Lesa meiraSvar við bréfi heilags anda "/> Skip to content

Svar við bréfi heilags anda

Ég vaknaði eins og venjulega klukkan sjö að morgni, skreið fram úr, náði mér í kaffibolla og aftur undir sæng, mitt morgunritúal. Tók símann úr hleðslu, skoðaði fréttir morgunsins, kíkti á tölvupóstinn. Þar var allt nokkuð hefðbundið nema eitt bréf frá konu, vel og fallega orðað með spurningu sem hana hafði lengi langaði til að fá svar við. Hún spurði mig sem sagt í þessum góða og hnitmiðaða tölvupósti hvort ég gæti útskýrt fyrir henni í stuttu máli af hverju Jesús hafi dáið á krossinum fyrir okkur og verandi ekki þar einu sinni sjálfviljugur.

Ég tók vænan sopa af kaffinu og hugsaði, uhm er ég að fara að svara þessu? Ætti ég ekki bara að segja henni að við verðum að hittast og spjalla um þetta viðamikla mál. Eða láta eins og ég hafi ekki séð þetta og svara bara hinum  erindunum sem berast mér jafnan, beiðnir um athafnir og sálgæsluviðtöl.

Ég fór aftur fram, náði mér í annan kaffibolla, skreið undir sængina og þá allt í einu rann upp fyrir mér og það hafði ekkert með kaffið að gera, að þessi tölvupóstur kæmi frá heilögum anda. Og mér bæri að svara honum. Af því að heilagur andi starfar í gegnum manneskjur, meðal annars. Svo þessi prédikun er svar við bréfi konunnar, spurningu hennar „af hverju þurfti Jesús að deyja á krossinum?“

Og af því að ég segi að bréfið hafi í raun verið frá heilögum anda þá er það vegna þess að ég uppgötvaði þarna þar sem ég lá undir hlýrri sænginni á öðrum kaffibolla að í öllum þessum harmi, þessum óvæntu og ótímabæru dauðsföllum sem hafa átt sér stað undanfarnar vikur hér á landi þá hlaut andinn heilagi að blása þessari spurningu inn í vitund einhvers sem ber skylda til að svara henni, verandi prestur. Ekki að ég telji mig best til þess fallna en svona að minnsta kosti tók ég þessu erindi. Af einhverjum ástæðum barst mér þessi spurning enda blæs heilagur andi þar sem hann vill. Þess vegna ætla ég að reyna að svara henni eftir minni bestu getu. Ég mun bæði senda konunni þetta svar í persónulegum pósti og eins flytja það sem prédikun í sunnudagsmessu.

Þetta ár hefur verið þjóðinni erfitt þar sem að hver harmræni atburðurinn hefur rekið annan. Barnungt fólk hefur látið lífið af slysförum og einnig með vofveiflegum hætti þannig að við finnum öll mikið til. Það er nú fegurð þess að búa í litlu samfélagi eins hér á Íslandi þar sem nándin er mikil. Sírenuhljóð sjúkrabíla hafa áhrif á okkur, gera okkur áhyggjufull á meðan íbúar í New York eða London heyra þau ekki þar sem að líkurnar á því að þekkja til eru hverfandi. Við syrgjum saman í fámenninu, það er sannarlega styrkur í því og þakkarvert.

Á kristinfræðiprófi í fimmta bekk grunnskólans þar sem varpað hefði verið fram spurningunni „ af hverju dó Jesús á krossinum“  hefði ég án efa fengið rétt fyrir svarið „hann dó fyrir syndir okkar.“ Margir hafa auðvitað heyrt þetta svar, Jesús dó fyrir syndir okkar. Ég er ansi hrædd um að það svar myndi ekki gefa konunni sem sendi mér tölvupóstinn fullnægjandi mynd eða bæta einhverju við það sem hún þegar hefur heyrt. Í guðfræðilegum skilningi er þetta tvímælalaust rétt en sem raunveruleg tenging við þennan kjarnaatburð kristinnar trúar fyrir nútímamanneskjuna er það takmörkuð hjálp. Og það er nefnilega einmitt svo mikilvægt að við eignumst tengingu og skilning á krossdauða Jesú vegna þess að það er í þeim atburði sem einsemd okkar, erfiðasta hlutskipti mannsins, er rofin. Einsemdin sem er okkur svo sár og erfið en allar fullorðnar manneskjur þekkja í einhverri mynd hafandi bragðað af lífinu og sum börn því miður líka. Ef Jesús hefði ekki dáið á krossinum þá væri hann kannski fyrst og síðast stórkostlegur siðfræðingur og heimspekingur samanber fjallræðu hans og síðan innblásinn af anda Guðs þegar hann læknar sjúka og gefur blindum sýn. En af því að hann deyr á krossinum þá verður hann ekki bara einn af okkur, þessu mannkyni sem þjáist heldur sá aðili sem gengur inn í þjáningar okkar allra, já sama af hvaða meiði þær eru. Krossdauðinn eins öfugsnúið og það hljómar er haldreipi hins kristna manns í heimi harma og þjáninga. Þess vegna göngum við með kross í hálskeðju og tattúverum hann á upphandlegg, signum börn eftir bað og  setjum hann á leiði ástvina. Krossinn er svo máttugur.

Það er alveg rétt sem konan sagði í tölvupóstinum að þegar Kristur gengur með krossinn á bakinu upp Golgatahæð þá er það ekki eitthvað sem hann hefur sjálfur valið heldur er ætlað að gera. Og hann gengur þann veg án þess að reyna að koma sér undan þeirri þjáningu sem bíður hans, með fullri meðvitund. Hann tekst á við þá þjáninguna í skjóli Guð föður síns og móður. Hann hafði kviðið þessu, eðlilega, hann var sko ekki bara guð heldur líka maður, gleymum því ekki. Kvöldið áður hafði hann skolfið í kvíða og angist og beðið bæna í Getsemanegarðinum ef einhver möguleiki væri á að kaleikur þjáningarinnar væri frá honum tekinn. En hann vissi á sama tíma að vegferðin upp á krossinn sem lá fyrir næsta dag yrði ekki umflúin. Hann var kvíðinn en hann ætlaði ekki að flýja. Honum var ætlað að feta þennan veg, ekki bara sem einn maður heldur sem allir menn. Jesús Kristur gekk sem sagt með mannkynið á bakinu í krossinum upp á Golgatahæð til að frelsa okkur undan einsemd og vonleysi þjáningarinnar. Ekki til að taka þjáninguna úr lífinu, því það verður aldrei hægt, hún er bara partur af af því, sækir réttláta sem rangláta heim. Hún er heldur ekki dómur yfir okkur, ekki refsing, ekki eitthvað sem hendir fólk af því að það hafi brotið af sér, þjáningin er einfaldlega partur af því að vera manneskja. Þjáningin er meira að segja oft hin hliðin á því að elska og ekki vildum við fara á mis við það.

En með krossdauðanum rauf Kristur einsemdina og með upprisunni gaf hann okkur von þar sem vonin virðist víðsfjarri, að það sé yfirhöfuð hægt að rísa upp úr mesta myrkri og dauðans angistar og það fæ ég oft að vitna í mínu starfi. Eitt það hjálplegasta sem fólk upplifir í kjölfar áfalla og missis er að eignast trúnaðarsamfélag við annað fólk sem hefur upplifað sömu eða svipuð áföll. Það er ekki vegna að þá hittist fólk og gefi hvert öðru stórbrotin ráð heldur gengur það veginn saman upp á Golgata. Með öðrum orðum, einsemd þjáningarinnar er rofin með samfylgd Jesú í öðru fólki sem skilur af því að það á sömu reynslu. Fólki sem heldur undir krossinn saman, dreifir þunganum af honum. Þess vegna er kirkjan fyrst og síðast samfélag mannfólksins sem leitar í sameiningu huggunar og vonar í Jesú. Og þá komum við líka að því að kirkjan er samfélag alls fólks og öll þjáning er þjáning Krists. Líka þjáning þeirra sem  framið hafa voðaverk rétt eins og þeirra sem hafa orðið fyrir þeim. Vegna þess að Kristur veit að ekkert afl er jafn sterkt gagnvart ofbeldi og kærleikur. Það er ekkert jafn máttugt í lífinu og kærleikurinn. Og eftir því sem fólk er skemmdara og þar með hættulegra er ekkert sem er líklegra til skaðaminnkunar eins og að vera farvegur kærleika inn í lífi þess fólks eins og okkur er mögulegt með Guðs hjálp. Kærleikurinn er  hispurslaus og heiðarlegur, hugrakkur og ábyrgur, réttlátur, sanngjarn, hann samgleðst bara sannleikanum, varpar ljósi á lygina og vonar allt, alltaf.

Sem sagt kærleikurinn er edrú og æðrulaus. Hann talar sannleikann og kallar fólk til ábyrgðar og sjálfsskoðunar en hefnir sín aldrei. Hann er lífgjafi á öllum sviðum. Krossdauði Jesú er Kærleikurinn í öllu sínu veldi og upprisa Krists Vonin í öllu sínu veldi. Öllu mannfólki til bjargar. Og Kristur, hann mætir okkur í öðru fólki. Og heilagur andi, hann sendir víst tölvupósta.

 

 

 

Published inHugleiðingar