Ég átti eitt sinn samtal við bráðskarpa og skelegga konu sem á langt hjónaband að baki og stóran afkomendahóp. Við stóðum frammi fyrir sameiginlegu verkefni en í því verkefni kom fjölskyldulíf okkar beggja til tals „ Æ Hildur ég nenni ekki að vera að tala við fjölmiðla um mitt hjónaband, hvað ætti ég svo sem að segja? Við hjónin höfum bara böðlast þetta áfram eins og öll önnur hjón.“ Orðalagið var mjög í takti við persónuna sem er ákveðin og hreinskilin en líka æðrulaus enda hefur hún hefur reynt það með ótímabærum ástvinamissi að lífið er ekki sjálfsagt. Þegar hún hins vegar orðaði þetta svona með hvatskeytslegum hætti þá sprakk ég úr hlátri þó við hefðum auðvitað verið að ræða grafalvarlegt mál. Síðan þá hefur þessi setning setið eftir í huga mér „ að böðlast áfram.“ Og einhvern veginn þykir mér alltaf meira og meira vænt um hana, hefði hún verið sögð við mig á brúðkaupsdaginn þegar ég var raunar nýskriðin yfir fermingu, hefði ég sjálfsagt firrst við en eftir því sem árin líða og nú sextánda árið í sambúð þá sé ég hvað það er mikill sannleikur í þessu en líka fegurð. Það er eitthvað fallegt við það að böðlast stundum áfram af því að það þýðir annars vegar að maður er manneskja sem er svo þakkarvert og hins vegar að manni hefur tekist að sjá tilgang í mynstrinu. Þessu mynstri sem er svo margslungið.
Hjónaband heklar líf okkar
í mynstur handan við
einstaklingseðli okkar,
við förum saman
inn í nýja heima lita
og forms, ég sé það
sem ég hef aldrei séð
í staðfastri návist þinni
Þetta ljóð er eftir Aram Saroyan þýtt af Gyrði Elíassyni. Mér finnst það ótrúlega gott. „Hjónabandið heklar líf okkar í mynstur,“ ég sé fyrir mér löber á tekkborði með flóknu mynstri sem handverkshrottanum Hildi myndi aldrei takast að hekla eða sauma nema þá kannski og vonandi í hjónabandinu. Hjónabandið er nefnilega ofið úr ýmiskonar þráðum, einn getur verið þessi að böðlast svolítið áfram og bara vera hjón, annar getur verið sá að vera rosalega meðvituð og rækta markvisst hjónabandið með fráteknum stundum, reglubundnu kynlífi og rómantík, enn einn þráðurinn getur verið erfiðleikarnir sem að maður hafði ekki gert ráð fyrir en tekst samt á við og yfirstígur eða lærir að lifa með, svo getur verið einhver rauður þráður þarna í öllu þessu mynstri sem er bara vináttan sem einhvern veginn helst jafnvel þegar vondu dagarnir banka upp á og maður böðlast einhvern veginn áfram eins og gamall Land Rover í snjóskafli. Og allt verður þetta að þessum löber sem ég er búin að sjá fyrir mér á tekkborðinu af því að mér finnst hann hljóti að passa betur á það en glerborð. Glerborð býður upp á hönnunarblöð í útpældri óreiðu en þannig er ekki hjónabandið.
Ég held að helsta ógn hjónabandsins séu væntingarnar um að það eigi að gera okkur hamingjusöm, hjónband sem slíkt gerir auðvitað engan hamingjusaman, hjónbandið er í eðli sínu vesen, flækir frekar lífið. Það er auðvitað miklu einfaldara að vera einn heldur en tveir. Það eru aðeins hjónin sjálf sem hafa möguleika á að skapa hamingju úr hjónabandinu, það eru hjónin sjálf sem búa eitthvað dýrmætt til úr sinni samfylgd, eitthvað sem er merkingarbært, þroskandi og gott, það er ekki hjónbandið sem býr eitthvað til úr hjónunum, það er reyndar algengur misskilningur og það er einmitt sá misskilningur sem verður þess valdandi að fólk verður aftur og aftur fyrir vonbrigðum,“ hvernig er þetta eiginlega átti ekki að vera Mojito hérna á kantinum og brjálað stuð“?
Fólk getur verið hrikalega hamingjusamt þó það böðlist stundum áfram í hjónabandinu ekki síst ef hinir þræðirnir eru sýnilegir. Að böðlast áfram þýðir ekki að maður sé í hlutlausum gír það þýðir að maður nennir að setja undir sig hausinn og berjast, um leið og maður er búinn að raða sér saman eftir eina törn, þá tekur önnur við og svona gengur þetta og það er ekki endilega leiðinlegt, það er bara fyrirhöfn.
Ef þetta að böðlast er önnur hliðin á hjónbandinu þá er meðvitundin hin hliðin þ.e. er að hjónbandið sé gjörningur.Maður þarf auðvitað að vera skapandi til þess að búa til skemmtilegt og gefandi hjónband, maður þarf að fara í markvissa sjálfsskoðun eins og aðrir listamenn og spyrja sig „ hver er ég í þessum gjörningi, fyrir hvað stend ég sem persóna og hvað er ég meina með því sem ég er að gera?“ Þetta eru mjög mikilvægar spurningar svo maður sé ekki stanslaust að mála yfir verkið og byrja upp á nýtt eða rekja upp dúkinn eða hvað sem hægt er að búa til myndlíkingu úr, þessi pistill fer að breytast í heilt gallerý af myndum. Það sem ég á við er að listamaður sem veit ekki hvaða skilaboð hann langar til að koma til umheimsins er ekki líklegur til að snerta við fólki með verkum sínum. Það má s.s. segja að hjónabandið sé tvíhöfða þurs, annars vegar er það háð fullri meðvitund og hins vegar seiglunni sem er fólgin í því að böðlast áfram.
Við lifum í tíðaranda sem leikur sér að því að setja óraunhæf viðmið á flestum sviðum mannlífsins, hvort sem það snýr að útliti, frama, ástarsamböndum eða veraldlegum eigum. Við erum svo merkilega vond við okkur sjálf, allt undir frábæru er óviðunandi að okkar mati og samkvæmt forskrift tíðarandans. Þess vegna er svo ferlegt að heltast úr lestinni í dag sökum sjúkdóma eða annrra áfalla því þrátt fyrir alla okkar þekkingu og tækni þá nennir tíðarandinn ekki að bíða. Markmið hvers dags er að gera meira í stað þess að gera bara eins vel og hægt er. Þau sem sem hafa orðið fyrir áföllum og ólýsanlegum harmi vita hins vegar betur, þess vegna er svo mikilvægt að hlusta á þau sem hafa reynt það á eigin skinni að lífið er andartak og að stundum verðum maður bara að fá að böðlast svolítið áfram. ( Pistill fluttur í Paramessu)