Lesa meiraGeðheilbrigði þjóðar "/> Skip to content

Geðheilbrigði þjóðar

Þegar ég fæddi frumburðinn minn fyrir 12 árum síðan var það mér gríðarlegt kappsmál að þiggja engin verkjalyf í fæðingunni og tilkynnti það meira segja mjög hátíðlega um leið ég steig inn fyrir  þröskuldinn á Landspítalanum, samt vissi ég nákvæmlega ekkert út í hvað ég var að fara. Það sem ég hef verið drjúg á svipinn alveg þangað til að fæðingarlæknirinn þræddi einskonar heklunál upp fæðingarveginn til að sprengja belginn og hríðarnar skullu á taugakerfinu eins og norðlenskur vetur á þorra með svo þykku myrkri að það veldur stundum yfirþyrmandi innilokunarkennd. Drengurinn fæddist með fjörutíu sentimetra í höfuðmál og ég man að það heyrðist bældur taugaveiklunarhlátur frá ljósmóðurinni um leið og hún mundaði málbandið. Þegar ég horfi á fallega unglinginn minn í dag fæ ég næstum kjánahroll yfir þeim metnaði mínum að hafa fætt hann án deyfingar eða verkjalyfja eins og það væri meginmálið en ekki sú staðreynd að ég eignaðist yndislegan og mannvænlegan einstakling. Hann hefði verið nákvæmlega sá sami þó móðir hans hefði verið staðdeyfð, svo mikið er víst.

Það má líka segja að ljóminn yfir afrekum mínum hafi heldur dofnað í eigin huga þegar yfir mig helltist svo mikið fæðingarþunglyndi að ég fór með sálrænum verkjum upp á sjúkrahús þremur mánuðum eftir fæðingu til að leita mér hjálpar, þá var eiginlega aftur kominn fæðingarsvipur á mig þó svo að þær hríðar sem nú dundu á hafi verið allt annars eðlis. Niðurstaða mín var hins vegar sú að það að fæða barn væri ekkert á við þá þjáningu að þekkja ekki lengur sjálfan sig. Svo ég þáði lyf og þau fóru að virka með tíð og tíma. En ég var full af skömm af því að í okkar samfélagi er undirliggjandi krafa um það að vera sterkur og sjálfstæður já eins og Bjartur vinur okkar í Sumarhúsum, enda tók hann engin lyf, hefði kannski betur gert það og hætt að stjórna umhverfinu með vanlíðan sinni. Þann 10.september nk er alþjóðlegur forvarnardagur gegn sjálfsvígum. Við þurfum að skoða hvað við getum gert til að koma í veg fyrir að fólk taki sitt eigið líf. Fyrsta mál á dagskrá er að skoða mynstrið í samfélaginu, samfélagsstrúktúrinn , hvað er það sem gerir það að verkum að fólk leitar sér ekki hjálpar? Ég held að skammartilfinningin sé svo rótgróin í sálarlífi þjóðarinnar, þessi lamandi tilfinning um að við séum ekki að standa okkur, að veikleiki sé bara veikleiki en ekki eitthvað sem hægt er að vinna með og snúa upp í styrkleika. Ég held m.a.s. að þessi skammartilfinning stýri pólitíkinni, lekamálið er dæmi um það, ESB umræðan er það líka, bankahrunið er afleiðing skammar, umræðan um trú og kirkju er full af skömm. Umræðan um geðlyf er  það sömu leiðis, annars vegar er lífsseig sú skoðun að þau geri ekkert gagn og hins vegar að þau fletji út tilfinningalíf fólks og ræni það neistanum. Á sama tíma er fjöldi fólks að meðhöndla sálræna kvilla með áfengi af því að umræðan um áfengi er sennilega talsvert jákvæðari en umræðan um geðlyf. Staðreyndin er hins vegar sú að áfengi þurrkar upp þau boðefni sem við þurfum á að halda til að líða vel eins og serótónín, boðefnið sem stýrir skapi okkar, sjálfstrausti, matarlyst, svefni ofl mikilvægum þáttum mannlegrar velferðar. Það er ekki tilviljun hversu margir eru undir áhrifum áfengis þegar þeir taka líf sitt eða gera tilraun til þess.

Það eru margar leiðir til að viðhalda geðheilbrigði eins og það að lifa reglusömu lífi, draga úr streitu, hreyfa sig og borða hollt en þegar fólk er raunverulega orðið veikt þá þarf að bregðast við með einhvers konar meðferð af hendi fagaðila annað hvort með lyfjum eða sálfræðiþjónustu eða hvoru tveggja í senn. Það er bara eins og þegar fólk fær hjartaáfall eða krabbamein það er mjög mikilvægt að reyna að sporna við slíkum sjúkdómum með reglusömu og heilbrigðu líferni en þegar fólk er orðið veikt þá þarf eitthvað að gera til að snúa þróuninni við. Og svo þurfum við að snúa á skömmina og segja henni að skammast sín.

Published inPistlar