Hefurðu spáð í hvað samskipti hjóna eða para hafa ólík en oft mikil áhrif á þig sem ert þeim nærri? Sum pör eru alltaf hátt uppi í hrifningu sinni á hvort öðru og virðast leitast eftir því af fremsta megni að sanna fyrir heiminum að þau sé brjálæðislega ástfangin, maður samgleðst þeim en skilur samt ekki af hverju þau geti ekki bara slakað á, þau eru búin að finna hvort annað og það er það sem skiptir máli. En svo eru önnur pör sem leggja sig fram um að vera gremjuleg og pirruð við hvort annað og leita jafnvel stuðnings þeirra sem eru í kringum þau, nota tækifærið til að varpa neikvæðu ljósi á makann á meðan einhver vitni eru að því eins og það sé leiðin til að vinna úr óuppgerðum sársauka og vonbrigðum. Þú mátt alls ekki misskilja mig með ástföngnu pörin, það gleður mig mjög að vera innan um ástfangið fólk, það er hreinlega ein af upprisumyndum frelsarans í sama dálki og ilmur af nýslegnu grasi og hjal hvítvoðungs. En ég þekki það líka vel hversu gott er að hvíla í samskiptum við hjón sem hafa einhvern veginn fundið sameiginlegan lífstakt, eru afslöppuð í nálægð hvors annars, geta hlegið saman, hlusta þegar annað er að tjá sig, taka við gagnrýni og virða það að makinn hafi aðra skoðun á þeim málum sem eru til umræðu, verða ekki gremjuleg á svip eins og barn sem hefur verið neitað um sleikibrjóstsykur. Maður veit að þessi tegund af hjónum sleppur ekki við ósætti og pirring né daga þar sem ástarhitinn lækkar en heilt yfir eru þau sátt við sitt og hafa einhvern veginn lært af reynslunni að þetta verður eins gott og þau eru tilbúin að hafa það. Þau hafa líka lært að það borgar sig ekki að vera að setja eitthvað á svið en um leið taka þau ábyrgð á líðan sinni og ausa ekki vandamálum sínum yfir allt og alla, þetta gæti heitið hjónaband hins gullna meðalvegs. Nema hvað þessi prédikun fjallar ekki um hjónabandið heldur um það hvernig við tölum um trú okkar í almannarýminu þar sem allskonar fólk með allskonar bakgrunn mætist og speglar sig í afstöðu náungans.
Ég er persónulega þannig stödd að öfgar í þessum málum gera mig dapra, ég veit að það er ekki mitt að dæma um hvaða leið sé rétt og sönn enda mun ég aldrei ná að höndla sannleikann og ég veit að það er mikilvægt að virða tjáningarfrelsið sem eitt af grunnstoðum algildra mannréttinda og þess vegna er ég ekkert of góð til að heyra rödd þeirra sem finna kirkjunni allt til foráttu finnst hún vera mikil forréttindadama og nota alltaf orðið ríkiskirkja í stað þjóðkirkju þar sem þunginn í orðinu ríkiskirkja fær mann til að hugsa um handrukkara á hrossasterum sem ætlar að fá fólk til að borga með góðu eða illu.„ Ég er stórkostlegasti trúarinn og Guð veit það“ eru hinar öfgarnar sem hafa í raun svipuð áhrif á mig og ríkiskirkjutalið af því að þær loka strax á samtalið sem er svo gríðarlega mikilvægt fyrir þroska kirkju og þjóðar, samtalið um það hvert hlutverk kirkjunnar er í fjölmenningarsamfélagi, því þó Kristur sé hinn sami í dag og gær og á morgun þá er hlutverk kirkjunnar breytingum háð. Hún heldur auðvitað áfram að þjóna fólki á stærstu tímamótunum í lífi þess með öllum þeim athöfnum sem við þekkjum en engu að síður breytist staða hennar sem félagsheimilis allra landsmanna. Og kirkjan hefur ekkert verra af því að aðlaga sig breyttum aðstæðum og þurfa að endurskoða orðræðu sína eða hefðir, það að hún sé knúin til þess, þýðir að hún er á lífi.
Þegar sú frétt barst út í samfélagið að taka ætti út morgun og kvöldorð útvarpsins varð ég vissulega hugsi, ekki af því að ég teldi það marka endalok kristni á Ísland heldur vegna þess að ég hitti svo oft fólk, gamalt fólk og veikt, einangrað og einmana sem hefur tjáð mér að því þyki notalegt að meðtaka þessa andlegu næringu í gegnum viðtækin þar sem það hefur sjaldan tök á að rækta trú sína í samfélagi við aðra eða finnst einfaldlega gott að meðtaka ástarjátningu Guðs þrátt fyrir að vera kannski ekki lengur samkeppnishæft að mati tíðarandans. Við þurfum auðvitað líka að vanda bænamálið og gæta þess að það sé umvefjandi en ekki dæmandi, við vöndum ekki um fyrir fólki í bæn, bænin er fyrst og síðast gjöf Guðs til að sameina okkur en ekki sundra.
Að þessu sögðu er ekkert sem segir að RÚV beri skylda til að bjóða upp á trúarlega þjónustu, sjúkrahúsunum ber heldur ekki skylda til þess en þau gera það samt vegna þess að þar starfar fólk sem hefur séð með eigin augum hvað það er dýrmætt að geta boðið upp á slíkan stuðning á ögurstundum í lífi fólks bæði sjúklinga og aðstandenda. En ögurstundirnar eiga sér víða stað. Margt fólk er í mikilli angist eins og fram kom í frábærri fjölmiðlaumfjöllun í kringum alþjóðlegan forvarnardag gegn sjálfsvígum þann 10.sept síðastliðinn. RÚV brást líka við beiðni fólks um að halda bænamálinu inni sem er bara þakkarvert þrátt fyrir að sumum stuðningsmönnum morgun og kvöldorða hafi ekki þótt málamiðlunin ásættanleg. Ég legg ekki persónulegt mat á tímasetningu morgunbænanna en gleðst fremur yfir því að stofnunin hafi ekki tekið þennan lið af dagskrá heldur hlustað og sameinað ólík sjónarmið í fjölmenningarsamfélagi, þarna átti sér stað samtal sem var lærdómsríkt og gott.
Ég óttast það aldrei að kirkjan deyi út ekki frekar en ég óttast að fólk hætti að verða ástfangið og eignast börn eða stofna til vinatengsla. Kirkjan er svo miklu meira heldur en sú stofnun sem blasir við fólki í hinu daglega lífi, hún er, vegna þess að hjarta hennar slær á himnum. Ég get haft einhverja skoðun á því hvernig við eigum að haga okkur sem kirkja og ég mun vafalaust halda þeirri skoðun minni á lofti um ókomin ár en dag einn verð ég ekki hér á meðan kirkjan verður sprelllifandi og uppbyggð af nýrri kynslóð sem heldur áfram að klóra sér í höfðinu og velta fyrir sér hvernig best sé að haga tjáningu trúarinnar.
Ég veit bara eitt að mig langar til að fólk upplifi kirkjuna sem svona hjónaband þar sem fólk er afslappað gagnvart hvert öðru, getur hlegið að fáránleika mannlegs breyskleika, tekið uppbyggilegri gagnrýni, virt ólíkar skoðanir, viðurkennt að hjónabandið eða trúin sé ekki alltaf jafn heit, að á því sé bara dagamunur, verið skemmtilega hallærislegt á stundum af því að það er bara fallegt eins og þegar sálmar eru sungnir obbolítið mærðarlega, það er enginn skaði skeður,bara hlýlegt. Ég virði af heilum hug og hjarta trúleysi fólks sem og trúarhita ég virði það að kirkjan sem stofnun geti farið í taugarnar á fólki, ég virði það að fólk vilji berjast fyrir morgunbænum og kvöldorðum.
Það sem mig dreymir hins vegar um er að við getum horft á kirkjuna sem heimili þar sem menn þurfa ekkert endilega að gera grein fyrir vinnudeginum en mega bara hvíla í þeirri vissu að þeir séu elskaðir burtséð frá hugsanlegum afrekum. Jesús vissi að við værum tengslaverur, hann vissi að félagsleg tengsl á jafningjagrunni þar sem allir hafa sinn tilverurétt er algjört lykilatriði í líkamlegri og andlegri vellíðan, þess vegna lagði hann til að við stofnuðum kirkju. Ég hugsa að félagsleg einangrun eða sú staða að upplifa sig ekki hafa aðgang að samfélaginu sé mesti heilsuspillir okkar tíma og raunar allra tíma. Ef kirkjan nær að rjúfa þessa einangrun þá er hún að sinna sínum skyldum sem lýðheilsustöð sem hvílir á herðum frelsarans frá Nasaret sem nota bene elskaði mannlega breyskleika.