Lesa meiraPendúllinn "/> Skip to content

Pendúllinn

Mér fannst það dálítið gott sem bandaríski presturinn og prédikarinn tattúveraði Nadia Bolz Weber sagði á dögunum í viðtali þegar hún var að útskýra muninn á því að vera almennt andlegur eða að fylgja og trúa á Jesú. Hún sagði að á andlega hlaðborðinu sem er mjög vinsælt í dag er svo auðvelt að velja bara eitthvað gómsætt en þegar kemur að þvi að velja samfylgdina við Jesú þá þurfum við  aftur og aftur að horfast í augu við okkur sjálf sem er ekki alltaf gómsætt né skemmtilegt en samt svo ótrúlega mikilvægt. Nadía segir til dæmis að eins og hún þekki sjálfa sig þá væru töluverðar líkur á því að ef hún kæmist í svona andlegt hlaðborð þá myndi hún ekki endilega velja fyrirgefningu eða kærleika gagnvart óvininum svo dæmi séu tekin, nokkuð sem Jesús Kristur leggur áherslu á. Og ég segi fyrir mig að eins skapmikil og ég get verið þá myndi ég miklu oftar nota stór orð við annað fólk og jafnvel hrauna yfir það ef Jesús héldi ekki aftur af mér. Mér finnst fólk stundum ótrúlega  þreytandi og vitlaust en fyrir tilstuðlan Jesú í lífi mínu þá minnir hann mig aftur og aftur á bjálkann í mínu eigin auga. Og er ég alltaf að nenna Jesú? Nei! Og hvað gerist þegar ég nenni honum ekki? Þá geri ég oftar en ekki mistök.

Ég er alveg eins og Nadía Bolz Weber þó ég sé reyndar ekki með alveg jafn mörg tattú, ég myndi allan daginn velja sætu bitana af hlaðborði hins andlega lífs og láta grænmeti, baunaspírur og ávexti vera. Ég myndi velja sjálfsumhyggju og mildi, nokkuð sem líka er mjög dýrmætt að rækta en skauta framhjá því sem getur opinberað mér eigin breyskleika. Það sem opinberar mér  hégóma minn, sjálfumgleði, dómhörku, hroka og öfund. Það er auðvitað áreynsla að takast á við brestina sína, að verða edrú. Fyrir óvirkan alka eins og mig er samfylgdin við Jesú svolítið eins og ein löng edrúmennska. Hún er ekki einföld og kostar ýmislegt en hún er auðvitað endurfæðing. Það er endurfæðing að verða edrú, það er frelsun. Þó ekki frelsun undan ófullkomleika því það að vera ófullkominn heitir að vera manneskja, heldur frelsun frá lyginni sem þú trúir um sjálfan þig. Þú frelsast undan þeirri blekkingu að það sé í lagi að gera aðra ábyrga fyrir brestunum þínum og blekkingunni að það geti gengið upp að afhenda öðrum ábygðina á lífi þínu. Þú frelsast undan því að vera jólatréð í stofunni sem allir dansa í kringum, jafnvel þó þér finnist það geggjað hlutverk þegar þú ert ekki edrú, þá er auðvitað ekkert betra en að vera heilsárs jólatré í fullum skrúða sem fólkið þitt dansar í kringum. Þegar þú verður edrú sérðu að það er hræðilegt að láta fólk dansa í kringum jólatré allan ársins hring, ömurleg hugmynd og alveg ótrúlega dramatísk. En þú frelsast líka undan hugmyndinni um að þú þurfir að meika það og að þú sért ómissandi heiminum, því þú ert ekki ómissandi heiminum, þú ert ómissandi Guði, heimurinn elskar þig ekki eins og þú ert en Guð gerir það. Í því frelsi fer lífið að verða mýkra og friðsælla og allir dagar reynast þakkarverðir. Þú uppgötvar að það er í lagi að skara ekki framúr, hamingja þín stendur ekki né fellur með því. Þú mátt slaka á, mátt vera áttatíu prósent í staðinn fyrir hundrað því þú ert partur af ógnarlangri keðju sem hvorkir byrjar né endar á þér þótt þinn hlekkur skipti miklu máli.

Við sem þjónum í kirkjunni skynjum aukin áhuga ungs fólks á kristinni trú. Ekki bara áhuga ungra karla eins og komið hefur fram í fjölmiðlum heldur líka kvenna og kvára. Ég hef ekki endilega svarið við þvi hvað veldur en heimurinn hefur alltaf háð sín stríð og ungt fólk þurft að glíma við þá áskorun að kynnast sjálfu sér og elska sig og virða í öllum skarkalanum. Einhver nefndi að kannski væri þetta ekki flóknara en sjálf pendúláhrifin, þegar pendúllinn er færður úr jafnvægisstað verður til kraftur sem á endanum færir hann aftur á jafnvægisstað. Kirkjan er eitt af þessum fyrirbærum lífsins sem að hefur alltaf jafn ríku hlutverki að gegna hvernig sem pendúllinn hreyfist. Hún er hérna og þarna með lífgefandi boðskap Jesú Krists, ekki til að græða á fólki heldur til að þjóna og gefa. Hún er ekki svona andlegt hlaðborð eins lýst var hér á undan, hún er ekki með boðskap sem að hjálpar þér að vera besta útgáfan af sjálfum þér heldur boðskap sem vísar þér veginn hvern einasta dag og hverja einustu stund þannig að farsæld skapist allstaðar í kringum þig sem og innra með þér. Ekkert okkar hefur jú verið hér áður, lifað þessu lífi sem við erum að lifa núna, auðvitað þurfum við leiðsögn, ekki bara meðan við erum börn heldur alla leið inn í eilífðina. Við erum ekki Íslendingar í tíunda skipti á Tenerife sem vita hvar allt er og hvernig allt virkar.  Nei ekkert okkar er fullnuma í ferðalaginu um lífið, við þurfum öll að hlusta og læra og oft að skipta um skoðun og að því leyti erum við alltaf börn á þessari vegferð.

Ég held að það sem er að gerast núna þegar ungt fólk sýnir kristinni trú meiri áhuga sem við skynjum um land allt, er að undanfarin ár og jafnvel áratugi hefur ríkt ákveðin frasatrú sem er  því miður frekar laus í sér. Eins og til dæmis þetta með að vera besta útgáfan af sjálfum sér og fleira sem ég persónulega veit ekkert hvað þýðir. Það er bara til ein útgáfa af mér og hún er meingölluð og eins gott að ég viti það svo ég valdi ekki meiri skaða en raun ber vitni. En ég er lánsöm eins og þú að það er til Guð og það er til fólk sem elskar mig og elskar þig þrátt fyrir allt. Á andlega hlaðborðinu er auðvitað talað um kærleika en það vantar hins vegar oft að tala um hvað kærleikur er. Því kærleikur er ekki kokteilberið á toppi tertunnar heldur ástæða þess að við erum hér og lifum af allar mögulegar hörmungar sem að okkur steðja. Við erum hérna þrátt fyrir allt og það er kærleikanum að þakka sem er svo mikil dauðans alvara að það er ekki einu sinni fyndið. Kærleikurinn er að vera svo hugrakkur að maður segir til dæmis öðru fólki sannleikann, svo hugrakkur að maður deilir landinu sínu með fólki sem kemur hingað og er framandi í menningu og trú, svo hugrakkur að maður reiðist óréttlætinu jafnvel þótt það komi sér illa fyrir einhvern sem er í æðri stöðu og maður þekkir og veit að er kannski doldið hagstætt að þekkja. Svo hugrakkur að maður verður af vegtyllum með því að standa með þeim sem þurfa á styrk manns að halda. Kærleikurinn er oft algjört vesen því eins og Jesús bendir réttilega á þá þarftu ekkert að vera mjög hugrakkur til að elska börnin þín eða maka  en að elska þann sem þú þekkir ekki en er samt bróðir þinn eða systir og er í einhvers konar hættu, það er vesen, það er óþægilegt, það krefst hugrekkis, það er kærleikur upprisunnar.

Ég held að ungt fólk í dag sé að koma til kirkju meðal annars vegna þess að það er til í meiri merkingu. Ég held einfaldlega að ungt fólk sé búið að nóg af hlutleysistómi, afskiptaleysi og einstaklingshyggju. Pendúllinn er að leita að jafnvægispunkti akkúrat núna, hann er búinn að vera á fleygiferð í langan tíma og sá kraftur sem hratt honum eitt sinn af stað er orðinn að þeim krafti sem leitar heim, heim til hjartans, ég held það.

 

 

Published inHugleiðingar