Lesa meiraEins og gulur túlípani upp úr fönn "/> Skip to content

Eins og gulur túlípani upp úr fönn

Fólki finnst oft vandræðalegt þegar talað er um heilagan anda. Að nefna Guð og Jesú er almennt nokkuð viðurkennt en þegar farið er að tala um að heilagur andi sé á staðnum eða heilagur andi muni leiða ákveðna vegferð eða að heilagur andi hafi verið að verki þegar eitthvað gott á sér stað, þá verða áheyrendur oft hissa og vandræðalegir. Svona eins og þeir bíði eftir að ræðumaður fari að tala tungum og detti í einhvers konar transdans. Það reynir auðvitað alltaf á sjálfsmynd okkar að samþykkja og hvíla í því sem er óáþreifanlegt samanber tilfinningar okkar. Mörg okkar myndu frekar tala opið um kynmök en tilfinningar því þau eru ekki endilega flókin né tengd tilfinningum í huga okkar. Konur virðast eiga auðveldara með að ræða tilfinningar og eru oft á tíðum í betri tengslum við sitt innra líf. Þetta þýðir ekki að þær séu betri en karlar enda fullfærar um að valda skaða en þó sýnir sagan og samtíminn okkar það að konur bera minni ábyrgð á ófriði í heiminum. Ég held að þessi staðreynd sé alls ekki óskastaða karlmannsins heldur þróun sem hann situr einhvern veginn uppi með. Góðu fréttirnar eru að mínu viti þær að ungir karlmenn í dag vilja upp til hópa breyta þessu. Þess vegna er ég svo bjartsýn á framtíðina því þrátt fyrir loftslagsvána sem yfir okkur vofir þá finn ég svo sterkt að ungir karlar sem eru í betri tengslum við tilfinningar sínar eru um leið meðvitaðir um ábyrgðina gagnvart náttúrunni og því að ástunda frið. Þeir gera oft stólpagrín að freka karlinum og líta alls ekki á hann sem ekki táknmynd karlmennskunnar, þannig hlusta ég ítrekað á unga menn í krinum mig leika grínsketsa þar sem þeir hæðast að týpunni sem hélt um aldir að konur og náttúra væru fyrst og fremst tæki til að ná fram markmiðum sínum með. Að konur og náttúra væru ekki markmið í eigin verund heldur eitthvað til að virkja, til að græða á og til að eiga.

Í guðspjalli dagsins kemur Jesús að ánni Jórdan til að taka skírn hjá frænda sínum Jóhannesi. Ég held að Jesús hefði ekki tekið skírn hjá frænda sem hefði brugðist við með eftirfarandi hætti „auðvitað skíri ég þig Jesús minn, það er einmitt það sem ég er bestur í og er þess vegna kallaður Jóhannes skírari, þú átt inni hjá mér greiða og ef einhver getur reddað þessu fyrir þig karlinn minn þá er það ég.“  Nei það að Jóhannes bregst við áskoruninni með heilbrigðri lotningu og sjálfsefa er farvegur heilags anda á þessari stundu. Jóhannes horfir á frænda sinn og fyrirmynd  með undrun í augum og segir „mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín?“ Og  þá svarar Jesús „lát það nú eftir, þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir og himnarnir opnuðust og heilagur andi kom yfir Jesú.

Það er svo merkilegt með heilagan anda að hann virðist koma svo oft þar sem einhverskonar mótsögn á sér stað í lífinu eða kannski ekki mótsögn heldur þar sem fólk á síst von á honum. Eins og til dæmis þar sem mikil sorg ríkir og maður gerir ekki ráð fyrir að neitt gott geti gerst. Fólk spyr mig oft sem prest „hvernig geturðu verið aftur og aftur í allri þessari sorg og hörmungum þar sem börn deyja frá foreldrum og foreldrar frá börnum?“ Og eina svarið sem ég hef er…heilagur andi. Í hinni dýpstu sorg skapast farvegur fyrir heilagan anda að stíga niður af himnum og koma yfir þá sem líða. Af hverju? Jú vegna þess að í sorginni verðum við móttækileg fyrir honum af því að við erum svo berskjölduð, við erum bara við sjálf og ekkert annað. Og þess vegna er ekki skaðlegt að vera aftur og aftur inn í þessum aðstæðum. Missirinn er vitaskuld ekki prestsins og sorgin ekki heldur þó samlíðan eigi sér ávallt stað og maður finni oft verulega til. En það er ekkert hættulegt að finna til. Í hinni dýpstu sorg er svo mikill sannleikur um lífið og þó ég vildi óska að enginn þyrfti að lifa nístandi sorg þá er hún víst órjúfanlegur hluti lífsins og það er sannarlega engin fórn að vera til staðar þar sem hún er. Eiginlega er það meira eins og gátt inn í Guðs ríki.

Heilagur andi kemur einhvern veginn þar sem upprisa verður að undangengnum þrautum. Og þess vegna grætur maður þegar andinn birtist því þá er einhver von og það er meira í voninni sem þú slakar á og grætur en ekki í þjáningunni sjálfri, þar ertu oft meira á sjálfstýringu.

Ég veit ekki hve mörg ykkar horfðu á Kryddsíldina í sjónvarpinu á gamlársdag þar sem forystumenn stjórnmálaflokkanna komu saman til að gera upp árið. Í sama þætti er jafnan tilkynnt um hver valinn hefur verið maður ársins. Í ár var það hinn ellefu ára gamli Yasan Tamimi frá Palestínu sem glímir við Duchenne hrörnunarsjúkdóm og þarf að notast við hjólastól. Þjóðin hefur fylgst náið með máli Yasan undanfarna mánuði þar sem til stóð að senda hann úr landi til Spánar þar sem hann hefur ekki stöðu flóttamanns og á þar af leiðandi ekki rétt á viðeigandi læknisþjónustu. Foreldrar hans brugðu því á það ráð að leita hjálpar hér. Til að gera langa og tilfinningaþrungna sögu stutta þá fengu Yasan og fjölskylda loks alþjóðlega vernd á Íslandi á liðnu hausti. Í Kryddsíldinni var rætt við Yasan sem lætur vel af sér í skólanum,  honum finnst skemmtilegast að læra íslensku og myndmennt og hann hlakkar til framtíðarinnar. Á næsta borði sátu þeir stjórnmálaleiðtogar sem höfðu fjallað um málið, búnir að hnýta töluvert hver í annan eins og þekkt er í þessum þætti og stundum þannig að maður veit ekki hvort um skemmtanagildi er að ræða því ekki er það gagn. Og svo færist myndavélin allt í einu að þessum brosmilda dreng í hjólastól sem hlakkar til framtíðarinnar og finnst gaman að læra íslensku en er búinn að lifa við nístandi óvissu í marga mánuði um hvar hann muni búa og fá heilbrigðisþjónustu. Hann er jú ellefu ára og er með hrörnunarsjúkdóm en kerfið var svo hrætt við fordæmisgildið að það gat ómögulega veitt honum strax vernd. Eins og það sé nokkurn tíma hægt að meðhöndla mannleg kjör með einu pennastriki eða ferkantaðri fordæmishyggju. En hvenær hefði hvarflað að manni að í miðri Kryddsíld myndi heilagur andi stíga niður af himni og vitja okkar í þessu ellefu ára gamla brosmilda, fallega andliti?

Svona er heilagur andi, hann blæs þar sem hann vill og oft þar sem þú gerir síst ráð fyrir honum, já þar sem hann gægist eins og gulur túlípani upp úr fönn löngu áður en vorið hefur látið á sér kræla. Þó kemur hann aldrei til að vera til skrauts heldur til að segja þér hvenær eitthvað er rétt og hvað er rétt og hvernig beri að fullnægja öllu réttlæti. Hann birtist aldrei án þess að það hafi djúpstæð áhrif á tilfinningalíf þitt og sál, þú getur alveg treyst því. Þannig veistu hvenær heilagur andi er í stundinni, á staðnum og með þér eða með þeim sem mætir þér. Og þetta er auðvitað ekki hægt að færa sönnur á og þess vegna finnst fólki oft vandræðalegt þegar návist heilags anda er ávörpuð, því líður jafnvel eins og það standi allt í einu nakið niðri á torgi. En já! Það er einmitt það sem heilagur andi gerir, hann afklæðir okkur vörnum óttans og þess vegna förum við oft að gráta í návist hans, það er nefnilega ómögulegt að gráta í óttanum en það er hægt að gráta bæði í sorginni og í sannleikanum.

Á nýju ári bið ég Guð að gefa okkur það sem Jóhannes skírari hafði, trú, næmi og hógværð til að gefa heilögum anda sitt pláss svo fleiri börn með blik í auga fái hér hæli og skjól og megi hlakka til framtíðarinnar því framtíðin á að vera möguleiki okkar allra.

 

 

 

Published inHugleiðingar