Lesa meiraTrúarjátning í nútímanum "/> Skip to content

Trúarjátning í nútímanum

Ég trúi á Guð af því að ég hef séð norðurljós, regnboga, rauðan himinn og fullt tungl en líka af því að ég sé sólina rísa á hverjum degi. Ég trúi á Guð af því að ég hef fundið fóstur stækka og séð börn fæðast. Ég trúi á Guð af því að ég hef séð fólk visna og deyja en fundið það lifa í sál minni. Ég trúi á Guð af því að mér hefur verið fyrirgefið og ég sjálf fundið mátt til að fyrirgefa öðrum. Ég trúi á Guð af því að réttlætið finnur sér alltaf farveg í veröldinni.

Ég trúi á Jesú Krist sem gerði konur að lærisveinum sínum og var fyrstur til að draga verk þeirra fram í dagsljósið. Ég trúi á Jesú Krist sem afhjúpaði heimsku fordómanna og illsku aðgreiningar og hafnaði valdinu sem sundrar og selur sál sína. Ég trúi á Jesú Krist því orð hans er óháð tíma og rúmi. Ég trúi á Jesú Krist því þrátt fyrir kreppu, fjársvik og farsóttir kom haustið með fegurð litanna, veturinn með ævintýri barnanna, vorið með söng fuglanna, sumarið með bjartar nætur og manneskjur héldu áfram að elska. Ég trúi á Jesú Krist þegar ég hlýði á sannleika barnanna, vonir unglinganna, trúfesti öldunganna.

Ég trúi á heilagan anda þegar ég horfi á erindi kirkjunnar, samfélag trúaðra, mannfólkið sem finnur þar skjól. Ég trúi á heilagan anda þegar ég horfi á syrgjendur rísa upp til vonar, kúgaða kveðja kvalara sína, friðlausa finna ró. Ég trúi á heilagan anda þegar ég sé illskuna víkja undan valdi kærleikans, manneskjur snúa á fortíð sína, tengsl lifa sjálfan dauðann. Ég trúi á heilagan anda vegna þess að ég er elskuð án skilyrða virt án vilyrða og blessuð fyrir það eitt að vera til ( HEB 2009).

Published inPistlar