Lesa meiraUmhyggja "/> Skip to content

Umhyggja

Eitt það besta við að hafa verið í samtals fjórum grunnskólum um ævina er að ég get hæglega talað nafnlaust um kennara og nemendur án þess að hægt sé að rekja frásagnir til föðurhúsanna, þeir sem voru á staðnum geta hugsanlega lagt saman tvo og tvo en það gætu þeir hvort eð er gert án minnar hjálpar. Nú var ég ekki það sem kallað er fyrirmyndarnemandi heldur meira svona fyrirferðarmikill nemandi. Ég var ekki afburðarnámsmaður en átti samt svona góða spretti hér og hvar, m.a. við ritgerðarsmíðar. Mér tókst t.d. að vera rekin úr vélritun og heimilisfræði en af sitthvorri ástæðunni, vélritun var mér gert að yfirgefa sökum skorts á samhæfingu handa en úr heimilisfræði vegna þess að ég missti óvart heilan saltstauk ofan í pott af mjólkurgraut sem var einmitt grauturinn sem kennarinn fékk að smakka við borðhaldið í lok tímans, ótrúleg óheppni.

Ég var líka næstum því rekin úr heimavistarskóla fyrir að fara í sturtu, raunar með ófyrirséðum afleiðingum, niðurfallið var nefnilega stíflað en þennan dag en ég var bara svo hátt uppi í lífsgleði og almennri ánægju að ég veitti því ekki athygli heldur stóð góðan hálftíma undir sturtinni og söng vinsæl lög með Four none blondes og fleiri meisturum poppheimsins. Nema hvað allt í einu er bankað óþyrmilega á baðherbergisdyrnar og að utan berst rödd skólastjórans sem ávarpaði mig reyndar oftast með nokkrum þunga enda stundum tilefni til. „Hildur Eir, þú ert að eyðileggja teppið á ganginum viltu gjöra svo vel að skrúfa fyrir vatnið. „ Vá hvað ég var pirruð, hvernig í ósköpunum ætti ég að hafa eyðilagt margra metra gang með tíu svefnherbergjum af því einu að skreppa í sturtu að morgni dags. Ég skrúfaði fyrir vatnið henti handklæðinu utan um mig og reif upp hurðina eins og ég hefði öll tromp á hendi og þyrft þess vegna ekki einu sinni að klæða mig. Fyrir utan dyrnar stóð fyrrnefndur skólastjóri með svip sem lýsti svo miklu vonleysu og þreytu að mig verkjaði næstum því meira í hjartað að horfa framan í hann en niður á Birkenstock inniskóna hans sem voru eins og tveir blautir hrossagaukar í mýri , teppamýri, sem mér hafði s.s. tekist að ræsa fram úr sturtinni. Ekkert af vatninu sem laugaði líkama minn síðasta hálftímann hafði skolast út í sjó, það var allt í teppinu á stúlknagangi heimavistarskólans, ég tek hatt minn ofan fyrir gamla skólastjóranum að reka mig ekki endanlega úr skólanum, héraðinu og jafnvel úr landi ef út í það er farið.

Einu sinni fékk ég líka tvo á efnafræðiprófi í níunda bekk, mér láðist að undirbúa mig sem skildi og eina sem ég gat svarað var að sykur væri ekki gott efnasamband fyrir æðakerfið, ég skrifaði reyndar nafnið mitt rétt, maður fékk alltaf prik fyrir það í þá daga.

En svo fékk ég líka einu sinni 10 fyrir ritgerð í Náttúrufræði, þá skrifaði ég um skógarþröstinn og tengdi við ljóð Jónasar Hallgrímssonar og mér leið eins og ég hefði fengið Óskarinn þegar ég fékk einkunina í hendur. Alveg þangað til bekkjarbræður mínir sögðu mér að róa mig, það skipti engu máli hverju væri skilað til þessa kennara, einhvern tímann hefði einhver skilað honum ritgerð með góðum inngangi og fínni forsíðu en inn í sjálfri ritgerðinni hefði viðkomandi sett bland af dönsku og enskustílum í því trausti að kennarinn myndi ekki staldra við fleira en inngang og heimildaskrá. Sá nemandi fékk víst líka 10.

Það verður að viðurkennast að þessar upplýsingar vörpuðu nokkrum skugga á árangur minn á ritvellinum. Það fyndna er samt að eftir að ég varð fullorðin og fór að skrifa meira og tala hér og þar þá hefur þessi reynsla oft rifjast upp fyrir mér. Stundum hef ég hugsað „hvað ef ég byrja bara vel og segi svo bara eitthvað og enda svo ágætlega“? Ætli fólk myndi taka eftir því? Er fólk að hlusta á hvert einasta orð sem ég segi? Stundum heyrist kliður úr sal þó maður sé að tala sem er auðvitað eðlilegt þar sem margir koma saman en í eðlislægri leti minni þá hefur þetta stundum gripið mig, hvað ef ég set bara einhverja dönskustíla inn í ræðuna og enda svo bara á því að segja eitthvað hnyttið sem allir grípa? En þá man ég hvað orð eru dýrmæt, máttug, lífgefandi, viðkvæm og vandmeðfarin og hvað það eru mikil forréttindi að fá að ávarpa fólk í allskonar kringumstæðum. Á viðkvæmum stundum geta hugsuð orð sem koma jafnframt frá hjartanu virkað sem hlýtt teppi á köldu vetrarkvöldi, þau breyta kannski ekki því sem orðið er en þau geta leitt mann áfram til móts við bjartari tíma. Eins er með gleðileg tímamót, þar verða falleg orð oft til að auka á gleðina og gera stundina innihaldsríkari en ella, þess vegna er fáranlegt að nýta ekki hvert tækifæri til að hlúa að náunganum með orðum sem eiga sér uppsprettu í sálarlífi okkar, viljanum til að standa saman og minna okkur á að við erum samferðarmenn sem stefnum á endanum í sömu átt.

Ég vona að þessi síða verði samferðarfólki mínu til uppbyggingar, kannski verður hún ekki öllum til gleði en ef hún verður til gagns þá er það kannski enn betra.

Published inPistlar