Samstarfsfólk úr viðskiptalífinu er gripið glóðvolgt í framhjáhaldi á tónleikum bresku sveitarinnar Coldplay í Boston á dögunum. Vinkona mín var stödd á tónleikunum og sagði að það hefði sannarlega verið óþægilegt augnablik þegar svokallaðri kossakameru var beint að fólkinu og það fátaði í skömm sinni, karlinn lét sig detta í gólfið og konan sneri snögglega baki í vélina. Einhverjir ná myndskeiði af atvikinu og setja á internetið og næstu daga situr miðaldra kona eins og ég upp á Íslandi og fréttaveita hennar á samfélagsmiðlum logar af frásögnum af þessu áður óþekkta fólki sem hélt framhjá mökum sínum á tónleikum með bresku sveitinni Coldplay. Allt í einu veit ég miklu meira um þetta fólk en ég hafði óskað eftir. Ekki nóg með það þá veit ég líka hvað þau eiga af börnum og hvernig makar þeirra líta út sem og samstarfsfólk og þegar þessi pistil er skrifaður nú rétt fyrir helgi er enn verið að færa fréttir af fólkinu sem að hélt framhjá út í Boston á tónleikum með Coldplay.
Hefði þetta mál komið inn á mitt borð sem prests eins og mörg svona mál gera hefði ég átt samtal við fólkið og maka og þetta hefði orðið töluvert mikil og flókin sálgæsla, þau sem haldið var framhjá hefði að vonum upplifað mikinn sársauka, niðurlægingu og sorg og þau sem héldu framhjá mögulega verið haldin sektarkennd og skömm og ótta og allar þessar tilfinningar hefðu verið eðlilegar miðað við eðli máls. Ef til hefði annað parið eða bæði fundið grundvöll með sínum mökum til að leita ráðgjafar og græða sárin og vinna upp traust að nýju og jafnvel getað bjargað sínum hjónaböndum nú eða alls ekki. Þetta er svona þekkt vegferð þegar um framhjáhald er að ræða. Framhjáhald eru mikil svik og sársaukafull en að sama skapi alveg gríðarlega algeng og ótrúlegt en satt eiga sér stað hjá bæði vönduðu fólki sem siðblindu, frægu sem óþekktu, ungu sem gömlu, menntuðu sem ómenntuðu, grönnu sem þéttu, lágu sem háu, trúuðu sem vantrúuðu, drykkfelldu sem edrú. Nú er ég ekki mikill stærðfræðingur en tölfræðilega séð er ljóst að nokkur hluti þeirra þúsunda sem ýmist hæddist að fólkinu eða froðufelldi af hneykslun yfir atvikinu hefur sjálft gerst sekt um trúnaðarbrot gagnvart maka. Ef ekki með beinu framhjáhaldi þá með óhóflegri áfengis og vímefnaneyslu eða jafnvel fjármálaóreiðu. Þetta eru svona sirka algengustu neikvæðu viðfangsefni fólks í ástarsamböndum og við reynum að ávarpa þetta og hjálpa fólki að vinna eins vel og hægt er úr afleiðingum þess. Að þetta sé frétt sem komi heimsbyggðinni við? Svarið er NEI!
Mín kenning er sú að þarna hafi átt sér stað ein allsherjar tilfærsla heimsbyggðarinnar á skömm og sektarkennd sem við innst inni vitum að tengist alvöru hörmungum sem eru að eiga sér stað á Gaza og við horfum upp á en viljum samt helst ekki vita hver ábyrgð okkar er. Þarna gafst allt í einu gullið tækifæri til að standa saman í hnausþykkri andúð gegn hörmungum mannkyns, framhjáhaldi forstjóra og mannauðsstjóra einhvers tæknifyrirtækis í Boston sem enginn hafði heyrt talað um og fá um leið smá frí frá Gaza. Hvílíkur hryllingur og hneisa, að bjóða samferðarfólki upp á slíkt siðferðisbrot í beinni útsendingu. Á sama tíma og síminn minn fylltist af myndskeiðum af framhjáhaldsfólkinu í Boston átti ég samtal við Amany vinkonu mína á Gaza sem var að sýna mér salerni sem hún kom upp með hjálp fólks sem styður við Vonarbrú hjálparsamtök hér á landi fyrir bræður okkar og systur í helvítinu á Gaza. Amany hafði viðrað það við mig að hana dreymdi um að koma sér upp salerni í tjaldbúðunum en til þess þurfti hún nælondúk, nokkra viðarbúta og plastklósett. Þetta kæmi í veg fyrir að hún og börnin þyrftu að hlaupa yfir í moskuna til að nota klósettið því þá væru svo töluverðar líkur á að þau yrðu bara drepin. Sautján ára systursonur hennar var einmitt skotinn þar sem hann var að kaupa hveiti deginum áður, það er ekki þorandi að verða sér út um nauðsynjar þarna eða fara á klósett. Þetta er bara svona, eitt allsherjar helvíti á jörðu. Mörg þúsund börn hafa verið drepin eða særð á Gaza, lífið er dauði þarna eins og vinkona mín segir oft, það sem heldur henni gangandi er trúin á Guð og börnin hennar.
Ef það er eitthvað sem fer í taugarnar á Jesú í guðspjöllunum þá er það tvöfalt siðgæði, sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini sagði hann við mennina sem ætluðu að grýta hórseku konuna, hann kallaði hana engu að síður til ábyrgðar á lífi sínu og aðstæðum “ég sakfelli þig ekki en far þú og syndga ekki framar.”
Jesús tók hins vegar að ryðja til borðum í bræði þegar fólkið hafði í sameiningu vanhelgað musterið“ Musteri mitt á að vera bænastaður fyrir allar þjóðir, en þið hafið breytt því í ræningjabæli.” Þarna varð Jesús fjúkandi reiður vegna þess að samfélagið hafði staðið saman um að ráðast að hinu heilaga eða horfa í hina áttina og þegja . Þarna stendur musterið ekki fyrir steypt hús heldur líkama Krists, það er, elskaðar, heilagar manneskjur. Hringir þetta einhverjum bjöllum hjá okkur? Yfir hverju eigum við að vera fjúkandi reið?
Ef ástandið á Gaza hefði fengið eins kröftuga umfjöllun á heimsvísu og þann ímugust sem fjöldinn hafði á framhjáhaldi forstjórans og mannauðsstjórans á Coldplaytónleikunum á dögunum þá hefðu það verið mögnuð skilaboð, mögnuð samstaða um að fordæma barnamorð og þjóðernishreinsanir sem raunar eru jafn mikið í beinni útsendingu og kossakameran á téðum tónleikum. Það hefði verið mannsbragur að því, líka af því að Gaza kemur okkur öllum við, það er ekki persónulegur harmleikur tveggja fjölskyldna í Boston heldur harmleikur alls heimsins, eitt það versta sem hefur átt sér stað í veröldinni frá lokum seinni heimsstyrjaldar.
Megi algóður Guð gefa okkur visku og mátt til að standa saman um það sem kemur okkur öllum við. Amen