyrirmyndir og aðdáunarvert fólk á allan máta. Hvenær hefurðu lesið minningargrein um þann sem látist hefur úr krabbameini þar sem skrifað er „ Jón Jónsson átti marga erfiða daga í sínum veikindum, daga kvíða og angistar, efa og eftirsjár og stundum öfundar í garð þeirra sem höfðu lifað mun óhollara lífi en hann en þó ekki veikst? „ Sennilega aldrei, en hvað heldurðu þá að margir sem greinast með banvæna sjúkdóma fari í gegnum þetta ferli?
Hvenær hefurðu heyrt fólk tala um að ekkjan hafi gengið máttlaus af sorg út úr kirkjunni á eftir kistu eiginmannsins og varla staðið í lappirnar? Sjaldan eða aldrei. Hefurðu ekki frekar heyrt fólk segja „ hún var svo sterk þar sem hún gekk hnarreist á eftir kistunni.“ Og það finnst okkur aðdáunarvert. Þá finnst okkur líka aðdáunarvert fólkið sem skilur að skiptum en nær samt að eyða jólunum saman með börnunum og nýjum mökunum og nýju makarnir urðu svo góðir vinir að þeir sáu um uppvaskið saman eftir hamborgarahrygginn á aðfangadagskvöld.
Þú mátt ekki misskilja mig kæri lesandi, ég er ekki að hæðast að æðruleysinu, þvert á móti hefur það sinn tíma, sinn stað og sína stund og þeir sem ná að lifa í slíkri náð verða okkur hinum innblástur, hvatning og von. Það sem hins vegar skiptir máli og er ekki síður mikilvægt fyrir almannaheill er að við skoðum í sameiningu betur hvað það er að vera manneskja í stað þess að miða líf okkar einatt við aðra einstaklinga. Hvað er að vera manneskja? Jú það er að draga andann, gleðjast, syrgja, veita nánd, sýna umhyggju, verða afbrýðissamur, stundum svolítið öfundsjúkur, bera sig saman við aðra, fá frumlegar hugmyndir, stæla hugmyndir, vinna sigra, verða ástfanginn, giftast, skilja, ljúka námi, brenna út í starfi, ná aftur undir sig fótunum, særa sína nánustu, bera uppi sína nánustu, eignast börn, gera mistök í uppeldinu, vera frábærar fyrirmyndir, vera fáránlegar fyrirmyndir, trúa á Guð, afneita Guði, trúa á sjálfan sig, missa trúna á sjálfan sig. Svona er til dæmis það að vera manneskja og raunar svo margt margt fleira. Og kannski skiptir á endanum miklu meira máli að við stöldrum svolítið við þetta, skoðum hvað það er að vera manneskja í stað þess að leggja ofuráherslu á að dást að þeim sem hafa höndlað lífið, líka vegna þess að þeir hafa ekki alltaf höndlað það, enginn fæðist æðrulaus né þroskaður. Jákvætt lífsviðhorf er dýrmætt, baráttuandi er ómetanlegur, æðruleysi er æðsta stig hins mannlega þroska en svo er það bara allt hitt sem fylgir því að vera manneskja og ef ekki má gefa því rými, tíma né tal, þá verður kannski hver sinn gæfusmiður en bara töluvert meira einmana, kvíðinn og þunglyndur gæfusmiður.