Nú stendur yfir meistaramánuður í íslensku samfélagi, þátttaka er vissulega valkvæð en áhrifa gætir engu að síður í almennri umræðu, sumir taka þetta alvarlega og setja sér mjög skýr markmið á meðan aðrir hafa nákvæmlega engan áhuga á því að taka þátt.
Ég hef persónulega ákveðið að verja meistaramánuðinum í það hafa örlítið eða jafnvel talsvert meiri samúð með sjálfri mér og helst ekki hætta því þegar nóvember gengur í garð því þá reynir nú fyrst á sjálfsástina er jólaannir þokast nær.
Nú gæti verið að einhverjir túlki þetta markmið mitt annars vegar sem yfirgengilega sjálflægni eða hreinlega aumingjaskap enda lifum við í tíðaranda sem er sífellt að krefjast þess að við herðum okkur, gefum í, bætum við, eflum sektarkenndina og síðast en ekki síst bjóðum skömminni í kaffi.
Þegar ég var átta ára gömul var ég látin læra svokallaða speglun í stærðfræði í Grenivíkurskóla, ég man að foreldrar mínir áttu í mesta basli með að hjálpa mér með þetta enda höfðu þau aldrei lagt stund á slíkt á sinni skólagöngu, þeirra kynslóð missti af alveg af spegluninni.
Nú komst ég aldrei almennilega upp á lag með þessa speglun ekki frekar en annað sem fyrir mig var lagt á stærðfræðigöngu minni sem endaði raunar á Hausaskeljastað án þess að öðlast hlutdeild í upprisunni, það kann að koma síðar. Ég veit þó að speglun snýst að einhverju leiti um að búa til samhverfar myndir, nú á ég kunningja sem er doktor í stærðfræði og fékkst m.a. við það verkefni í sínu framhaldsnámi að leysa hnúta, já í bókstaflegri merkingu, þannig að ég veit að fyrir mig að fara að tjá mig um samhverfar myndir er ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera, ekki frekar en það að leysa hnúta. Í skátunum lærði ég nefnilega að hnýta hnúta en að leysa þá er auðvitað allt annað mál enda er miklu einfaldara að hnýta eitthvað en að leysa. Hins vegar poppar speglunarreynslan úr öðrum bekk nú upp úr undirmeðvitund minni er ég hugsa um það að finna til samlíðunar með sjálfri mér, það er nefnilega eins konar speglun á það líf sem maður er að lifa. Að finna til samúðar með sjálfum sér er ekki endilega það að afboða verkefni, setja fætur upp á borð, opna einn perlandi, skella Laysflögum í skál og horfa á heila seríu af Scandal. Að finna til samúðar með sjálfum sér snýst um að hlusta eftir líðan sinni og taka mark á því sem þar hljómar. Það er ekkert nema eðlilegt og mannlegt að verða stundum þreyttur, kvíðinn,pirraður og óöruggur með sjálfan sig, sorgmæddur, leiður og jafnvel gremjufullur en ef að þreyta er farin að vera viðvarandi ástand sem og kvíði, pirringur og lítið sjálfstraust, gremja og depurð þá er það merki um að við séum farin að ganga á einhvers konar sálrænum yfirdrætti. Og við vitum öll hvernig yfirdráttur virkar, hann telst aldrei til eigna, yfirdráttur er skuld hvernig sem á hann er litið.
Ég hef enga sérstaka trú á boðum og bönnum né einhvers konar miðstýrðri orðræðu um það sem er hollt og gott fyrir líkamlega og andlega heilsu. Auðvitað vitum við öll að neysla tóbaks, áfengis, sykurs ásamt hreyfingarleysi er ekki æskilegur lífsstíll en samt er vellíðan okkar háð svo miklu flóknari uppskrift.
Það er ljóst að ef við sleppum alveg áfengi, tóbaki, borðum lítinn sykur og hreyfum okkur hæfilega þá erum við búin að útiloka ákveðna þætti sem gætu hæglega unnið gegn andlegri og líkamlegri heilsu okkar en samt erum við ekkert örugg um að halda fullri heilsu. Við hvað eigum við þá að miða? Jú við það að finna til samúðar með sjálfum okkur sem er alls ekki það sama og sjálfsvorkun. Að finna til samúðar með sjálfum sér þýðir að þú finnur leiðir til að láta þér líða betur, það geta verið leiðir sem taka heilmikið á og krefjast talsverðrar fyrirhafnar. Að finna til samúðar með sjálfum sér getur í raun verið svipað ferli og að ganga inn í sorgarhús til þess að styðja og styrkja þau sem þar syrgja. Stundum má nefnilega líkja sálarlífi okkar við sorgarhús þegar þar ríkir vonleysi og depurð. Við göngum ekki inn í sorgarhús og segjum syrgjendum að drekkja sorgum sínum, éta á sig gat eða skríða undir sæng, nei við göngum inn í sorgarhús til að vera syrgjendum stuðningur í því að takast á við lífið í breyttri mynd. Við bjóðumst kannski til að elda góðan mat, hellum upp á kaffi og síðast en ekki síst gefum við okkur tíma til að hlusta með opnu hjarta og virkum huga ásamt því að sýna þolinmæði og skilning. Allt þetta er viðleitni okkar til að sýna syrgjendum samlíðan.
Að finna til samlíðunar með sjálfum sér er ekki fyrirfram gefin leið ekki frekar en þegar maður gengur inn í sorgarhús til að mæta öðru fólki sem hefur orðið fyrir áfalli og missi. Það er t.d. það flókna við að vera prestur, maður getur aldrei notað sömu formúluna tvisvar vegna þess einfaldlega að hver manneskja er einstök sem þýðir að hún gleðst og syrgir með sínum einstaka hætti jafnvel þó að reynslan geti verið sameiginleg öðrum. Að finna til samlíðunar með sjálfum sér er í raun það að efla sína sjálfsþekkingu og virða líðan sína, ef þér líður illa, þá er einhver ástæða fyrir því, ekki hugsa dag eftir dag „þetta lagast“, vegna þess að það gerist ekki án breytinga, hefurðu lent í því að yfirdráttur hverfi skyndilega af reikningi án þess að greiða hann upp? Nei ekki ég heldur.
Að finna til samlíðunar með sjálfum sér er á endanum það að taka ábyrgð á tilfinningum sínum sem krefst nefnilega heilmikils hugrekkis, það er í raun miklu einfaldara að þjösnast áfram án þess að fella grímuna, ausa vanlíðan sinni yfir aðra, ekki endilega með orðum eða gjörðum, það er nefnilega líka hægt að stýra og stjórna með þögn og þrúgandi nærveru. Þess vegna er það að hafa samúð með sjálfum sér akkúrat speglun á það að vera sterkur persónuleiki. Er ekki ágætt markmið í meistaramánuði að finna til meiri samlíðunar með sjálfum okkur og finna út með virkri sjálfshlustun hvernig við getum orðið heilbrigðari og sterkari einstaklingar. Já þó að það væri ekki nema til þess að létta stemninguna á athugasemdakerfum netmiðla.