Lesa meiraÍ minningu vinar "/> Skip to content

Í minningu vinar

Ég veit ekki hvort þið deilið með mér húmor  fyrir dönsku trúðunum eða þáttunum um þá Frank og Casper sem ríkissjónvarpið sýndi fyrir nokkrum árum. Ég veit að þeir fara oft býsna langt yfir strikið og ögra sómakennd fólks, rífa í gildi og viðmið og hrista til hugmyndir okkar um það sem er leyfilegt. Ég hef ósjaldan átt samræður við fólk  um eðli þessa húmors og smekklegheit. En þeir félagar hafa líka gert eina bíómynd í fullri lengd. Ég man einmitt þegar ég sat í sal Nýja bíós og horfði á þessa hrellimynd, þá var ég einmitt nýkomin til prestsstarfa hér á Akureyri sem gerði þetta nú kannski ekki auðveldara  og rann dýpra og dýpra  niður í sætið, grúfði mig í úlpukragann á meðan þeir félagar drógu okkur með sér í eitthvert ótrúlegasta húsfeðraorlof sem vitað er um. Það er skemmst frá því að segja að ég fór ekki fram í hléi, jafnvel þó mér væri mál að pissa, m.a. úr hlátri. Í raun hefur þessum herramönnum tekist að snerta á flestum erfiðustu  viðfangsefnum mannlegrar tilveru enda virðist það vera helsta markmið þeirra með húmornum. Þeir hafa fjallað um heilbilun, helförina, alnæmi, krabbamein, stómapoka ofl. ofl. En í allri þessari flóru viðkvæmra mála er eitt grunnstef sem greina má í þrennt þ.e.: Ótti, fáviska og fordómar sem þeir trúðarnir opinbera með fullkomlega markalausum hætti. Það getur enginn haldið því fram með réttu að þeir hafi gert grín að heilabilun eða krabbameini, stóma eða alnæmi. Nei þeir hafa þvert á móti gert grín að viðbrögðum þeirra sjálfra við þessum erfiðu verkefnum. Þið megið ekki skilja mig sem svo að ég þurfi að halda uppi sérstökum vörnum fyrir þessa kumpána enda þekki ég þá ekki persónulega en hins vegar kannast maður nokkuð vel við mennsku þeirra, því hún á sér samhljóm í öllum samfélögum. Snilldin við þeirra húmor er afhjúpun óttans sem bærist innra með okkur öllum, þó hann mælist vissulega í mismiklu magni og beinist að ólíkum viðfangsefnum. Ég gleymi t.d. aldrei þættinum er þeim félögum bárust þau tíðindi að ritarinn þeirra hefði greinst með brjóstakrabbamein. Fyrst var þeim náttúrulega brugðið og áhorfandinn skynjaði um stund eðlilega samlíðan en svo fór heimska þeirra fljótlega að tala. „Hvernig kæmi það nú eiginlega út fyrir svona framsækið fyrirtæki að hafa einbrjósta konu í frontinum sem þyrfti jafnvel að ganga tímabundið með hárkollu?“  Eftir dágóða umræðu og umhugsun ákváðu þeir félagar að við svo yrði ekki búið og ráku ritarann með útskýringum sem velgdu skóinn þeirra þannig að hlandlyktin varð alltumlykjandi og stæk. Og hugsið ykkur, presturinn grét úr hlátri allan þáttinn ekki vegna þess að ég sé svo fullkomin og myndi aldrei hlaupa á mig í mannlegum samskiptum heldur einfaldlega vegna þess að ótti er svo óborganlega fyndið viðfangsefni  þegar hann er settur fram með svona markalausum hætti.

Svo fjallaði einn þátturinn um heilabilun, ég horfði einmitt á hann stuttu eftir að faðir minn kvaddi úr slíkum sjúkdómi. Og vá hvað það var mikil losun, eins yfirgengilegur og þátturinn annars var. Þið munið kannski eftir honum, þegar þeir tóku heilabilaða vinkonu sína heim í jólaboð og Frank fór að prófa svipu sem hann fékk í jólagjöf og það vildi ekki betur til en svo að hann sló svipunni í brostið andlit vinkonu sinnar svo stórsá á henni en til þess að breiða yfir mistökin áður en maðurinn hennar kæmi út af salerninu, festi hann jólasveinaskegg á andlit hennar í þeirri von að stemmningin myndi ekki fjara út. Og að hverju var verið að gera grín í þessu tilfelli? Ekki að sjúklingnum eða sjúkdómnum, heldur að þeirri undirliggjandi trú að heilabilað fólk hafi hvorki karakter né reisn. Og ég sem var búin að fylgja föður mínum eftir í hans löngu og sáru veikindum sá þarna opinberun ótta sem ég kannaðist við. Auðvitað ekki með svona ýktum hætti, svo því sé nú haldið til haga. En hvað er það annað en ótti að segjast ekki vilja heimsækja heilabilaðan mann af því að maður kjósi að muna hann eins og hann var, rétt eins og vinir mínir úr menntaskóla nenntu ekki að heilsa mér í dag af því að ég er orðin og fullorðin og breytt með grátt í vöngum. Eða tala um sjúklinginn í þriðju persónu að honum viðstöddum eins og mörgum hættir til að gera í návist þeirra sem hafa minnissjúkdóma. Ég gat kannski ekki séð húmorinn í þessu þá en þegar ég sá trúðana bera þetta svona fram þá veltist ég um af hlátri og gömul gremja  fékk tilhlýðilega útrás.

Ég man líka þegar vinur minn sem veiktist af krabbameini var að upplýsa mig um það sem ég skyldi ekki spyrja krabbameinssjúkling, hann sagði að það væru nánast svona 10 boðorð sem gott væri að kunna. Honum fannst t.d. alltaf jafn merkilegt þegar fólk kom til hans til að segja honum frá einhverju öðru fólki sem væri að glíma við miklu verra krabbamein en hann, eins og það breytti einhverju um hans aðstæður. Ég man að hann sagði mér að hann langaði mest til að svara slíkum athugasemdum með eftirfarandi hætti, „Ókei fyrst þetta er ekki svona slæmt, ertu þá ekki bara til í að taka þetta að þér.“ En auðvitað vissi hann hvað bjó að baki enda vitur og lífsreyndur maður og í stað þess að svara með hranalegum hætti tók hann að fræða um sitt krabbamein, blöðruhálskrabbamein með markvissum hætti og hvetja yngri menn til að fylgjast með einkennum þessa sjúkdóms enda var hann sjálfur langt undir meðalaldri þeirra sem venjulega greinast með þá tegund, hann sneri s.s. fimlega á óttann með hugrekkið eitt  að vopni. Svo voru einhverjir sem spurðu hann „hverjar eru líkurnar?“ og þá svaraði hann að bragði „bara svipaðar og hjá þér, ég er enn á lífi.“ Hann var sko flottur og þó að fjandans krabbameinið sem hann sagði mér að nefna alltaf réttu nafni hafi haft betur að lokum, þá hafði vinur minn alltaf betur á meðan hann lifði. Honum var umhugað um að hlutirnir væru nefndir réttum nöfnum, „Hildur ekki segja vágestur eða illvígur sjúkdómur, segðu krabbamein (vitandi að prestar eiga það til að vera svolítið hátíðlegir). “Auðvitað, af því að um leið og við förum að nefna hlutina öðrum nöfnum, þá erum við farin að hvísla og um leið og við erum farin að hvísla þá erum við farin að hleypa óttanum að og um leið og við hleypum óttanum að þá erum við hætt að styðja hvert annað.

Októbermánuður er táknmynd frelsis þegar kemur að umræðunni um krabbamein, þá gefa þau sem hafa eða eru að ganga í gegnum þessa reynslu okkur hinum gjöf sem inniheldur hvatningu til að njóta lífsinsins og þakka. En þau eru líka að kenna okkur að tala um sjúkdóma með opnum og eðlilegum hætti. Eitt sem að fyrrnefndur vinur minn talaði um og mig langar í minningu hans að koma á framfæri er að það er líka mikilvægt að heyra í þeim sem lifa með þessum sjúkdómi, þ.e.a.s. eygja ekki von um lækningu en lifa samt eins og annað fólk, gleðjast, njóta og leyfa sér að hlakka til. Það er nefnilega líka hægt að lifa með krabbameini eins og hann sýndi okkur sem vorum honum samferða, ekki síst ef samfélagið viðurkennir það sem venjulegan sjúkdóm sem fer marvíslegar leiðir. Þetta var með því síðasta sem við töluðum um og nú hef ég  að einhverju leyti komið því til skila. Já Guð blessi minningu vinar míns og húmoristans Hauks Lárusar Haukssonar.

Published inPistlar